Algerlega óæt páskaegg en samt smart

Andri Snær Þorvaldsson, smíðakennari og handverksmaður, býr til falleg egg úr alls konar viðartegundum sem hægt er að nota sem skraut fyrir páskana. Eggin eru dásamleg viðkomu og lyktin af þeim minnir á íslenska náttúru.

Andri Snær kennir í sérskóla á daginn, svo er hann reglulega að kenna á trérenninámskeiðum. Þess á milli er hann í bílskúrnum heima hjá sér, þar sem hann hefur komið sér upp góðri aðstöðu til að búa til fallega hluti eins og eggin sem hann gerir og hafa vakið athygli víða.

Ýmislegt sem Andri Snær hefur búið til í gegnum tíðina verður til skrauts á heimilinu um páskana, en annars snúast þeir að jafnaði um að safna orku og slaka á.

„Inn á milli mun ég svo finna mér smávegis tíma inni í bílskúr en ég er alltaf að gera eitthvað í höndunum, bæði í vinnunni og heima. Ég er með fullt af hugmyndum, en vegna skorts á klukkustundum í hverjum sólarhring næ ég aðeins að framkvæma brot af því sem mig langar.

Síðustu ár hef ég mikið verið við rennibekkinn, mest að renna skálar. Ég reyni að geyma og nýta alla afganga og mikið af eggjunum kemur þaðan.“

Birki- og gulregnsviður í uppáhaldi

Andri Snær segir form eggsins minna á páskana og að eggið hafi fullkomið form og því sé frábær æfing að renna þau.

„Fyrir síðustu páska gaf ég mér smá tíma í að fara gegnum hillurnar hjá mér og renndi egg úr mörgum mismunandi viðartegundum. Það er gaman að skoða og handleika silkimjúk eggin úr mismunandi viðartegundum, innlendum og erlendum.“

Eggin eru mismunandi á lit, þyngd og áferð svo ekki sé talað um lyktina af þeim, sem er ekki eins á milli eggja.

„Þessa dagana er ég að renna enn fleiri páskaegg en í fyrra og eru viðartegundirnar ansi fjölbreyttar.

Af innlendum efnivið er birki og gullregn í mestu uppáhaldi en af innfluttu er það hnota og sebraviður. Svo fannst ýmislegt spennandi í hillunum hjá mér, sem dæmi ormétinn rekaviður og tekk úr gömlum borðfótum.“

Á heimili Andra Snæs er alltaf skreytt eitthvað fyrir páskana.

„Börnin okkar eru miklir listamenn og eru dugleg að föndra fyrir öll tilefni.“

Mikið um að vera á Smíðastofu Andra

Hvað gerir fólk við renndu páskaeggin?

„Flestir koma þeim fyrir í fallegum skálum, nokkrum saman. Þau eru líka skemmtilegt skraut á borðstofuborði í kringum páskaveitingarnar. Þótt eggin hafi verið hugsuð sem páskaskraut hef ég heyrt frá fólki sem hefur þau uppi við allt árið.“

Hvernig verða páskarnir þínir á þessu ári?

„Það er lítið búið að skipuleggja páskana þetta árið, náinn fjölskyldumeðlimur er að glíma við alvarleg veikindi og hugur okkar er þar að öllu leyti þessa dagana. Páskarnir eru annars í miklu uppáhaldi hjá okkur svona almennt. Páskarnir hafa mest snúist um samveru með fjölskyldunni. Það er komin hefð fyrir veglegum páskabröns, ratleikjum og páskabingói.“

Andri Snær reynir hvað hann getur að leyfa fólki að fylgjast með vinnu sinni á samfélagsmiðlum, ekki síst til að vekja áhuga á rennismíði og íslensku handverki.

„Ég reyni að vera duglegur að deila myndum og upplýsingum um það sem ég er að bralla á Smíðastofu Andra, og má finna mig á bæði Facebook og Instagram undir því nafni.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda