Hinn fullkomni garður er ekki til

Helga Sigríður Sigurðardóttir og Guðmundur Vernharðsson.
Helga Sigríður Sigurðardóttir og Guðmundur Vernharðsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Garðurinn á að vera lifandi og þroskast með eigendum sínum. Hugmyndin um hinn fullkomna garð á sér enga stoð í raunveruleikanum og er í andstöðu við náttúruna og fegurðina sem finna má í ófullkomleikanum að mati Guðmundar Vernharðssonar, garðyrkjufræðings hjá Gróðrarstöðinni Mörk. 

Fólk er að springa úr þrá í að fara að gera eitthvað dramatískt í görðum sínum núna en veðrið hefur sett strik í reikninginn þó nú megi eiga von á frostlausum nóttum. Þá má fara að setja niður litrík og falleg blóm, en það hafa ekki verið kjöraðstæður fyrir þau fyrr en nú,“ segir Guðmundur sem er án efa einn reynslumesti garðyrkjufræðingur landsins. Þegar viðtalið er skrifað féllu létt snjókorn á bíl blaðamanns. Grasið allt í kringum hús miðborgarinnar er frekar gult á litinn og myndir frá Norðurlandi sýna umhverfi sem minnir á desembermánuð í fyrra.

Hvað með grasið? Er almenningur farinn að slá garðinn sinn?

„Já, það má búast við því að sumir séu farnir að slá garðinn sinn. Einn félagi minn keypti sér sem dæmi „sláttuvélarróbóta“, sem hann lætur keyra um garðinn sinn reglulega en þá hverfur mosinn sjálfkrafa og grasið verður fallega grænt, sem er alltaf smart.

Það er mjög misjafnt eftir hverju fólk er að leita en að vera í garðinum líkist því að fara út að skokka ef þú spyrð mig. Það tekur smátíma að koma sér af stað en þegar maður er kominn í góða æfingu þá jafnast ekkert á við tilfinninguna sem maður upplifir innra með sér. Það er ákveðin hugsleiðsla fólgin í því að vera í garðinum.“

Áhugi Guðmundar á garðrækt hefur breyst með árunum. Nú reynir hann að hafa svæðið í kringum plönturnar þannig að það þurfi sem minnst viðhald.

„Ég loka yfirborðinu til að koma í veg fyrir að arfi nái að koma sér fyrir í beðunum. Í dag er fólk með alls konar blóm og jurtir í kingum húsin sín. Fjölærar plöntur og alls konar gróður sem springur út á mismunandi tímum.

Það verður að vera gott og gaman að fara út í garð og þangað á fólk að fara til að njóta meira en til að fara þangað bara til að fara út að vinna. Það er mín skoðun. Þá myndast tækifæri til að stunda hugleiðslu úti í garðinum sem er staðurinn þar sem við tengjumst náttúrunni á mjög einstakan hátt.“

mb.is/Kristinn Magnússon

Með kryddjurtir og salat í pottum

Guðmundur segir þróunina að undanförnu þannig að nú sé fólk með minni svæði í garðinum sem það sinnir vel í stað þess að vera með stóra garða eins og áður tíðkaðist.

„Við leggjum áherslu á að fólk nostri við þau svæði sem hvað mest er horft á. Sem dæmi staðinn í garðinum sem horft er á út um eldhúsgluggann. Svæðið við innganginn og við pottinn svo eitthvað sé nefnt.

Grasflöturinn er að minnka í kringum hús landsmanna og nú er meira um palla og steypu og svo plöntur í pottum.“

Hvað er fallegt að setja í blómabeð á góðum stað í garðinum?

„Til er flóra af runnum sem blómstra á mismunandi tímum, kvistir, fjölærar plöntur og sumarblóm. Ég mæli með að finna eitthvað sem gleður augað árið um kring.“

Hvaða tré eru að þínu mati fallegust?

„Það fer eftir því í hvaða stærðarflokki við erum að tala um. Nú er fátíðara að fólk sækist eftir mjög stórum trjám í garðana sína. Ef verið er að sækjast eftir einhverju nettu get ég mælt með koparreyni eða bergreyni, og fyrir þá sem vilja aðeins stærri tré þá er alpareynir góður kostur. Hann er fallegur og vex frekar hægt.“

Hvað með þá sem vilja rækta eitthvað matarkyns í garðinum?

„Það er vinsælt að vera með kryddjurtir og salat í pottum við grillið þar sem auðvelt er að sækja það þegar maturinn er eldaður. Ég mæli með því að fólk byrji smátt og stækki svo við sig í ræktun á matjurtumþegar reynsla er komin á ræktunina. Að rækta það sem við borðum yfir sumarið er góð byrjun í stað þess að rækta fyrir allt árið tegundir sem þurfa geymslu og gefast svo upp. Enda eru fáir í því að frysta þau matvæli sem koma úr garðinum og afgangs verða.

Það er svo gott að muna að garðurinn er lifandi fyrirbæri sem breytist með okkur mannfólkinu. Við þróumst og þroskumst með árunum og garðurinn okkar á að endurspegla það.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Með fimmtíu ára reynslu í faginu

Hvað hefur þú starfað lengi í þínu fagi og hvernig hefur garðurinn þinn breyst með árunum?

„Ég þori varla að segja það upphátt en ég hef starfað við garðrækt frá árinu 1978. Ég er alltaf að fara í gegnum allskonar tímabil og áhugi minn hefur breyst með tímanum.

Nú hef ég sem dæmi meiri áhuga á fjölærum plöntum en ég áður gerði. Það eru plöntur sem koma upp ár eftir ár en eru ekki lifandi ofanjarðar yfir veturinn. Fyrst var ég meira heillaður af trjám og runnum en nú spái ég meira í fjölbreytt litaval og finnst mér garðurinn minn aldrei eins fallegur og þegar hann er fullur af plöntum sem blómstra á mismunandi tíma.“

Hvaða fjölæru plöntur finnst þér fallegastar núna?

„Ég held mikið upp á sveipstjörnu, blágresi og klettaroða og lyklar eru mjög vinsælir núna en fræðiheiti þeirra er prímúlur. Lyklar eru góðir fyrir íslenska veðráttu, enda breiða þeir út blöð sín og blóm á móti kalda íslenska veðrinu eins og við höfum verið að upplifa að undanförnu.“

Ekki náttúrulegt að vilja fullkominn garð

Erum við Íslendingar nógu metnaðarfull þegar kemur að görðunum okkar núna?

„Já, það finnst mér. Kórónuveiran fékk okkur til að fara meira inn á við og vera heima við. Að setja athyglina á nærumhverfi okkar í ríkara mæli. Almenningur hefur því verið duglegri en oft áður að hugsa vel um garðinn sinn.

Lykilatriðið að mínu mati er að njóta sín í garðinum og að hafa gaman þar. Garðurinn á ekki að vera vinna eða kvöð, þá vex hann okkur yfir höfuð.“

Í Gróðrarstöðinni Mörk leitast starfsfólk við að svara einföldum spurningum um blóm og tré. Þar er ekki verið að teikna upp eða skipuleggja garða fyrir fólk.

„Ég lít á mitt hlutverk í vinnunni að fá fólk til að vera með heilbrigt viðhorf til garðsins og að útskýra hvernig best er að sjá um garðinn. Garðurinn þinn þarf ekki að vera ofurgarður. Hann ætti mikið frekar að vera flottur garður með skemmtilegum hugmyndum. Ég vil hvetja alla til að forvitnast aðeins meira um garðana í kringum sig og taka eftir því hvað fólk verður oft feimið og hlédrægt við að tala um garðana sína. Hugmyndin um ofurgarða er klemma sem enginn vill vera í og í mótsögn við þá hugmynd að tengjast náttúrunni á hennar forsendum. Við ættum aldrei að vera með óraunhæfar væntingar þegar kemur að görðum okkar frekar en einhverju öðru í lífinu,“ segir Guðmundur og brosir.

mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda