Ástralski arkitektinn Lisa Breeze fékk það verkefni að endurhanna hús sem byggt var í kringum 1940. Hún ákvað að halda í gamla stílinn en útfæra hann á nútímalegan hátt.
Eitt skemmtilegasta rýmið í húsinu er eldhúsið en það skartar myntugrænni innréttingu þar sem bogadregnar línur fá að njóta sín. Eldhúsinnréttingin minnir á árin í kringum 1940 en þó með nútímalegu yfirbragði. Á innréttingunni eru allar höldur miðjustilltar og því ekkert höldufyllerí í gangi.
Til þess að fegra eldhúsið enn þá meira er marmaraborðplata og marmari upp á vegg.
Breeze sótti innblásturinn í innréttingahönnunina í upprunalegu innréttinguna sem var í eldhúsinu áður. Á gólfinu eru Terrazzo-flísar sem tóna vel við myntugræna litinn og marmarann. Í eldhúsinu er heildarmyndin falleg og hressandi tilbreyting frá svörtum og hvítum kassalega eldhúsum.