Íþróttaálfurinn Magnús Scheving setti glæsihús sitt við Bauganes á sölu á dögunum. Það var fasteignasalan Stakfell sem var með húsið til í einkasölu. Nú er það komið í sölu á tveimur stöðum en Fasteignamarkaðurinn setti það inn rétt í þessu.
Fasteignamarkaðurinn birtir glæsilegar myndir innan úr húsinu sem var hannað af Rut Káradóttur innanhússarkitekt. Hún er ein af vinsælustu innanhússarkitektum landsins og er stíllinn hennar Rutar afgerandi. Í húsinu er til dæmis glerveggur sem er sérlega vel heppnaður og mætast flísar og parket á heillandi hátt. Veggir eru margir hverjir málaðir í ljósgráum lit og þegar inn í húsið er komið tekur áberandi hringstigi á móti fólki.
Eldhús og stofa eru í sameiginlegu rými og er stór eyja þungamiðja hússins. Innréttingar eru bæði ljósar sprautulakkaðar og með frontum úr bæsaðri eik. Mikið er lagt í lýsingu og hljóðvist í húsinu.
Húsið er 343 fm að stærð og var byggt 2015.
Magnús Scheving og eiginkona hans, Hrefna Björk Sverrisdóttir, keyptu raðhús á Seltjarnarnesi á dögunum eins og Smartland greindi frá.