Nadía Katrín Banine er löggildur fasteigna- og skipasali og starfar hjá fasteignasölunni Domusnova í Kópavogi. Hún hefur einnig starfað sem innanhússráðgjafi í fjölda ára en til þess að styrkja stöðu sína á líflegum markaði bætti hún við sig námi í innanhússhönnun frá IED-skólanum í Milano. Kristborg Bóel Steindórsdóttir | boel76@gmail.com
„Við þáttagerðina fékk ég heilmikla útrás fyrir sköpunarþörfina, en ég var ekki einungis að heimsækja fólk og fyrirtæki heldur einnig að innrétta rými og vera með „DYI-innslög,“ segir Nadia Katrín, sem síðar hóf störf sem sölufulltrúi á fasteignasölu og í vor verða svo fimm ár frá því hún lauk námi sem löggildur fasteigna- og skipasali.
Nadía Katrín segist alltaf hafa haft áhuga á sínu nærumhverfi og því því hvernig væri hægt að fegra og gera huggulegt í kringum sig án mikils tilkostnaðar. „Ég var reyndar ótrúlegur draslari sem barn og man eftir því að hafa rutt leið á gólfinu frá hurðinni að rúminu til þess að þurfa ekki að stíga á dótið mitt. Ég hef svo líklega verið um 12 ára þegar ég ákvað að nú væri nóg komið og kom herberginu mínu í stand. Ári síðar byrjaði ég svo að safna húsgögnum, keypti meðal annars eitthvað af systur minni sem amma hafði gefið henni og langafi okkar hafði átt. Ég var til dæmis búin að kaupa mér gamlan Westinghaus-ísskáp löngu áður en ég eignaðist eigið heimili. Á þessum aldri var ég svo farin að teppaleggja og mála fyrir mömmu sem þá var einstæð með fögur börn og hafði skiljanlega ekki mikið á milli handanna, en þá kom útsjónarsemi sér vel.“
Þrátt fyrir lítinn markað eru mjög margir fasteignasalar starfandi á Íslandi. Nadia Katrín sá því fljótt að ráð væri að styrkja stöðu sína og bæta við sig námi. „Við erum svo lítið samfélag og það er bara almennt ekki nógu mikið að gera fyrir alla fasteignasala. Ég taldi því að skynsamlegt væri að láta gamlan draum rætast og hafa eitthvað umfram að bjóða og ákvað að ná mér í réttindi og kunnáttu til þess að geta kynnt á faglegri hátt viðskiptavinum mínum hugmyndir og hönnun,“ segir Nadia Katrín sem lét ekki sitja við orðin tóm og lærði innanhússhönnun við IED-skólann í Milano á Ítalíu. Ég hef verið mikið í gegnum tíðina að aðstoða við innanhússráðgjöf og innréttað rými fyrir sjálfan mig, vini og kunningja en aldrei sérstaklega verið að auglýsa mig sem hönnuð. „Námið var bæði gefandi og erfitt, ég þurfti aldeilis að pússa upp tölvukunnáttuna og læra á helling af forritum. Ég hélt að það snerist meira um lita- og formfræði og mismunandi strauma og stefnur. Það gekk hins vegar mikið út á rýmishönnun og margslungnar útfærslur. Við þurftum að hanna veingastaði, íbúðir hús og fleira, jafnvel klára rafmagnsteikningar þar sem hugsa þurfti fyrir öllum rofum og tenglum. Námið var því miklu djúpstæðra og yfirgripsmeira en ég átti von á, svo ég er gífurlega ánægð að hafa loksins drifið mig,“ segir Nadía Katrín.
Fasteignamarkaðurinn hefur verið líflegur að undanförnu, framboð eigna í sögulegu lágmarki og eftirspurnin mikil. „Já, þetta eru skrítnir tímar. Þetta er eflaust samspil margra þátta og heimsfaraldurinn hefur gífurleg dómínóáhrif. Staðan hefur verið mörgum erfið meðan hún hefur skapað góssentíð fyrir aðra. Við Íslendingar erum ótrúlega nýjungagjarnir og duglegir að endurnýja, hlúa vel að heimilunum okkar og eyðum miklum tíma innanhúss. Ég man þegar ég bjó í Berlín, þá var mjög vinsælt að leigja Íslendingum því þeir tóku til hendinni og hugsuðu vel um íbúðirnar. Síðustu tvö árin höfum við ekki geta ferðast mikið og þess í stað sett orkuna í að laga heimilin, en margar húsgagnaverslanir hafa ekki undan að panta inn og biðtíminn er á stundum mjög langur. Síðasta sumar var líklega slegið met í uppsettum fjölda útieldhúsa sem reist voru í görðum víðs vegar um landið. Ég held að ekkert útlit sé fyrir að markaðurinn sé að breytast á næstunni, en með hækkandi sól færist alltaf meira fjör í hann og fleiri hugsa sér til hreyfings. Þessa mánuðina eru Íslendingar ekki mikið að selja, heldur fara til Tenerife,“ segir Nadia Katrín og hlær.
Nadia Katrín segir nám sitt í innanhússhönnun styðja vel við starfið sem fasteignasali, en hún er einnig sjálfstætt starfandi innanhússhönnuður utan fasteignasölunnar. „Fasteignasalinn er sá aðili sem oft er með ævisparnað fólks á sinni ábyrgð. Það skiptir því miklu máli að vinna faglega, af heiðarleika og sýna hverjum og einum viðskiptavini nærgætni og tillitssemi. Það hjálpar heilmikið ef hann hefur gott auga fyrir smáatriðum sem skipta máli við söluna. Góð kynning og fallegar myndir auka svo líkur á að fleiri komi og skoði og hámarksverð fáist fyrir eignina,“ segir Nadía Katrín sem er eitt dæmi sérstaklega eftirminnilegt. „Til mín leitaði eigandi fasteignar sem hafði verið níu mánuði á markaðnum hér á höfuðborgarsvæðinu. Við skoðun sá ég að vel mætti laga bæði myndir og kynningu. Til þess að gera langa sögu stutta fór það svo að nágranninn sem aldrei hafði haft áhuga á að skoða húsið keypti það,“ segir Nadía Katrín sem bætir því við að vinnan á Domusnova sé gefandi, skapandi, ófyrirsjáanleg og aldrei leiðigjörn. „Ég vinn með frábæru fólki og hef alveg einstaka yfirmenn. Ég er svo með þrjú hönnunarverkefni í gangi núna sem engin eru eins þannig að vinnan mín er virkilega fjölbreytt og engir tveir dagar eins.“
Aðspurð hvort fólk í söluhugleiðingum ætti að hafa eitthvað sérstakt í huga þegar íbúðin er sýnd segir Nadía Katrín; „Eins og Kaninn kallar það, þá þykir mér „curb appeal“ alveg gífurlega mikilvægt, en það er það fyrsta sem fólk upplifir þegar það kemur að fasteigninni. Hvað sjáum við, hvað heyrum við og hvaða lykt finnum við, það skiptir miklu máli að þessi upplifun sé jákvæð. Það að ganga inn í illa lyktandi stigagang áður en komið er inn í fallega íbúð getur til dæmis verið mjög stuðandi fyrir væntanlega kaupendur. Ef það fyrsta sem tekur á móti fólki fyrir utan húsið er rusl og drasl getur það einnig kallað fram neikvæða upplifun. Allt þetta verður að passa því þetta eru atriði sem geta fylgt fólki þegar hugsað er til baka um heimsóknina. Þá er mikilvægt að íbúðin sjálf sé snyrtileg og að flæðið sé gott. Ef fólk er á annað borð að flytja út er gott ráð að byrja að pakka og rýma aðeins svo eignin njóti sín sem best.“