Tóku eldhúsið í Fossvoginum í gegn

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir á fallegt eldhús í Fossvoginum.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir á fallegt eldhús í Fossvoginum. mbl.is/Árni Sæberg

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, á notalegt nýuppgert eldhús í Fossvoginum. Hún og eiginmaður hennar, Sverrir Heimisson, höfðu áður gert upp svipað eldhús á Grenivík.

„Við fluttum hingað í Fossvoginn fyrir 25 árum, hér hefur okkur liðið mjög vel, alið upp okkar þrjá drengi og höfum því þurft að aðlaga húsið þörfum fjölskyldunnar hverju sinni. Nú erum við bara þrjú eftir heima, ég, Sverrir maðurinn minn og yngsti sonur okkar, Hrannar, sem er 16 ára,“ segir Ragnheiður

„Við höfðum tekið allt húsið í gegn þegar við fluttum í það 1997, þannig að eldhústækin voru farin að verða léleg. Það var því spurning hvort maður ætti að fara að setja ný tæki í gamla innréttingu eða nota tækifærið og skipta um, á þessum tíma voru eldri drengirnir rétt farnir að heiman svo aðstæður voru góðar til breytinga. Við notuðum líka tækifærið og settum hita í gólfin og gerðum upp fleiri rými.“

Stækkuðu rýmið

Svarti liturinn er áberandi í eldhúsinu. Innréttingin er frá HTH og er úr svartri eik en borðplöturnar eru frá S. Helgasyni. Ragnheiður þurfti ekki að hugsa sig lengi um áður en hún valdi svart á eldhúsið.

„Dökkir litir eru bæði hlýir og umvefjandi. Það kom aldrei neitt annað til greina. Við höfðum nýlega gert upp hús sem við eigum á Grenivík og þar eru allar innréttingar svartar líka, svo þetta var einfalt val.“

Þegar hjónin fluttu inn í húsið skiptist rýmið sem nú er eldhús í eldhús, hol, þvottahús og búr. Ragnheiður segir að með því að fella niður veggi og taka upp loftið hafi þau gert rýmið skemmtilegra. Hún er einna ánægðust með stærðina á nýja eldhúsinu. „Með því að fella niður alla veggi fengum við um 40 fermetra rými. Mikill samverustaður fjölskyldunnar,“ segir Ragnheiður.

Innréttingin er frá HTH.
Innréttingin er frá HTH. Árni Sæberg
Eldhús hjá Ragnheiði Ósk Eldhús hjá Ragnheiði Ósk
Eldhús hjá Ragnheiði Ósk Eldhús hjá Ragnheiði Ósk Árni Sæberg


Hvernig náðuð þið fram áferðinni á veggjunum?

„Á veggjunum er steinefnasparsl frá Sérefnum sem nefnist Crustal, leiðbeiningarnar sem við fengum í versluninni voru bara að fá sér einn bjór og byrja síðan. Þetta var mjög skemmtilegt og útkoman bara prýðileg. Við settum þetta efni líka fyrir ofan vaskinn og lokuðum því með einhverju vaxkenndu efni þannig að það hrindir vel frá sér.“

Það eru ekki bara veggirnir sem vekja athygli í eldhúsinu heldur líka viðarbitarnir í loftinu. Hjónin lögðust í töluverða rannsóknarvinnu til þess að ná fram réttu stemningunni.

„Það voru miklar pælingar með loftið, það er skáhallandi og mikil lofthæð á köflum þannig að okkur langaði að gera loftið áberandi en hafa gólfið á móti frekar látlaust. Við leituðum víða og það er ekki mikið úrval af loftefnum. En í Efnissölunni fundum við síðan þennan við sem kallast að ég held reclaimed wood. Við settum svartan dúk undir og síðan voru tvær og tvær fjalir valdar saman til að fá þessa heild.“

Áferðin á veggnum er flott.
Áferðin á veggnum er flott. mbl.is/Árni Sæberg
Hjónin í Fossvoginum nýttu gamlan skenk til að búa til …
Hjónin í Fossvoginum nýttu gamlan skenk til að búa til þetta skemmtilega horn. Árni Sæberg


Vill hafa pottaleppana í sömu skúffu

Kom eitthvað upp á í ferlinu eða gekk þetta allt vel?

„Það var svolítið skondið þegar við vorum að panta innréttinguna. Ég vildi hafa hana mjög svipaða og við erum með á Grenivík. Ég var ánægð með hana og þarna í miðjum kórónuveirufaraldri hafði ég engan tíma til að vera að spá í einhverjar breytingar, en svo þegar innréttingin kom þá voru efri skáparnir (sem eru neðri skápar, hugsaðir sem geymsluskápar) um 20 sentímetrum of háir, þannig að ég næ aldrei upp í þá nema í tröppum. Sverri fannst það lítið mál, og sendi mér mynd af Victoriu Beckham með svipað vandamál. Svo nú er bara spurning hvort maður fái sér ekki bara nýjar buxur og skó og málið er leyst.

Eldhúsin hér í Fossvoginum og á Grenivík eru því mjög lík sem er fínt þegar maður fer að eldast þá getur maður haft allt á sama stað í eldhúsinu, hvar sem maður er. Sverrir skilur til dæmis ekki af hverju það er ekki að hægt að geyma pottaleppana í sömu skúffu í báðum húsunum, ætli ég geri það ekki fyrir hann, svona til að bjarga hjónabandinu.“

Ragnheiður leitaði lengi að rétta krananum.
Ragnheiður leitaði lengi að rétta krananum. mbl.is/Árni Sæberg

Lýsingin í eldhúsinu skiptir miklu máli. „Lýsingin þarf að vera góð og á eyjunni langaði mig bæði að hafa gott vinnuljós en líka skrautljós. Ljósin fékk ég í Pfaff og leitaði síðan lengi að blöndunartækjum í stíl.“

„Heimilið skiptir mig miklu máli, að það sé notalegt, hentugt og snyrtilegt. Ég spái ekki mikið í hönnun sem slíka, meira svona hvað hentar okkur hverju sinni og blanda saman gömlu og nýju því það eru margir hlutir sem manni þykir vænt um þegar maður er búinn að búa lengi. Þetta hefur verið svona sameiginlegt áhugamál hjá okkur hjónum í gegnum tíðina, að gera upp íbúðir og hús. Við erum því óhrædd við að breyta og bæta eftir þörfum hverju sinni.“

Viðarplankarnir í loftinu koma vel út.
Viðarplankarnir í loftinu koma vel út. mbl.is/Árni Sæberg

Skenkurinn öðlaðist nýtt líf

Gamall skenkur kemur vel út í nýja eldhúsinu.

„Skenkurinn er gamall og búinn að fylgja okkur í tugi ára, góð hirsla, síðan bættum við bara við glerskápnum til að fá skemmtilega glasahirslu. Lampann málaði móðir mín og hann kemur úr búi afa og ömmu, flöskustandinn smíðaði yngsti sonurinn í skólanum og myndin er úr búi gamallar frænku. Svo þetta er svona meira að raða saman nýjum hlutum og gömlum, sem gjarnan hafa tilfinningalegt gildi fyrir mig og tengjast gjarnan fólki sem mér hefur þótt vænt um,“ segir Ragnheiður.

Talandi um hluti sem hafa tilfinningalegt gildi þá var Ragnheiður búin að leggja á borð með gömlu stelli frá Royal Copenhagen þegar ljósmyndara bar að garði. „Stellið er úr búi frænku minnar, ég á mjög mikið af stellum sem ég hef gaman af að nota og nota óspart.“

Ragnheiður er dugleg að draga fram stellin sín.
Ragnheiður er dugleg að draga fram stellin sín. mbl.is/Árni Sæberg

Hvernig stundir eigið þið fjölskyldan í eldhúsinu?

„Samverustundirnar breytast töluvert þegar börnin flytja að heiman, nú er mikið verið að koma í mat og eldhúsið því mikið notað. Afar vinsælt er að tylla sér við eyjuna á móti eldavélinni þegar verið er að elda og hjálpa til við að smakka til matinn.“

Eldhús hjá Ragnheiði Ósk
Eldhús hjá Ragnheiði Ósk Árni Sæberg
Eldhús hjá Ragnheiði Ósk
Eldhús hjá Ragnheiði Ósk Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál