Innanhússhönnuðurinn Bryndís Stella Birgisdóttir og maðurinn hennar, Jakob Helgi Bjarnarson, hafa sett glæsilega tveggja hæða þakíbúð sína á sölu. Stíll íbúðarinnar er einstaklega fallegur og tímalaus þar sem hvert smáatriði hefur verið útpælt. Íbúðin er 257 fm og er staðsett á besta stað við Mýrargötu 31 í Reykjavík.
Í eldhúsinu er falleg sérsmíðuð innrétting frá Multiform, hönnuð af Béton Studio, sem er arkitekta- og innanhússhönnunar studio sem Bryndís Stella rekur ásamt Hildi Árnadóttur arkitekt. Innréttingin er ljós en á borðum og hliðum er byssustál sem gefur eldhúsinu mikinn karakter.
Á sömu hæð má finna bjarta og fallega setustofu og borðstofu, en útgengt er á suðursvalir frá borðstofunni. Fallegt parket prýðir gólfin í alrýminu þar sem vönduð og glæsileg húsgögn njóta sín. Í borðstofunni má sjá einstakt ljóst borðstofuborð ásamt stólum og setubekk sem tóna sérstaklega vel við stórt dökkt málverk á veggnum.
Á efri hæðinni er hjónaherbergi, tvö barnaherbergi og þrjú baðherbergi ásamt þaksvölum sem snúa til suðurs með heitum potti.