Einkaþjálfarinn Arnar Grant og fyrrverandi eiginkona hans, Kristín Hrönn Guðmundsdóttir hagfræðingur í Íslandsbanka, hafa sett einbýlishús sitt í Arnarnesinu á sölu. Þau festu kaup á húsinu 2011 og hafa síðan þá gert húsið upp, skipt um innréttingar og fleira. Hjónin fóru í sitthvora áttina fyrr á þessu ári eftir að samband Arnars og Vítalíu Lazareva kom upp á yfirborðið.
Húsið í Arnarnesinu er stórt og mikið en það var byggt 1990. Það er 293 fm að stærð og með fallegu sjávarútsýni. Húsið er svolítið Svissneskt í útliti að utan með miklu tréverki en hönnunin er ekki ólík húsunum í Ölpunum. Gæti jafnvel verið í Engelberg í Sviss. Þegar inn er komið tekur nútíminn völdin með splunkunýrri hönnun Sæju innanhússhönnuðar. Hún sá um að teikna nýtt eldhús inn í húsið en þar er að finna veglega innréttingu sem er með súkkulaðibrúnum viðarhurðum og frekar grófum borðplötum úr steini. Úr eldhúsinu er gott útsýni út á sjó og á efri hæðinni er mikil lofthæð enda hallandi þak á öllu húsinu.
Eins og sjá má á myndunum inni á fasteignavef mbl.is er húsið afar fallegt og reisulegt.