Heimilið breytist með árunum

Þorsteinn Helgason arkitekt er meðeigandi að Ask Arkitektum.
Þorsteinn Helgason arkitekt er meðeigandi að Ask Arkitektum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þorsteinn Helgason fjöllistamaður blandar reynslu sinni úr arkitektúr, myndlist og tónlist saman á áhugaverðan hátt. Hann þorir að eltast við drauma sína og er áhugavert að skyggnast inn í hugarheim manns sem sér list í svo mörgu.

„Arkitektúr og myndlist hafa átt hug minn allan síðustu áratugi, í bland við tónlistina en nú upp á síðkastið hefur golfið einnig sótt á mig, enda er það mjög gott jóga því hugurinn leitar ekki annað á meðan maður spilar íþróttina.“

Þorsteinn hefur náð góðum árangri í starfi sínu í gegnum árin. Hann er meðeigandi að Ask arkitektum og svo hafa málverkin hans ekki síður vakið athygli.

„Ég er ástríðumálari og eru verkin mín abstrakt verk með áherslu á flæði, bæði í pensilskrift og mynduppbyggingu með ágengum litasamsetningum.

Ég hef alltaf teiknað og litað mikið. Í barnaskóla var ég með Sigfús Halldósson, tónskáld og listmálara, sem kennara sem hefur án efa haft mikil áhrif á mig.

Á Listakademíunni í arkitektanáminu var allt handteiknað, enda voru þá engar tölvur mættar til leiks. Þá tók ég töluvert af Kroki-teiknikúrsum og fríhendisteikningu. Þegar ég kom heim sótti ég mörg námskeið hjá Myndlistaskóla Reykjavíkur og svo var ég eitt ár gestanemandi í Myndlista- og handíðaskólanum meðal annars hjá Kristjáni Davíðssyni, Hafsteini Austmann og fleiri snillinum. Ég man sérstaklega eftir að Kristján sagði að til þess að verða góður abstrakt málari þyrfti maður að vera góður í nákvæmnisteikningu. Ég held það sé rétt.“

Ef það er eitthvað sem arkitektar gera betur en aðrir …
Ef það er eitthvað sem arkitektar gera betur en aðrir er það að raða saman áhugaverðum húsgögnum, list, formum og litum. Stofan hans Þorsteins ber merki um þetta. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þorsteinn hefur í rúm tuttugu ár búið í fallegu raðhúsi í Fossvoginum.

„Áður bjuggum við í Hlíðunum í þéttara borgarumhvefi. Raðhúsið okkar er í góðum tengslum við garðinn og náttúruna, en þó er mjög stutt í alla þjónustu.

Við búum í pallahúsi með mörgum herbergjum, sem hentaði vel þegar krakkarnir voru heima. Nú fer mjög vel um okkur hjónin og höfum við gott pláss til að sinna áhugamálunum okkar.“

Þorsteinn á þrjár dætur með eiginkonu sinni, Jónínu Árndísi Steingrímsdóttur hjúkrunarfræðingi, og hafa þau í gegnum árin lagt áherslu á að umhverfið í kringum fjölskylduna sé bæði jákvætt og listhvetjandi.

„Að mínu mati þarf þó að vera þetta hárfína jafnvægi á milli þess að umhverfið hafi örvandi áhrif á okkur mannfólkið, sé skapandi og jafnframt þarf að vera möguleiki að leita í næði við störf sem krefjast einbeitingar, sérstaklega á þessum nýju tímum með opin vinnurými og fjarfundi.“

Blómin fara einstaklega vel með fallegu málverkunum á veggjum heimilisins.
Blómin fara einstaklega vel með fallegu málverkunum á veggjum heimilisins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nú í tísku að líta meira inn á við

Arkitektastarfið er mjög gefandi að mati Þorsteins.

„Sérstaklega sá hluti sem ég hef fengist hvað mest við síðustu árin, sem er skipulag nýrra hverfa eins og Ártúnshöfða, Kirkjusands, Skerjafjarðar og fleiri, sem öll verða svo tengd saman með hraðtengingu í samgöngum. Það er mikilvægt að þetta takist vel til og að höfuðborgarsvæðið virki sem ein vel smurð vél, bæði hvað varðar þjónustuna og samgöngur, en einnig með hlýleika í fyrirrúmi.“

Hvað er það nýjasta ´í hönnun og arkitektúr?

„Þegar ég lít yfir ferilinn, sem spannar ein þrjátíu ár, þá hef ég upplifað ýmsar stefnur og strauma. Sumt er orðið sígilt, annað ekki, eins og gengur. Þegar ég kom heim frá námi var enn verið að byggja upp úthverfi. Við unnum meðal annars samkeppni um skipulag Fífuhvammslands, Grafarholts og Blikastaðalands og fleira, en í dag er áherslan inn á við. Við erum að breyta gömlum verksmiðjusvæðum í blöndu af íbúðum og þjónustu, má þá nefna Skeifuna sem gott dæmi um það. Þetta myndi ég segja að væri það nýjasta. Ég hlakka til að geta farið að nota borgarlínuna eins og þegar ég bjó úti í Kaupmannahöfn á námsárunum og ég hoppaði hvenær sem ég vildi upp í strætó eða lest, þótt okkar verði að sjálfsögðu smærra í sniðum.“

Flygillinn stendur í stofunni, en Þorsteinn semur tónlist og spilar …
Flygillinn stendur í stofunni, en Þorsteinn semur tónlist og spilar reglulega fyrir fjölskylduna og gesti. mbl.is/Kristinn Magnússon

Spurður hvernig íbúðir einhleypir karlmenn velja sér í dag og hvernig þær hafa breyst í gegnum árin segir Þorsteinn mikla þörf fyrir einstaklingsíbúðir í nútímaþjóðfélagi.

„Það þykir eftirsóknarvert að hafa aukaherbergi í slíkum til að svara þörfinni fyrir hin ýmsu sambúðarform.“

Hægt að hafa alls konar áhrif með listinni

Vinnan og áhugamálin snúast að mestu um sköpun sem Þorsteini finnst skemmtilegt.

„Það er erfitt að gera upp á milli, því það er eiginlega sama hvort ég er að mála, hanna eða að búa til fallegt lag á flygilinn, þá er ég í flæðinu og þá líður mér hvað best.

Í arkitektafaginu hefur maður mikil áhrif á hegðun og líðan þúsunda einstaklinga og því mikilvægt að hönnun umhverfisins takist vel til. Það er líka notalegt að heyra fólk tala um hversu gott er að umgangast málverkin mín, hvernig ákveðin orka kemur frá þeim og hvernig guli liturinn virki svo örvandi. Svo þegar ég spila á flygilinn tek ég eftir hreyfingum fólks, sem dæmi hvernig löppin sveiflast og svo kannski smá klapp að lagi loknu. Allt er þetta endurgjöf sem gefur mér kraft til að sinna listinni áfram.“

Hjónin búa í húsi með mörgum herbergjum, sem hentaði vel …
Hjónin búa í húsi með mörgum herbergjum, sem hentaði vel þegar krakkarnir voru heima. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hvað varðar framtíðina er Þorsteinn fullur tilhlökkunar og vonast til að geta sinnt listinni enn þá meira.

„Það var einu sinni mæt kona sem sagði mér að ég væri eins og krakkarnir sem væru á fullu að æfa hinar ýmsu íþróttir, en gætu ekki valið á milli. Núna sé ég fyrir mér að eyða meiri tíma í að mála og að semja og spila tónlist og segi ég stundum í gríni að það þurfi ekki eins marga fundi til að fá þau mál samþykkt eins og í arkitektafaginu,“ segir Þorsteinn og bætir við „en í sannleika sagt þegar öllu eru á botninn hvolft þá er það fólkið mitt, fjölskyldan, sem skiptir mig mestu máli.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál