Lilja Hrönn Hauksdóttir kaupmaður í tískuvöruversluninni Cosmo hefur selt fasteign sína við Haukanes í Garðabæ. Kaupandinn er Snókur vöruhús ehf. sem er í eigu Hafdísar Bjargar Guðlaugsdóttur.
Um er að ræða 516 fm einbýli sem hannað var af Kjartani Sveinssyni. Húsið er í hans anda með súlum og bogadregnum línum. Það er á tveimur hæðum og afar glæsilegt. Það var byggt 1980 eða á sama tíma og Arnarnesið í Garðabæ var að byggjast upp. Í kringum húsið er stór garður með heitum potti og glæsilegri verönd.
Það mun væntanlega ekki væsa um Hafdísi og eiginmann hennar, Kristmund Einarsson, í Arnarnesinu. Hann var í fréttum fyrr á árinu þegar Hreinsitækni ehf keypti allt hlutafé í Snók þjónustu ehf.
„Við höfum á síðustu árum byggt upp öflugt og gott fyrirtæki sem hefur þjónustað orkusækinn iðnað og lagt ríka áherslu á gæða- öryggis og umhverfismál ásamt góðri og hagkvæmri þjónustu fyrir viðskiptavinina. Það hefur verið gefandi að vinna náið með fjölskyldunni og öllu því góða starfsfólki sem er lykillinn að því að vel hefur tekist til. Ég vil þakka starfsfólkinu fyrir samstarfið og vel unnin störf og viðskiptavinunum fyrir það traust sem okkur hefur verið sýnt og óska nýjum eigendum alls góðs,“ sagði Kristmundur í frétt á vb.is í janúar.