Eltir hönnunardrauminn í Köben

Ljósmynd/Aníta Mjöll Ægisdóttir

Aníta Mjöll Ægis­dótt­ir er bú­sett í „Mekka inn­an­húss­hönn­un­ar“, Kaup­manna­höfn, ásamt kær­asta sín­um, Davíð Guðjóns­syni, og syni þeirra, Matth­ías Jökli. Árið 2019 festu Aníta og Davíð kaup á sinni fyrstu eign í Kaup­manna­höfn þar sem þau hafa komið sér vel fyr­ir, enda hef­ur Aníta ein­stakt lag á því að skapa nota­lega stemmn­ingu á und­ur­fögru heim­ili þeirra. 

Aníta og Davíð hafa verið bú­sett í Kaup­manna­höfn meira og minna síðan 2016. „Þá flutti Davíð hingað til þess að hefja meist­ara­nám, en ég var enn að klára grunn­nám í viðskipta­fræði á Íslandi svo ég var á svo­litlu flakki þar til við út­skrifuðumst bæði árið 2018. Þá fékk Davíð vinnu hér úti og ákváðum við því að vera áfram í Dan­mörku og höf­um ekki viljað fara síðan,“ út­skýr­ir Aníta. 

Úr viðskipta­fræði í inn­an­húss­hönn­un

Árið 2019 tók Aníta U-beygju í líf­inu þegar hún ákvað að elta draum­inn og fara í nám í inn­an­húss­hönn­un sem hún sér alls ekki eft­ir í dag. „Dag­inn eft­ir að ég tók þá ákvörðun byrjaði ég að hringja í arki­tekta í Kaup­manna­höfn og í raun bara að spyrj­ast fyr­ir um hvort að ég mætti fá að vera hálf­gerður skuggi hjá þeim og fylgj­ast með ferl­inu og hvernig allt geng­ur fyr­ir sig. Þar sem ég var auðvitað glæ­ný í þessu um­hverfi vissi ég lítið, en sár­vantaði reynslu,“ út­skýr­ir Aníta. 

„Ég byrjaði að hringja í arki­tekta sem ég þekkti verk­efni frá og fannst spenn­andi sem gekk von­um fram­ar, en fyrsta sím­talið endaði með því að mér var boðið á fund,“ seg­ir Aníta. „Þetta átti auðvitað að vera þeim að kostnaðarlausu þar sem ég var ómenntuð og óreynd í geir­an­um, en eft­ir fund­inn var mér boðið launað starf og hef ég unnið þar síðan. Það hef­ur verið ótrú­lega skemmti­legt og verð ég arki­tekt­in­um æv­in­lega þakk­lát fyr­ir að hafa gefið mér tæki­færi.“

Ljós­mynd/​Aníta Mjöll Ægis­dótt­ir

„Fyrst­ur kem­ur, fyrst­ur fær“ og margra metra biðröð

Til að byrja með leigðu Aníta og Davíð stúd­íó­í­búð sem þau fluttu í árið 2017. „Þá hafði leigu­fé­lag hér úti aug­lýst nýtt hús­næði með íbúðir til leigu. Davíð fór á opið hús, þar sem verið var að skrá fólk á íbúðir, en þá var þetta svo­lítið „fyrst­ur kem­ur, fyrst­ur fær.“ Það var biðröð lengst upp göt­una og við enduðum á biðlista fyrst um sinn en urðum svo hepp­in og náðum inn til­tölu­lega fljótt,“ út­skýr­ir Aníta. 

„Sú íbúð var minn­ir mig um 40 fer­metr­ar, með litlu svefn­lofti þar sem við gát­um komið fyr­ir dýnu og nokkr­um hill­um fyr­ir föt. Íbúðin var mjög lít­il og krútt­leg, en okk­ur leið mjög vel í henni og eig­um marg­ar góðar minn­ing­ar þaðan.“

Eft­ir að Aníta og Davíð ákváðu að vera áfram í Dan­mörku næstu árin tóku þau stökkið og keyptu íbúð. „Ég var búin að þræða fast­eign­asíðurn­ar mánuðum sam­an, en það var ekki fyrr en okk­ur var send­ur teng­ill á verk­efni sem var þá hluti af hverfi í upp­bygg­ingu, sem við sáum þessa íbúð.“

Ljós­mynd/​Aníta Mjöll Ægis­dótt­ir

„Þannig að við í raun keypt­um þessa íbúð þegar hún var enn í upp­bygg­ingu. Því fylg­ir auðvitað alltaf ákveðin áhætta, en við vor­um búin að skoða verk­tak­ana vel og þeir voru með mjög gott orðspor. Við keypt­um íbúðina árið 2019 og flutt­um svo inn árið 2020,“ út­skýr­ir Aníta. 

Dauðir fer­metr­ar dýrt spaug

Íbúð Anítu og Davíðs er 108 fer­metr­ar að stærð með þrem­ur her­bergj­um. „Það sem heillaði mig mest við íbúðina var hvernig hún er sett upp. Mér finnst það vera eitt af því mik­il­væg­asta þegar kem­ur að íbúðum, enda eru dauðir fer­metr­ar dýrt spaug. Það sem heillaði mig líka er að íbúðin er staðsett í enda á blokk­inni sem þýðir að við erum með stóra gólfsíða glugga í al­rým­inu sem snúa bæði til norð-aust­urs og suðurs. Þeir gefa svo­lítið þá til­finn­ingu að íbúðin sé stærri en hún raun­veru­lega er,“ seg­ir Aníta. 

Ljós­mynd/​Aníta Mjöll Ægis­dótt­ir

Þar sem íbúðin var glæ­ný þurfti lítið að gera annað en að inn­rétta og stílisera hana. „Okk­ur hafði þó alltaf langað að gera her­berg­in aðeins upp og lét­um loks verða af því eft­ir að hafa búið í íbúðinni í tvö ár. Þá var Matth­ías Jök­ull að fara að færa sig úr her­berg­inu okk­ar yfir í auka­her­bergið og ákváðum við því að grípa tæki­færið og ráðast í smá fram­kvæmd­ir,“ út­skýr­ir Aníta. 

Ljós­mynd/​Aníta Mjöll Ægis­dótt­ir
Ljós­mynd/​Aníta Mjöll Ægis­dótt­ir

„Matth­ías Jök­ull fékk þá stærra her­bergið, sem hafði áður verið hjóna­her­bergið okk­ar, og við færðum okk­ur yfir í minna her­bergið. Sú ákvörðun var byggð á því að mig langaði að svefn­her­bergið okk­ar yrði bara okk­ar, en þá var mun hent­ugra fyr­ir okk­ur að fara í minna her­bergið þar sem stærra her­bergið myndi nýt­ast bet­ur sem barna­her­bergi og skrif­stofa,“ seg­ir Aníta. 

Ljós­mynd/​Aníta Mjöll Ægis­dótt­ir
Ljós­mynd/​Aníta Mjöll Ægis­dótt­ir

Mini­mal­ism­inn heill­andi

Aníta er mik­ill fag­ur­keri og lýs­ir stíln­um heima hjá sér sem mini­malísk­um. „Það er þó mik­ill mis­skiln­ing­ur að það sé það eina sem mér finnst fal­legt. Stíll­inn heima hjá mér hef­ur þró­ast í þessa átt eft­ir að ég fór að vinna í skap­andi um­hverfi alla daga, en þá fór ég að þrá ákveðna ró og ein­fald­leika heima fyr­ir,“ seg­ir Aníta. „Maður myndi kannski halda að all­ir inn­an þessa geira búi á heim­il­um sem minna helst á undra­land því þau séu svo skap­andi, og það á vissu­lega við um marga. En fyr­ir mig per­sónu­legra er það al­veg þver­öfugt.“

„Mér finnst ekk­ert skemmti­legra en að fá al­gjöra út­rás, bæði í vinnu og skóla, og tak­ast á við verk­efni af öll­um toga. En þegar ég kem heim vil ég bara ró, og það er það sem þessi mini­malíski stíll hef­ur gefið mér og okk­ur,“ seg­ir Aníta. „Það er ein­mitt það sem heim­ili eiga að vera, þau eiga að gefa þér það sem þú þarft. Ég fæ ró í gegn­um þenn­an stíl á meðan ein­hver ann­ar upp­lif­ir ró í allt öðrum stíl.“

Ljós­mynd/​Aníta Mjöll Ægis­dótt­ir

„Inn­an­húss­hönn­un snýst um svo miklu meira en bara fal­leg hús­gögn og skraut­muni. Að ganga inn í rými hef­ur áhrif á öll okk­ar skiln­ing­ar­vit og hef­ur því miklu meiri áhrif á okk­ur en við ger­um okk­ur grein fyr­ir. En svo er ég líka bara með svo svaka­leg­an at­hygl­is­brest, en með ár­un­um hef ég til­einkað mér þenn­an lífstíl sem hjálp­ar mér bet­ur að tak­ast á við hann. Þar spil­ar þessi stíll stórt hlut­verk,“ út­skýr­ir Aníta. 

Ljós­mynd/​Aníta Mjöll Ægis­dótt­ir

Sæk­ir inn­blást­ur í nátt­úr­una

Aníta er mik­ill nátt­úru­unn­andi og sótti mest­an inn­blást­ur í nátt­úr­una þegar hún inn­réttaði heim­ilið. „Ég elska fal­lega nátt­úru, og þá sér­stak­lega ís­lenska nátt­úru. Nátt­úru­legu lit­irn­ir, áferðin og hvernig allt spil­ar sam­an er stór­kost­legt. Mér finnst fátt betra en að hjóla, keyra eða ganga í nátt­úr­unni og sæki þangað lang­mest­an inn­blást­ur. En ég sæki líka mik­inn inn­blást­ur í borg­ina, öll fal­legu gömlu hús­in og dönsku hönn­un­ina. Þar að auki nota ég Pin­t­erest mikið og get al­veg gleymt mér í að skoða mynd­ir þar og fá hug­mynd­ir,“ út­skýr­ir Aníta. 

Ljós­mynd/​Aníta Mjöll Ægis­dótt­ir

„Ég leit­ast eft­ir því að skapa bjart, hreint og ró­andi and­rúms­loft á heim­ili mínu. Það er þó með fyr­ir­vara um að nú sé einn eins árs gutti á heim­il­inu, og hef ég því þurft að end­ur­skil­greina orðið hreint og sætta mig við það að hlut­irn­ir séu yf­ir­leitt bara út um allt,“ seg­ir Aníta og hlær. 

Aðspurð seg­ist Aníta eiga erfitt með að velja sér upp­á­halds­rými í íbúðinni. „Ég hef oft hugsað þetta, en hvert rými er tengt við svo marg­ar dýr­mæt­ar minn­ing­ar að ég á erfitt með að velja. Hins veg­ar veit ég hverju Davíð myndi svara fyr­ir mig, en við eig­um mjög gott rúm og þar er best að hlaða batte­rí­in eft­ir langa daga. Það er fátt betra en að fara í sturtu eða bað og leggj­ast svo upp í hreint rúm og horfa á góða bíó­mynd,“ seg­ir Aníta. 

Fyllti fyrstu íbúðina í IKEA

Aníta hef­ur ein­stakt auga fyr­ir fal­leg­um hús­gögn­um, enda er heim­ili henn­ar sér­lega fal­lega inn­réttað. „Sófa­borðið er í miklu upp­á­haldi hjá mér, en það er hönn­un frá Alt­on&Heim. Ég var með ákveðna hug­mynd af borði í huga fyr­ir stof­una en ég hafði ekki enn fundið það áður en við rák­umst á þetta borð. Við urðum strax ást­fang­in af því og biðum í nokkra mánuði eft­ir því að fá það. Þegar við loks feng­um það kom það í vit­laus­um lit,“ seg­ir Aníta. „Það var þó al­gjört lán í óláni því við vor­um svo ánægð með ljósu eik­ina í rým­inu að við ákváðum að halda henni.“

Ljós­mynd/​Aníta Mjöll Ægis­dótt­ir

„Bara það að búa hér í Dan­mörku gef­ur manni stöðugan inn­blást­ur, en það er svo ótrú­lega mikið af fal­legri hönn­un hér og margt sem manni dreym­ir um. Þegar við flutt­um inn í gömlu íbúðina okk­ar átt­um við ekki neitt, þannig við fór­um í IKEA og í raun fyllt­um upp íbúðina þar. Þegar við flutt­um svo inn í þessa íbúð fékk ég hálf­gert „of­næmi“ fyr­ir því að eiga of mikið af dóti. Mér fannst við eiga of mikið af „til­gangs­laus­um“ smá­hlut­um sem við keypt­um bara til þess að fylla upp í hina íbúðina,“ seg­ir Aníta.

„Ég ætlaði ekki að láta það end­ur­taka sig. Ég vildi frek­ar búa í hálf­tómri íbúð í lengri tíma og velja hlut­ina inn á heim­ilið mjög vand­lega. Við keypt­um auðvitað þessa nauðsyn­legu hluti eins og sófa, stóla og borðstofu­borð, en svo vilj­um við frek­ar safna okk­ur fyr­ir þeim hlut­um sem okk­ur virki­lega lang­ar í,“ út­skýr­ir Aníta.

Hún seg­ir þau hafa ákveðið í byrj­un í hvað þau vildu leggja inn meiri pen­inga og hvar þau vildu leggja minni. „Til dæm­is í stof­unni, þá ákváðum við að fjár­festa í fal­legu sófa­borði og eyða þá minni pen­ing í að kaupa sófa og stóla. Svo með tím­an­um mynd­um við skipta því út,“ seg­ir Aníta.

Ljós­mynd/​Aníta Mjöll Ægis­dótt­ir

„Með tím­an­um hef­ur svo bæst við skenk­ur frá Hans K. og drauma­borðstofu­stól­arn­ir okk­ar frá Carl Han­sen & Son ásamt ljós­inu frá Secto Design. Það er gam­an að geta stöðugt bætt við, en að það sé ekki allt bara klárt strax. Það hent­ar mér líka sér­stak­lega vel þar sem ég er stans­laust að breyta til heima hjá mér, en það er ótrú­legt hvað það eitt að færa til einn vasa eða tvær bæk­ur get­ur breytt miklu,“ seg­ir Aníta.

Ljós­mynd/​Aníta Mjöll Ægis­dótt­ir

Kaup­manna­höfn upp­full af gull­fal­legri hönn­un

Aníta seg­ir Kaup­manna­höfn vera upp­fulla af gull­fal­legri hönn­un, enda koma mörg af fræg­ustu hönn­un­ar­merkj­um heims frá Dan­mörku. „Kaup­manna­höfn er oft kölluð Mekka inn­an­húss­hönn­un­ar en hér eru öll dönsku hönn­un­ar­merk­in, þar á meðal Fritz Han­sen, HAY, Carl Han­sen & Søn, Gubi, Lou­is Poul­sen og fleiri, með úti­bú,“ seg­ir hún. 

„Það er ótrú­lega gam­an að fara og kíkja í úti­bú­in en mér finnst líka mjög gam­an að kíkja í búðir sem selja vör­ur frá mörg­um af þess­um hönn­un­ar­hús­um á ein­um og sama stað, eins og Ill­um Bolig­hus eða Paustian,“ seg­ir Aníta. 

Ljós­mynd/​Aníta Mjöll Ægis­dótt­ir

„Það eru lík­lega ekki mikl­ar fram­kvæmd­ir fram und­an hér, en ég hugsa að mögu­lega bæti ég við list­um í al­rýmið eins og ég gerði í svefn­her­bergj­un­um, eða að minnsta kosti ein­hvers kon­ar út­færslu á þeim. Næsta fjár­fest­ing sem við horf­um til er svo lík­lega fal­leg­ur sófi, en ég er með nokkra í huga sem mig dreym­ir um,“ seg­ir Aníta. 

Það er margt skemmti­legt fram und­an hjá Anítu og verður gam­an að fylgj­ast með henni halda áfram að blómstra í inn­an­húss­hönn­un­inni, enda seg­ir hún draum­inn vera að fá að vera með fing­urna í allri inn­an­húss­hönn­un á næstu eign henn­ar og Davíðs.

Ljós­mynd/​Aníta Mjöll Ægis­dótt­ir
Ljós­mynd/​Aníta Mjöll Ægis­dótt­ir
Ljós­mynd/​Aníta Mjöll Ægis­dótt­ir
Ljós­mynd/​Aníta Mjöll Ægis­dótt­ir
Ljós­mynd/​Aníta Mjöll Ægis­dótt­ir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda