„Þetta er sennilega með dýrari eldhúsinnréttingum landsins“

Það er áhugavert að skyggnast inn í líf Kötlu Hreiðarsdóttur …
Það er áhugavert að skyggnast inn í líf Kötlu Hreiðarsdóttur sem er örugglega ein skemmtilegasta kona landsins. Hún á dásamlegan mann að eigin sögn, Hauk Unnar Þorkelsson, og nú bráðum tvö börn. mbl.is/María Krista Hreiðarsdóttir

Katla Hreiðarsdóttir hönnuður á von á barni á allra næstu dögum og ætlar að leyfa fylgjendum sínum á samfélagsmiðlum að fylgjast með heimafæðingunni. Heimili hennar er einstakt og safnar hún skrítnum hlutum í skáp. Nú dreymir hana um að eignast víbrator frá Viktoríutímabilinu og þá er hápunktinum líklega náð, þegar kemur að skápnum. 

Það er áhugavert að skyggnast inn í líf Kötlu Hreiðarsdóttur sem er örugglega ein skemmtilegasta kona landsins. Í kringum hana er alltaf mjög mikil stemning. Hún á dásamlegan mann að eigin sögn, Hauk Unnar Þorkelsson, og nú bráðum tvö börn. Talan tveir virðist elta hana, því hún á einnig tvö fyrirtæki, Volcano Design og Systur & maka.

Katla er alltaf smart til fara og svo á hún heimili sem er engu öðru líkt.

„Lífið gengur unaðslega! Ég er með ansi mörg járn í eldinum sem er svo sem ekkert nýtt enda með eigin fatahönnunarmerki, saumastofu þar sem allt er framleitt á Íslandi sem og verslun í Síðumúla. Svo reyndar rek ég líka veislusal og er með sumarbústað til útleigu en helst ber þó að nefna að ég er við það að koma öðru barni okkar hjóna í heiminn, en fyrir eigum við sautján mánaða dreng. Svo það eru spennandi tímar fram undan!“

Þeir sem þekkja Kötlu vita að hún á mjög skemmtilega fjölskyldu.

„Fjölskyldan mín er dásamlega skrítin og skemmtileg, þar sem við erum öll frekar mikið virk og skapandi. Mamma mín, Fríða Ragnarsdóttir, og pabbi, Hreiðar Sigurjónsson, ólu okkur systkinin öll upp í mjög svo lifandi umhverfi þar sem alltaf hefur verið nóg um bras. Bras er því mjög jákvætt í mínum bókum. Svo erum við öll í eigin rekstri og þrífumst eiginlega á því að vesenast og hafa gaman af því! María systir mín er með @kristaketo, matar- og hönnunarrekstur, eldri bróðir minn, Hrólfur, rekur sitt eigið smíðafyrirtæki en Haukur maðurinn minn vinnur einmitt með honum og yngri bróðir minn, Knútur, er einn af þremur eigendum veitingastaðarins LeKock.“

Þrátt fyrir að vera mikil viðskiptakona kann Katla að bregða …
Þrátt fyrir að vera mikil viðskiptakona kann Katla að bregða á leik. Hún segir fjölskylduna sína dásamlega skrítna og skemmtilega, þar sem allir eru frekar mikið virkir og skapandi. mbl.is/María Krista Hreiðarsdóttir

Byrjaði að sauma því hún fann ekki vinnu við hæfi

Þegar kemur að vinnunni og fallegu fötunum, þá segir Katla að hún verði fermingarmamma í ár.

„Fatamerkið Volcano Design var stofnað árið 2008, korteri eftir að Guð átti að blessa Ísland, en það var alltaf gamall draumur að gerast fatahönnuður þótt ég hafi tekið BA-gráðuna sem innanhússhönnuður frá Barcelona á sínum tíma. Árið 2008 var ekki besta umhverfið fyrir nýútskrifaðan innanhússhönnuð, sem var blautur á bak við eyrun, svo ég byrjaði sjálf að rifja upp saumatakta á gamla „overlock“-vél frá ömmu. Það óx mun hraðar og meira en ég hefði nokkru sinni getað trúað svo sá rekstur tók hratt yfir og innanhússnámið var sett á hilluna,“ segir Katla og leggur áherslu á að námið hafi verið gott og nýst henni vel í gegnum tíðina.

Hvernig lýsir þú heimilinu þínu?

„Við keyptum íbúðina okkar í Mjósundi 16 í hjarta Hafnarfjarðar sumarið 2019 en húsið er byggt árið 1952. Við vildum halda í upp-runalega stílinn en blanda honum við nútímann.

Við tókum ansi mikið í gegn og breyttum skipulagi hæðarinnar í takt við þarfir okkar. Þvottahúsið er sem dæmi í kjallaranum og eldhúsið var aflokað í sér herbergi eins og tíðkaðist hér áður, en við nenntum ekki að labba út og hringinn í kringum húsið með þvottinn og lítið barn. Eins erum við frekar mikið veislufólk og vildum við því stærra opið rými. Við breyttum gamla eldhúsinu í þvottahús og stórt og rúmgott baðherbergi, færðum eitt svefnherbergið, opnuðum baðið sem var frekar lítið og gerðum stærra opið rými að eldhúsi, borðstofu og stofu.“

Það sem klæðir öllum konum best að hennar mati er …
Það sem klæðir öllum konum best að hennar mati er bros og góður húmor. Það má eins klæða sig allskonar upp á þegar von er á barni. mbl.is/María Krista Hreiðarsdóttir

Eldhúsið er einstaklega skemmtilegt.

„Það er reyndar ekki upprunalegt frá 1952, en þó nógu „retró“ og gamalt. Við heilluðumst af innréttingunni og fannst hún passa mjög vel. Við tókum hana í gegn þegar við færðum hana til á milli rýma. Þetta er sennilega með dýrari eldhúsinnréttingum landsins svona ef við hefðum greitt pabba fyrir alla vinnuna. Hann og mamma eiga inni matarboð fyrir lífstíð! Pabbi og Haukur maðurinn minn smíðuðu hana að miklu leyti upp á nýtt og þurftu að laga hana töluvert sem og breyta, til að láta hana passa á nýja staðinn. En það er magnað hvað efnið er oft margfalt betra í þessum gömlu innréttingum. Hilluefnið sem dæmi er mjög þunnur spónn en gríðarlega þéttur og sterkur og ber ógrynni af postulíni og það örlar ekki fyrir svignun. Maður sér eiginlega ekki svona þunnt hilluefni dag.

Okkur fannst því mjög gaman að gefa innréttingunni áframhaldandi líf, enda klassísk og tímalaus hönnun sem við elskum í ræmur.“

Safnar gömlu dóti í skrítna skápinn

Hvað með stofuna og aðra staði í húsinu?

„Stofan er ný og er með sambland af nýjum húsgögnum og gömlum. Við erum til dæmis með Radiogram, útvarpsmublu frá 1967, sem Hauki tókst að tengja við flatskjáinn okkar. Gólfefnin í alrýminu og í herbergjunum eru sterkar vínilflísar en með gamaldags terrazzo-lúkki. Sófaborðið er tekk en sófinn nýlegur úr IKEA. Við blöndum því gömlu og nýju saman. Svo er ég mikill safnari og safna alls konar gömlu dóti og heillast helst af furðulegum hlutum. Ég safna sem dæmi gömlum postulínsdúkkuhausum og er með þá í glerkúplum um alla stofu. Eins er ég að safna munum í skrítna skápinn minn, sem verður upplýstur fimm fermetra gler- og timburskápur á ganginum með samansafni af furðuhlutum, sem ég er nú þegar komin með ágætissafn í. Meðal annars loðinn hrútspung, gamla tanngóma, bæði notaða og tannlæknaafsteypur, nýrnasteina, gallsteina, kakkalakka frá Afríku og ég bíð ég eftir sendingu af lykkjum. Þetta er mjög skrítið áhugamál, ég geri mér grein fyrir því, en mér finnst þetta athyglisvert og þetta verður frábært umræðuefni í partýum. Mig dreymir um að eignast víbrator frá Viktoríutímabilinu og þá er hápunktinum líklega náð, þegar kemur að skápnum.“

Heimilið er einstaklega fallegt og barnaherbergin bera þess merki að …
Heimilið er einstaklega fallegt og barnaherbergin bera þess merki að móðirin lærði innanhússhönnun á sínum tíma.

Bros fer aldrei úr tísku

Nú eru örugglega margir forvitnir þegar kemur að fataskápnum þínum, er hann ekki fullur af fatnaði?

„Jú algjörlega, í honum eru ósköp margar frumgerðir sem fylgir því að vera í eigin rekstri, því þá enda oft fyrstu tilraunirnar og svona hálfkláraðar vörur heima, á meðan fullunnu vörurnar fara í sölu. En svo á ég reyndar ansi mikið af búningum líka enda hef ég unun af því að halda þemaboð. Búningaskápurinn kom sér til dæmis vel fyrir óléttu-myndatökuna.“

Besta ráðið til að líta vel út á meðgöngunni er að líða vel.

„Þegar konum líður vel þá líta þær best út, finnst mér, og er það alveg óháð því hvort þær eiga von á barni eða ekki. Því getur þægilegur undirfatnaður verið lykillinn, klæðileg snið sem henta vaxtarlagi hvers og eins og svo er bros eitthvað sem klæðir alla og fer aldrei úr tísku.“

Hvað er í tísku núna?

„Það er mjög margt í tísku núna en mér finnst við vera að sjá sterka og bjarta liti sem er spennandi og frískandi. Hversdagslegur töff fatnaður sem hentar bæði í vinnu en einnig á kvöldin með réttu fylgihlutunum, er einnig vinsæll núna.“

Ætlar að fæða heima og deila með fylgjendum

Katla er mikið fyrir páskana og finnst sú hátíð einna best, þar sem undirbúningur er í lágmarki og hvíldin í hámarki.

„Páskarnir eru vanalega besta fríið.

Það er vanalega lítil sem engin pressa á okkur, engin gjafakaup og hefðir ekki eins höggnar í stein og þegar kemur að öðrum frídögum, sem þýðir að páskarnir eru bara alls konar og ég nýt páskanna vanalega í tætlur!

Þessir páskar verða svo alveg sérstaklega notalegir með glænýju barni í fanginu sem áætlað er að fæðist þann 30. mars.“

Katla er búin að vera með ratleik tvö ár í röð sem eru án endurgjalds á blogginu á síðu Systra & maka.

„Þetta er páskaeggjaratleikur með þrautum og vísum sem allir geta nýtt sér. Prentefnið er allt inni á síðunni og er auðvelt að útfæra á hvaða heimili sem er. Ratleikir eru mjög skemmtilegir fyrir bæði yngri sem eldri að spreyta sig á. Ég stefni að því að bæta við hann nokkrum vísbendingum í ár. Ótrúlegur fjöldi íslenskra heimila hefur tekið þátt og er alveg magnað að sjá hversu margir hafa sent mér myndir af súkkulaðisjúkum fórnarlömbum sem eru að verða gráhærðir í páskaeggjaleitinni minni.“ Þeir sem eru áhugasamir að vita meira um Kötlu geta fylgst með instagrammi Systra & maka, en þar deilir hún öllu um lífið og tilveruna, meira að segja heimafæðingunni sem hún er að undirbúa í lok mánaðarins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda