Hefur flutt tæplega fimmtíu sinnum

Þóranna Friðgeirsdóttir er sérfræðingur í að flytja eftir alla flutningana …
Þóranna Friðgeirsdóttir er sérfræðingur í að flytja eftir alla flutningana sem hún hefur staðið í síðustu ár. mbl.is/Arnþór Birkisson

Þóranna er nemi í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands og ráðgjafi hjá Dale Carnegie. Hún býr ein með börnunum sínum þremur í leiguíbúð í Laugardalnum. Hún er ekki óvön því að flakka um leigumarkaðinn og hefur gert það meira og minna alla sína ævi.

„Við mamma vorum lengi bara tvær og það er líklega ástæðan fyrir flutningunum. Ég tók að gamni mínu saman öll götuheitin og húsin sem við bjuggum í meðan ég var í grunnskóla, en á því tímabili fluttum við 22 sinnum, allt innan Akureyrar. Alls hef ég flutt 47 sinnum síðan ég var sex ára. Flutningunum fylgdu auðvitað tíð skólaskipti og gekk ég í fimm grunnskóla og einn þeirra tvisvar. Eftir það kom tímabil þar sem ég hreinlega bjó í ferðatöskum, en móðir mín flutti til Noregs þegar ég var 17 ára og ég neitaði að fara með. Ég fór því til New York þar sem ég var au pair í nokkra mánuði og kom að því loknu heim og flakkaði á milli ættingja með töskuna mína,“ segir Þóranna sem svo fluttist aftur til Akureyrar og síðar til Reykjavíkur þar sem hún býr í dag.

Væri 20 ár að safna fyrir útborgun í íbúð

Eitt og hálft ár er síðan Þóranna og börnin fluttu inn í núverandi húsnæði eftir að hafa þvælst um á leigumarkaðnum, fyrst á Akureyri og svo í Reykjavík.

„Við fluttum fimm sinnum á árunum 2016-2021. Ég hef alltaf verið heppin með leigusala en síðast datt ég þó algerlega í lukkupottinn, er að leigja af yndislegum hjónum sem eru mjög sanngjörn. Ég lofaði sjálfri mér að flytja ekki aftur fyrr en ég gæti keypt mér mitt eigið húsnæði og ef útreikningar mínir reynast réttir ætti það ekki að taka nema 20 ár! Krakkarnir verða þá allir fluttir að heiman og ég ætti að svífa gegnum greiðslumatið. Verandi námsmaður með þrjú börn er ekki möguleiki að ég fái greiðslumat og það þarf eitthvað stórkostlegt að gerast til þess að ég geti safnað mörgum milljónum í þeirri stöðu sem ég er. Auðvitað dreymir mig um að geta eignast mitt eigið húsnæði þar sem plássið er nægt fyrir okkur fjögur og þar sem ég get bara verið það sem eftir er. Það hefur bara ekki verið val, en ef svo yrði myndi ég líklegast aldrei flytja þaðan.“

Þóranna segir leigumarkaðinn þungan. „Það er auðvitað galið að maður sé með greiðslugetu upp á 2-300.000krónur á mánuði fyrir húsaleigu en fái ekki greiðslumat fyrir sínu eigin húsnæði, en þetta gerir einstæðum foreldrum nánast ógerlegt að fjárfesta. Áætluð framfærsla fyrir hvern einstakling og barn er svo ofboðslega há að manneskja á námslánum eða í láglaunastörfum á ekki séns að safna sér fyrir útborgun. Ég veit um marga sem hafa haft tök á því að fá lánað, búa hjá fjölskyldu á meðan safnað er eða hvað eina til þess að komast inn á fasteignamarkaðinn, en við erum mun fleiri sem búum ekki við þann lúxus. Ég veit að engin töfralaus er til en það þarf að finna úrræði til þess að aðstoða ungt fólk með börn til þess að komast í öruggt húsnæði, þetta gengur ekki. Það eru til leigufélög og búsetufélög þar sem þú þarft að leggja minna út en á hinum almenna markaði, en leiguverðið er engu að síður hátt þannig að hvað eigum við að gera til að komast af?“

Þóranna reynir að sanka ekki að sér óþarfa dóti.
Þóranna reynir að sanka ekki að sér óþarfa dóti. mbl.is/Arnþór Birkisson

Passar að halda sig innan sama skólahverfis

Aðspurð hvort flakkið hafi haft slæm áhrif á hana sjálfa og krakkana segir Þóranna það ekki endilega vera.

„Ég furða mig oft á því að þrátt fyrir tíða flutninga sem barn finn ég ekki fyrir rótleysi. Ég var mjög opið barn og félagslega sterk og þótti þetta svo sem ekkert tiltökumál. Oftar en ekki þegar mamma sagði mér að við værum að fara að flytja, hugsaði ég hvernig nýja herbergið mitt kæmi til með að líta út og hvernig ætti ég að innrétta það, ég hafði alltaf jafn gaman af því að koma mér fyrir á nýjum stað. Ég á afmæli í lok september og þrátt fyrir að hafa oftar en ekki aðeins verið nokkrar vikur í nýjum skóla var ég alltaf með fullt hús í afmælinu mínu, ég held að það segi allt um það hvernig flutningarnir almennt fóru í mig. Námsgrunnurinn minn varð þó ekki eins sterkur og er það eina neikvæða sem ég sé við þetta allt saman.

Varðandi krakkana þá hefur mér tekist að halda okkur innan sama hverfis, bæði á Akureyri og í Reykjavík, þannig að þau hafa ekki þurft að flakka mikið á milli skóla, það er eitthvað sem ég hef passað vel upp á. Blessunarlega búa börnin mín einnig yfir mikilli aðlögunarhæfni og þar af leiðandi hefur flakkið með þau aldrei verið neitt mál. Unglingurinn er forfallinn internet-fasteignaskoðari svo þessi sífelldu húsnæðisskipti hafa mögulega kveikt þann áhuga hjá henni frekar en hitt,“ segir Þóranna.

Tengist hlutum ekki tilfinningaböndum

Sífelldir flutningar hafa gert Þórönnu flinka í því að pakka niður og koma sér og sínum fyrir á nýjum stað. „Jákvæða hliðin á þessu er að mér þykir ekkert mál að pakka, er eldsnögg og mjög skipulögð. Ég passa mig að eiga ekki mikið af dóti og losa mig reglulega við allt sem ég nota ekki eða hef ekki þörf fyrir. Þegar flutningar eru fram undan fer ég yfir heimilið, endurhugsa allt og losa mig við það sem ég sé ekki not fyrir á næsta stað. Ég tengist hlutum ekki tilfinningaböndum og gæti sett allt sem mér þykir vænt um í einn bakpoka og labbað út. Ég byrja að pakka því sem ég nota ekki daglega og vinn mig síðan þaðan. Ég passa alltaf að hafa allt eldhúsdót saman, stofudót saman þannig að auðveldara sé að finna dótið aftur.

Ég er eins og elding að koma mér fyrir á nýjum stað og þykir það virkilega skemmtilegt. Ég nýt þess að raða og pæla í nýjum rýmum og hef einstakt lag á því að búa mér heimili hverju sinni. Það tekur þó alltaf svolitla stund að átta sig á bestu uppröðuninni og ég get endalaust bætt og dúllað mér heima við. Ég held að ég hafi engan sérstakan stíl, fer bara eftir húsnæðinu sem ég bý í. Mér finnst í það minnsta lítið mál að breyta eftir því hvað mig langar til hverju sinni.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda