Vignir Már Garðarsson rekur fyrirtækið Fasteignaljósmyndun.is. Hann segir að markaðssetning á fasteignum hafi tekið miklum breytingum eftir að netið yfirtók allt. Hann segir að fólk þurfi að undirbúa sig vel áður en það setur eign sína á sölu.
Hvað skiptir máli þegar eign er mynduð?
„Undirbúningur. Við erum með góðan lista sem ég reyni að koma á sem flesta áður en kemur að myndatöku. Fólk tekur þá það fyrir af listanum sem þeim finnst skipta máli, en það er misjafnt hve mikið fólk er til í að leggja á sig við að undirbúa fyrir myndatökuna og oft er lítill tími til stefnu. Ég hef oft sagt að sá tími sem lagður er í undirbúninginn sé líklega besta tímakaup sem flestir hafa á ævinni. Með því á ég við að ef myndirnar koma vel út og eignin vekur eftirtekt, þá verður meiri eftirspurn og þá fæst hærra verð. Það þarf ekki að fara í stórar breytingar eða framkvæmdir heldur snýst þetta oftast um að létta á rýmum þannig að sá sem skoðar geti einbeitt sér að eigninni en ekki óþarfa dóti sem dregur athyglina að sér. Við myndatökuna sjálfa fáum við einnig að færa til hluti ef það kemur betur út. Svo eru það bara sjálfsögð atriði eins og að hafa hreint, umbúin rúm og þess háttar.
Fasteignamyndatökur fyrir sölu eiga að laða að kaupendur og því þurfa myndirnar að vera lýsandi fyrir eignina ásamt því að vekja athygli. Okkar hlutverk er að ná að sýna þau atriði sem skipta máli og kannski án þess að hafa myndirnar of margar heldur. Við leggjum áherslu á að reyna að sýna skipulag eignarinnar eins og hægt er og láta hluti eins og útsýni njóta sín ef það er til staðar.“
Hvað á fólk alls ekki að gera fyrir fasteignamyndatöku?
„Ég mæli bara með því að fólk undirbúi eignina eins vel og mögulegt er áður en við mætum á staðinn til að mynda því þannig næst besta útkoman. Fjarlægja það sem þarf og jafnvel nota eitt herbergið fyrir dót sem ekki á að vera á myndunum og við endum þá á að mynda það rými. Þannig getum við myndað í allar áttir sem þarf og getum sýnt skipulagið vel.“
Hvernig eignir finnst þér sjálfum skemmtilegast að mynda?
„Mér finnst skemmtilegast að mynda gamlar eignir eins og finnast helst í miðbænum. Reisuleg flott hús á nokkrum hæðum, hvort sem þau eru upprunaleg eða jafnvel alveg uppgerð.
Ef eignin er upprunleg og eigandi jafnvel búinn að búa þar í tugi ára skapast viss karakter sem gaman er að festa á mynd. Einnig er mjög gaman að koma í eignir þar sem mikið hefur verið hugsað út í hönnun, skipulag og innbú og fá að reyna sig við að ná sem fallegustum myndum. Svo annað sem mér dettur í hug eru sumarhús eða bæir á fallegum stöðum þar sem umhverfið skiptir líka máli því þá er gaman að geta sett drónann á loft.“
Eru fasteignamyndatökur að breytast eitthvað?
„Já, og markaðssetning fasteigna almennt. Gott markaðsefni fyrir sölu þykir orðið mikilvægara en það var finnst mér. Það sem hefur helst breyst síðustu árin í myndatökum er að við tökum það sem við köllum gjarnan stemningarmyndir sem má hafa með sölumyndunum. Þessar myndir eru meira nærmyndir sem skapa vissa stemningu en sýna kannski ekki eignina sem slíka. Svona myndir eins og sjást gjarnan í Hús og híbýli. Við reynum, þegar eignin býður upp á það að taka þannig myndir til að hafa með.
Þá er algengara að fólk fái einnig loftmyndir sem við tökum með dróna sem sýna þá umhverfi eignarinnar og gefa skemmtilega öðruvísi sýn. Svo er ég mjög ánægður með þá þróun að setja upp sérstakar sýningaríbúðir í nýbyggingum þar sem íbúðin er fullbúin með gólfefnum og húsgögnum því það er frekar erfitt að átta sig á stærðum og að sjá fyrir sér skipulag þegar eignir eru myndaðar tómar. Þá er einnig hægt að setja inn húsgögn og muni með svokallaðri þrívíddarsviðsetningu, en þá eru sett húsgögn í eignir sem voru myndaðar tómar með tölvuvinnslu og þetta hefur verið notað meira að undanförnu.“
Það er ekki svo langt síðan fasteignasalinn myndaði eignirnar. Hvað breyttist?
„Fólk er náttúrlega að sýna heimili sitt á netinu og fyrir flesta skiptir það nú máli að það sé sýnt í sínu besta ljósi. Ég sá það fljótt að oft kom krafan um góðar myndir frá eigandanum og einnig sáu fasteignasalarnir að þær eignir sem voru myndaðar vel seldust fyrr og oft á betra verði. Ég hef svo oft heyrt, og hef sérstaklega gaman af sögum frá fasteignasölum um eignir sem höfðu verið lengi á sölu með slæmum myndum sem svo seldust strax og við vorum fengin til að mynda án þess að það þyrfti eitthvað að breyta verði. Þetta skiptir svo ótrúlega miklu máli.“
Ertu með einhver góð ráð ef fólk hyggst selja fasteign sína?
„Já, klárlega að huga vel að markaðsmálunum. Fá góðar myndir til að kynna eignina fyrir markaðnum. Myndirnar eru langbesta og mikilvægasta tólið til að vekja athygli á eigninni og hjálpa gríðarlega við söluna. Þær eru það fyrsta sem fólk sér, það skoðar þær og myndar sér strax skoðun á eigninni áður en það ákveður að lesa lýsingu. Fólk er ótrúlega fljótt að ákveða hvort eignin sé eitthvað sem hentar þeim út frá myndum og útilokar jafnvel fínar eignir sem eru ekki kynntar nægilega vel, allt út frá myndunum.“