Gefandi að sjá muninn „fyrir og eftir“

Þórlaug Sæmundsdóttir nýtur þess að hafa fallegt í kringum sig.
Þórlaug Sæmundsdóttir nýtur þess að hafa fallegt í kringum sig. mbl.is/Arnþór Birkisson

Það veitir fólki mismikla ánægju að skipuleggja og flokka dót. Í Seljahverfinu býr verðandi textílhönnuðurinn og maximalistinn Þórlaug Sæmundsdóttir sem veit fátt skemmtilegra en að koma reiðu á óreiðuna. Þórlaug hefur tekið að sér skipulagsverkefni fyrir annað fólk og hyggst gefa sig út fyrir slíkt frá vormánuðum. 

Þórlaug hefur alltaf haft áhuga á skipulagi og uppröðun hluta.
„Ég man bara eftir mér sem barni, vitandi hvar allt var að finna, en mögulega hef ég kannað allar hirslur í kringum mig til þess að komast yfir þá vitneskju. Ég veit svo sem ekki hvaðan þessi áhugi kemur en ég hef alltaf átt auðvelt með að flokka hluti og ná yfirsýn, mögulega spilar kvíðinn minn þar inn í og hefur þroskað þann hæfileika. Þar að auki er ég maximalisti, sem útleggst „meir-stefna“ á íslensku og er andhverfa mínimalisma. Þess vegna nýt ég þess mjög að hafa fallega hluti í kringum mig og á mikið af þeim. Ég las í bók eftir japönsku skipulagsdrottninguna Marie Kondo að þeir sem væru færir í skipulagningu væru ruslasafnarar og ég get ekki þrætt fyrir það í mínu tilfelli, nema að ég tel hlutina ekki rusl. Ég hef ekkert í kringum mig sem ég er ekki að nota (á einhverjum tímapunkti) eða mér finnst ekki fallegt, það vill bara svo til að það er mjög mikið,“ segir Þórlaug.

Þórlaug býr með manni sínum, dætrunum tveimur og móður sinni í Seljahverfinu. „Við fluttum í Seljahverfið fyrir tæpum sex árum og skemmtileg staðreynd er að það er lengsta tímabil sem ég hef búið á sama stað,“ segir Þórlaug og bætir því við að hún hafi flutt ansi oft gegnum tíðina.

„Það hefur gert það að verkum að ég er fljót að átta mig á nýju rými og sömuleiðis koma okkur fjölskyldunni fyrir á mettíma. Mér hefur alltaf þótt gaman að hafa fallegt í kringum mig, fæ það beint frá móður minni og eldri systur, sem báðar eru miklir fagurkerar. Ég er að ljúka diplómanámi í textílhönnun í vor með áherslu á heimilis-textíl og listmuni. Ég stefni svo á frekara nám í einhverju tengdu innanhússhönnun eða stílista fyrir húsnæði. Ég nýt þess mjög að finna skemmtilegar lausnir fyrir rými, raða, græja og gera. Vinir mínir tala um að ég sé uppflettirit yfir húsmuni og hugmyndir,“ segir Þórlaug og hlær.

Aðspurð hvort Þórlaugu þyki skemmtilegra að vinna í ákveðnum rýmum fremur en öðrum segir hún svo ekki vera. „Ég á erfitt með að gera upp á milli rýma en það er mjög gefandi að sjá útkomuna þegar mikill munur er á „fyrir og eftir“ og sérstaklega þegar nýting og notalegheit aukast eftir breytingar. Ég legg alltaf mikið upp úr því að auðvelt verði að viðhalda ástandinu fyrir þá sem munu nota rýmið.“

„Ég nýt þess mjög að finna skemmtilegar lausnir fyrir rými, …
„Ég nýt þess mjög að finna skemmtilegar lausnir fyrir rými, raða, græja og gera. Vinir mínir tala um að ég sé uppflettirit yfir húsmuni og hugmyndir.“ Arnþór Birkisson

Gott aðgengi mest notuðu hlutanna er mikilvægt

Flest könnumst við líklega við að sama hve oft við tökum til í skápum, skúffum, geymslunni eða bílskúrnum, þá líður ekki á löngu þar til allt er komið í sama farið. Lumar Þórlaug á einhverjum góðum ráðum í þeim efnum?

