Eyrún Lind Magnúsdóttir, sambýliskona Árna Odds Þórðarsonar forstjóra Marel, hefur fest kaup á glæsihúsi. Um er að ræða 268 fm einbýli við Ásvallagötu í Reykjavík. Húsið var byggt 1926 og flokkast sem hús í skipstjóravillustíl. Kaupin fóru fram 25. nóvember á síðasta ári og hefur Eyrún fengið húsið afhent.
Fasteignamat hússins er 142 milljónir en var selt á 336 milljónir.
Árið 2020 sagði Smartland Mörtu Maríu frá því að Árni Oddur og Eyrún hefðu sótt um leyfi til að stækka einbýlishús við Sólvallagötu í Reykjavík.
„Húsið er eitt fínasta við Ásvallagötu. Það er skipstjóravilla með barokkgöflum og barokkkvisti. Það er unun að horfa á þetta hús enda er því afar vel við haldið. Takið eftir glugganum á vesturhlið forskálans og gríðarlega fallegum Vesturbæjarvíði í garðinum. Það var Pétur Ingimundarson sem teiknaði húsið fyrir Almar W. Norman lýsismatsmann árið 1926. Síðar bjó þar lengi Gísli Gunnarsson stýrimaður, afi Gísla Ágústs Gunnlaugssonar sagnfræðings, og enn síðar Stefán Karlsson handritafræðingur. Í kjallaranum á Ásvallagötu var miðstöð Rauðsokkahreyfingarinnar á allra fyrsta skeiði hennar upp úr 1970,“ segir í bókinni Indæla Reykjavík eftir Guðjón Friðriksson.