Fjárfestirinn Jónas Hagan Guðmundsson seldi fasteign sína við Fjölnisveg 9 fyrr í mánuðinum. Um er að ræða 370 fm einbýli sem byggt var 1929 en húsið hefur verið eftirsótt meðal ríka fólksins í gegnum tíðina. Hann var í fréttum í gær þegar í ljós kom að hann hefði fest kaup á einni dýrustu íbúð landsins sem er staðsett við Austurhöfn.
Kaupandinn að Fjölnisvegi 9 er Caroline Leonie Kellen sem er þýskur ríkisborgari. Það á án efa eftir að fara vel um hana í húsinu sem er þrílyft með stórum garði. Húsið var teiknað af Pétri Ingimundarsyni fyrir Guðmund Ásbjörnsson kaupmann og forseta bæjarstjórnar Reykjavíkur á sínum tíma. Húsið er í skipstjóravillustíl sem þótti eftirsóttur og þykir enn.
Frægt var þegar Hannes Smárason fjárfestir keypti húsið fyrir hrun. Honum dugði ekki að eiga eitt hús heldur keypti hann Fjölnisveg 11 á sama tíma og átti tvö hús hlið við hlið. Það var stæll á því.
Það sem vekur athygli er að Kellen keypti húsið á 690 milljónir. Samkvæmt heimildum Smartlands Mörtu Maríu er það dýrasta einbýlishús sem selt hefur verið hérlendis upp á síðkastið. Verðið þykir hátt jafnvel þótt fasteignaverð hafi hækkað mikið síðustu ár.
Croisette Real Estate Partners sá um söluna en húsið var aldrei auglýst.