Lofthæðin það sem heillar mest

Helga er með meistaragráðu frá Konunglega list- og arkitektaskólanum í …
Helga er með meistaragráðu frá Konunglega list- og arkitektaskólanum í Kaupmannahöfn (d. Den Kongelige Kunstakademiets Arkitektskole). mbl.is/Unnur Karen

Helga Vilmundardóttir arkitekt á fallegt hús sem var byggt árið 1960. Fjölskyldan eignaðist húsið árið 2015 og hefur verið að gera það upp hægt og rólega á undanförnum árum. 

Helga Vilmundardóttir er annar eigandi Stáss arkitekta. Hún er með meistaragráðu frá Den Konelige Kunstakademiets Arkitektskole í Kaupmannahöfn. Hún er stjórnarmaður í stjórn arkitektafélagsins og lýsir starfinu sínu sem fjölbreyttu og skemmtilegu.

„Maður fær oftar en ekki að starfa í skapandi umhverfi en fær jafnframt að vera í góðu samtali við alla þá sem koma nálægt verkefnunum sem er ánægjulegt og gefur verkefnum meiri dýpt þegar gott samtal er á milli aðila.“

Helga býr í húsi sem er byggt árið 1960.

Fjölskyldan keypti húsið árið 2015 og hefur verið að gera …
Fjölskyldan keypti húsið árið 2015 og hefur verið að gera það upp hægt og rólega á undanförnum árum. mbl.is/Unnur Karen

„Við keyptum húsið árið 2015 og höfum verið að taka það hægt og rólega í gegn. Næst á dagskrá hjá okkur heima er að taka baðherbergið okkar í gegn.

Við erum búin að vera í framkvæmdapásu í nokkra mánuði en núna er ég orðin mjög spennt að tækla næsta verkefni.“

Ánægð með allt sem hún hefur gert heima

Áttu þér upphálds uppgert svæði í húsinu?

„Það er erfitt að velja en ég er mjög ánægð með flestallt sem við höfum gert. Eldhúsið og stofan eru kannski mín uppáhaldssvæði en líka hjónaherbergið okkar. Þar var áður þvottahús og geymslur en við breyttum því í rúmgott herbergi með „en suite“-baðherbergi og fataherbergi.“

Fyrri eigendur hússins gáfu fjölskyldunni þennan sófa. Hann var búinn …
Fyrri eigendur hússins gáfu fjölskyldunni þennan sófa. Hann var búinn til fyrir rýmið á sjöunda áratugnum og er upprunalegur og gerður af portúgölskum húsgagnasmiði. Þegar þurfti að endurnýja svampana í honum var settur á hann þessi hressandi litur. Á veggnum eru ljós frá Louis Poulsen sem passa vel við bronskúlurnar frá Tom Dixon mbl.is/Unnur Karen

Hvað heldur þú upp á sem er upprunalegt í húsinu?

„Ég er búin að halda í loftpanil í stofunni. Mér finnst hann gefa alrýminu skemmtilegan karakter.“

Er ekki mikil kúnst að halda í það sem er gamalt, setja inn sinn eigin stíl og að uppfæra og endurgera hús sem eru gömul?

„Ég veit ekki alveg. Þetta kemur einhvern veginn í góðu flæði hjá mér og er að mestu áreynslulaust. Í okkar tilfelli finnst okkur samt gott að gera ekki allt í einu heldur gera hlutina í skrefum og lesa þannig í húsið og hvernig við nýtum það, hvar er birtan best, hvernig flæðið er á milli rýma og hvernig það passar við takt okkar heimilisfólksins.“

Ekki er öll hönnun arkitektúr

Hver er munurinn á hönnuðum og arkitektum?

„Hönnun og arkitektúr eru hugtök sem tvinnast saman en ekki er öll hönnun arkitektúr.

Arkitektúr er náttúrlega ótrúlega mikilvægur hluti í lífi okkar allra og kemur við sögu í öllu okkar byggðaumhverfi. Ég held að almenningur átti sig almennt ekki á mikilvægi og mótunarmætti arkitektúrs.

Flestallir geta verið sammála um að staðir í borgum og bæjum eru misjafnir. Sumar byggingar og sum rými eru staðir þar sem fólki almennt líður vel og fólk sækist í dvelja á.

En hvað er það sem gerir það að verkum að þessir staðir og rými verða eftirsóknarverðari og jafnvel betri en aðrir staðir?

mbl.is/Unnur Karen

Ef vel er að gáð eiga þessi rými, byggingar eða borgarrými það oftar en ekki sameiginlegt að til staðar eru gæði. Gæði í arkitektúr eru þar sem nýtur til dæmis dagsbirtu og loftrýmis, náttúra, útsýni og fleira.

Þegar verið er að endurgera gömul hús er mikilvægt að huga að þessum arkitektónísku gæðum og ef það eykur á þessi gæði að taka niður vegg eða bæta við eða stækka glugga þá hefur það góð áhrif á rýmið og þannig góð áhrif á lífsgæði þeirra sem munu nota rýmið.

Þannig að arkitektúr er í grunninn rýmin og flæðið, birtan, hvernig umhverfið er dregið inn í rýmin og hvernig það birtist í umhverfi sínu.

Litir, fletir, húsgögn og annað eru að vissu leyti skreyting og útskiptanlegt og verður oftar en ekki úrelt með tímanum en arkitetkónísk gæði standast yfirleitt tímans tönn.“

Hvað heillaði þig mest við húsið sem þú býrð í núna?

„Lofthæðin klárlega og stórir suðurgluggar sem vísa út í garð.“

Í eldhúsinu er stór skápaveggur með bakaraofni og viðarhurðum. Þessi …
Í eldhúsinu er stór skápaveggur með bakaraofni og viðarhurðum. Þessi skápur fer vel við eyjuna sem er hvít með ljósum nátt- úrusteini. Einfaldleikinn ræður ríkjum í þessu rými. mbl.is/Unnur Karen

Hvað með stílinn þinn heima?

„Það er enginn stíll heima hjá mér heldur bara tilfinning.“

Hvað finnst þér almennt um arkitektúr á Íslandi?

„Mér finnst mjög mikið af ótrúlega áhugaverðum arkitektúr á Íslandi bæði gömlum og nýjum.

Það er líka mjög mikið af drasli sem verið er að byggja þar sem gæði í arkitektúr eru fótum troðin og kemur það mest niður á þeim sem eiga að nota byggingarnar.“

Er unga fólkið að nálgast húsnæði sitt öðruvísi en fyrri kynslóðir?

„Ég held að fólk kjósi meiri sveigjanleika í notkun á fermetrum innan íbúða en það gerði áður. Þannig að unga fólkið okkar er meira að stýra nýtingu heimila sinna. Sem dæmi: Viltu hafa fimm fermetra geymslu eða nægir þér að hafa tveggja fermetra geymslu og viltu nýta þessa þrjá aukafermetra í meira pláss í borðstofunni? Valmöguleikarnir eru endalausir og að sjálfsögðu á heimilið að vera eins og þú vilt hafa það.“

mbl.is/Unnur Karen
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda