Við Andrés Magnússon kollegi minn af Morgunblaðinu fórum til Kaupmannahafnar á dögunum þar sem við reynsluókum fjórða rafmagnsbílnum frá Volkswagen. Bíllinn heitir ID. Buzz og var fyrst kynntur á bílasýningu í Þýskalandi í mars. Um er að ræða 100% rafmagnsbíl sem er endurgerð af gamla rúgbrauðinu sem kom á markað fyrir 60 árum.
Gamla rúgbrauðið naut mikilla vinsælda enda var hægt að ferðast á því heiminn þveran og endilangan. Hægt er að fá ID. Buzz í allskonar útfærslum eins og til dæmis með þremur sætaröðum sem hentar vel fyrir stjúpfjölskyldur. Hann er það rúmgóður að hægt er að koma þremur barnastólum fyrir aftur í. Fólk sem er í þeim sporum hefur oft og tíðum átt í erfiðleikum með að finna bíl við hæfi því hefðbundnir fjölskyldubílar gera oft bara ráð fyrir tveimur barnastólum.
Við fyrstu sín virtist ID. Buzz svolítið eins og Playmo bíll en um leið og sest var upp í bílinn hvarf sú hugsun um leið. Það er nákvæmlega ekkert leikfangalegt við þennan bíl heldur er um hátæknigræju að ræða.
Bíllinn hentar vel í innanbæjarakstur en hann er líka góður ferðabíll. Með einfaldri aðgerð er hægt að setja sætin niður og setja dýnu yfir. Hægt er að fá hann með sérstöku ferðaeldhúsi sem lítið fer fyrir.
Við Andrés skiptumst bróðurlega á að keyra bílinn og vorum sammála um að hann væri þýður og góður í akstri.
Mér finnst alltaf skemmtilegt þegar hönnuðir leyfa sér aðeins meira eins og gert var þegar litapalletta ID. Buzz var sett saman. Þar er litapallettan tekin alla leið en sami litur fylgir bílnum að utan og innan. Það er óvenjulegt að sjá ljósgráan og gulan lit fara vel saman í mælaborði og innréttingum en þess má geta að allar innréttingarnar eru úr umhverfisvænu plasti. Mér finnst þetta koma vel út án þess að verða of flippað og asnalegt.
Við Andrés keyrðum um stræti og torg í kóngsins Kaupmannahöfn og fórum svo yfir til Svíþjóðar. Það var sama hvar við stoppuðum á bílnum, alltaf hópaðist að okkur fólk sem vildi fá að vita allt um þetta líflega farartæki.
Í Svíþjóð hittum við mann um áttrætt sem hálftáraðist þegar við sögðum honum að þetta væri endurgerð af gamla rúgbrauðinu. Hann hafði átt eitt slíkt þegar hann var yngri og sagði okkur sögur úr af því hvernig hann hefði ferðast á því um alla Evrópu. Það kom sælusvipur á andlitið þegar hann rifjaði þetta upp og aldrei að vita hvort hann láti drauminn rætast. Ef hann byggi á Íslandi myndi hann án efa gera það þar sem innlend raforka er á mun hagkvæmara verði en sú innflutta.