Opið eldhús, fallegar hillur, útsýni og heitur pottur er eitthvað sem fólki þykir heillandi. Það er því ekki skrýtið að fólk hafi fallið fyrir þessari glæsiíbúð við Bríetartún í Reykjavík.
Um er að ræða 136 fm íbúð á 8. hæð í glæsilegu fjölbýli sem er vel staðsett. Úr íbúðinni er óhindrað útsýni til suðurs, vestur og austurs og eru svalirnar heilir 22 fm að stærð.
Í íbúðinni er falleg eldhúsinnrétting með dökkum frontum. Innréttingin er frá Parka og eru fallegar viðarborðplötur á innréttingunni. Gott vinnupláss er í eldhúsinu en einnig gott skápapláss.
Eldhúsið er opið inn í borðstofu og stofu og á veggnum við hliðina á eldhúsinu er fallegur hilluveggur með fimm hillum sem boraðar eru upp á vegg. Svona hillur eru alltaf fallegar og setja svip á rýmið. Í borðstofunni eru líka skápar með basthurðum sem koma vel út. Húsgögnum er raðað fallega upp og er ekkert verið að klessa sófum upp við veggi heldur fær sófinn að njóta sín úti á miðju gólfi.
Í íbúðinni er hjónasvíta með baðherbergi sem mörgum þykir eftirsóknarvert að hafa.