„Ég er svo sem ekki með nein töfraráð. Ég mæli þó með því að merkja hillur og körfur þar sem því verður við komið þannig að allt heimilisfólk sé með í skipulaginu, almennt reyni ég að hafa tóma kassa og hillupláss þannig að óvæntir hlutir geti eignast heimili strax. Draslskúffan góða sem finna má á flestum heimilum er í raun millilendingarsvæði hluta sem fólk veit ekki hvað gera á við, hún fyllist hægar ef flestir hlutir eiga sér stað. Það að tileinka stað fyrir hluti sem eru á leið út af heimilinu hefur líka gagnast mér vel til að gefa, skila og fara með í flokkunargám. Kassinn er svo tæmdur reglulega.

Sömuleiðis er gott að huga vel að aðgengi þeirra hluta sem oftast eru notaðir, að þeir séu auðsóttir. Til að viðhalda góðu ástandi þurfa allir þeir sem um heimilið ganga að vita hvar hlutirnir eiga heima, aðgengi þeirra þarf að vera gott og vilji til að halda hlutunum í horfinu. En eins og við vitum er lífið allskonar og við dettum úr takti af og til, en auðveldara ætti að vera að halda jafnvægi ef við hugum að þessu. Svo er alltaf hægt að leita til ráðgjafa í þessum efnum og komast þannig á ákjósanlegan byrjunarreit og fá ráðleggingar um hvernig hægt er að halda dampi eftir það.“

Þjóna hlutirnir tilgangi og veita ánægju?

Þórlaug segir enga eina leið rétta til þess að halda góðu skipulagi á heimilinu. „Margir þrífast vel með sem minnst í kringum sig og ég skil það mjög vel en það er ekki endilega samasemmerki milli þess og þægilegs skipulags. Þeir sem hinsvegar halda fastar í hluti og njóta þess að hafa mikið í kringum sig gætu þurft einhvern ramma svo ekki verði um of. Það má nefnilega auðveldlega hafa snyrtilegt og huggulegt í kringum sig hvora leiðina sem þú aðhyllist eða þar mitt á milli. Það eru svo auðvitað allskonar trikk til að hjálpa fólki að minnka magn hluta á heimilinu sem ekki þjóna tilgangi eða veita ekki ánægju. Það er þó ekki meitlað í stein að það þurfi að grisja mikið, oft breytir það ótrúlega miklu að eigna hlutum stað og flokka sambærilega hluti saman.

Ef þú ert með fullan fataskáp en notar aðallega fimm dress, þá er líklegt að grisja megi þar. Oft má þó lengja líftíma fatnaðar með smávægilegum breytingum eða viðgerð. Sóun á textíl í heiminum er risastórt vandamál á heimsvísu sem við ættum öll að vera meðvituð um. Grundvöllurinn til að minnka óþarfa á heimilinu er auðvitað að horfa í neysluvenjur og vanda valið í því hvað er keypt eða þegið inn á heimilið,“ segir Þórlaug.

Stefnir á skipulagsþjónustu í vor

Eins og segir í inngangi stefnir Þórlaug á að taka að sér fleiri verkefni í þessum dúr. „Ég hef lengi gengið með þann draum að starfa við að aðstoða fólk við skipulag og stefni á að láta það verða að veruleika að námi loknu, meðfram minni listsköpun. Ég sé fyrir mér að bjóða upp skipulagningu á afmörkuðum rýmum, allt frá búrskáp yfir í bílskúr eða lagersvæði. Óskir viðskiptavinarins yrðu alltaf útgangspunkturinn þó svo ég geti komið með góð ráð í átt að enn betri útkomu. Ég myndi áætla tímafjölda og umfang verkefnisins í byrjun sem og aðkomu verkkaupa. Þetta er allt í mótun og mun ég kynna það á Instagram-síðu minni www.instagram.com/thorlaug.saem þegar þar að kemur, þannig að það er um að gera fyrir áhugasama að fylgjast vel með.“

Hlutirnir rata reglulega á sína staði

Ekki var hægt að sleppa Þórlaugu við að svara spuringunni um hvernig málum sé háttað hjá henni sjálfri, er þar hver hlutur á sínum stað? „Verandi maximalisti með tvö börn á heimilinu og sjálf með króníska þörf fyrir betrumbætur og breytingar get ég ekki sagt að hlutirnir heima hjá mér fari aldrei úr skorðum. Ég ætlast ekki til þess að allt sé fullkomið en allir hlutir eiga þó sinn stað og rata þangað reglulega,“ segir Þórlaug.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda