Systurnar Lára Björg Björnsdóttir, aðstoðarmaður Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, og Birna Anna Björnsdóttir rithöfundur hafa fest kaup á ættaróðalinu Reynistað við Skildinganes í Skerjafirði.
Húsið keyptu þær systur af móðurbróður sínum, Eggerti Benedikt Guðmundssyni, sem nýverið var ráðinn í starf leiðtoga á sviði sjálfbærrar þróunar í forsætisráðuneytinu, og eiginkonu hans Jónínu Lýðsdóttur hjúkrunarfræðingi.
Keyptu systurnar húsið ásamt eiginmönnum sínum, en Lára er gift Tryggva Tryggvasyni viðskiptafræðingi og Birna Anna er gift Peter Stephen Niculescu.
Húsið hefur verið í ættinni frá árinu 1922 þegar Eggert Claessen bankastjóri og hæstaréttarlögmaður, afi Eggerts Benedikts, og langafi Láru og Birnu, eignaðist húsið. Lét hann byggja við það og nefndi það Reynistað eftir samnefndu stórbýli þaðan sem hann var ættaður.
Talið er að húsið hafi verið upphaflega byggt árið 1874 en við það hefur verið byggt mikið síðan.
Eggert og Jónína festu kaup á húsinu árið 2006 og fluttu inn í það sama ár. Þau settu húsið á sölu í desember á síðasta ári.
Lára seldi eign sína við Lambastaðabraut á Seltjarnarnesi fyrr á þessu ári líkt og Smartland fjallaði um.