Eltir hönnunardrauminn í Köben

Ljósmynd/Aníta Mjöll Ægisdóttir

Aníta Mjöll Ægisdóttir er búsett í „Mekka innanhússhönnunar“, Kaupmannahöfn, ásamt kærasta sínum, Davíð Guðjónssyni, og syni þeirra, Matthías Jökli. Árið 2019 festu Aníta og Davíð kaup á sinni fyrstu eign í Kaupmannahöfn þar sem þau hafa komið sér vel fyrir, enda hefur Aníta einstakt lag á því að skapa notalega stemmningu á undurfögru heimili þeirra. 

Aníta og Davíð hafa verið búsett í Kaupmannahöfn meira og minna síðan 2016. „Þá flutti Davíð hingað til þess að hefja meistaranám, en ég var enn að klára grunnnám í viðskiptafræði á Íslandi svo ég var á svolitlu flakki þar til við útskrifuðumst bæði árið 2018. Þá fékk Davíð vinnu hér úti og ákváðum við því að vera áfram í Danmörku og höfum ekki viljað fara síðan,“ útskýrir Aníta. 

Úr viðskiptafræði í innanhússhönnun

Árið 2019 tók Aníta U-beygju í lífinu þegar hún ákvað að elta drauminn og fara í nám í innanhússhönnun sem hún sér alls ekki eftir í dag. „Daginn eftir að ég tók þá ákvörðun byrjaði ég að hringja í arkitekta í Kaupmannahöfn og í raun bara að spyrjast fyrir um hvort að ég mætti fá að vera hálfgerður skuggi hjá þeim og fylgjast með ferlinu og hvernig allt gengur fyrir sig. Þar sem ég var auðvitað glæný í þessu umhverfi vissi ég lítið, en sárvantaði reynslu,“ útskýrir Aníta. 

„Ég byrjaði að hringja í arkitekta sem ég þekkti verkefni frá og fannst spennandi sem gekk vonum framar, en fyrsta símtalið endaði með því að mér var boðið á fund,“ segir Aníta. „Þetta átti auðvitað að vera þeim að kostnaðarlausu þar sem ég var ómenntuð og óreynd í geiranum, en eftir fundinn var mér boðið launað starf og hef ég unnið þar síðan. Það hefur verið ótrúlega skemmtilegt og verð ég arkitektinum ævinlega þakklát fyrir að hafa gefið mér tækifæri.“

Ljósmynd/Aníta Mjöll Ægisdóttir

„Fyrstur kemur, fyrstur fær“ og margra metra biðröð

Til að byrja með leigðu Aníta og Davíð stúdíóíbúð sem þau fluttu í árið 2017. „Þá hafði leigufélag hér úti auglýst nýtt húsnæði með íbúðir til leigu. Davíð fór á opið hús, þar sem verið var að skrá fólk á íbúðir, en þá var þetta svolítið „fyrstur kemur, fyrstur fær.“ Það var biðröð lengst upp götuna og við enduðum á biðlista fyrst um sinn en urðum svo heppin og náðum inn tiltölulega fljótt,“ útskýrir Aníta. 

„Sú íbúð var minnir mig um 40 fermetrar, með litlu svefnlofti þar sem við gátum komið fyrir dýnu og nokkrum hillum fyrir föt. Íbúðin var mjög lítil og krúttleg, en okkur leið mjög vel í henni og eigum margar góðar minningar þaðan.“

Eftir að Aníta og Davíð ákváðu að vera áfram í Danmörku næstu árin tóku þau stökkið og keyptu íbúð. „Ég var búin að þræða fasteignasíðurnar mánuðum saman, en það var ekki fyrr en okkur var sendur tengill á verkefni sem var þá hluti af hverfi í uppbyggingu, sem við sáum þessa íbúð.“

Ljósmynd/Aníta Mjöll Ægisdóttir

„Þannig að við í raun keyptum þessa íbúð þegar hún var enn í uppbyggingu. Því fylgir auðvitað alltaf ákveðin áhætta, en við vorum búin að skoða verktakana vel og þeir voru með mjög gott orðspor. Við keyptum íbúðina árið 2019 og fluttum svo inn árið 2020,“ útskýrir Aníta. 

Dauðir fermetrar dýrt spaug

Íbúð Anítu og Davíðs er 108 fermetrar að stærð með þremur herbergjum. „Það sem heillaði mig mest við íbúðina var hvernig hún er sett upp. Mér finnst það vera eitt af því mikilvægasta þegar kemur að íbúðum, enda eru dauðir fermetrar dýrt spaug. Það sem heillaði mig líka er að íbúðin er staðsett í enda á blokkinni sem þýðir að við erum með stóra gólfsíða glugga í alrýminu sem snúa bæði til norð-austurs og suðurs. Þeir gefa svolítið þá tilfinningu að íbúðin sé stærri en hún raunverulega er,“ segir Aníta. 

Ljósmynd/Aníta Mjöll Ægisdóttir

Þar sem íbúðin var glæný þurfti lítið að gera annað en að innrétta og stílisera hana. „Okkur hafði þó alltaf langað að gera herbergin aðeins upp og létum loks verða af því eftir að hafa búið í íbúðinni í tvö ár. Þá var Matthías Jökull að fara að færa sig úr herberginu okkar yfir í aukaherbergið og ákváðum við því að grípa tækifærið og ráðast í smá framkvæmdir,“ útskýrir Aníta. 

Ljósmynd/Aníta Mjöll Ægisdóttir
Ljósmynd/Aníta Mjöll Ægisdóttir

„Matthías Jökull fékk þá stærra herbergið, sem hafði áður verið hjónaherbergið okkar, og við færðum okkur yfir í minna herbergið. Sú ákvörðun var byggð á því að mig langaði að svefnherbergið okkar yrði bara okkar, en þá var mun hentugra fyrir okkur að fara í minna herbergið þar sem stærra herbergið myndi nýtast betur sem barnaherbergi og skrifstofa,“ segir Aníta. 

Ljósmynd/Aníta Mjöll Ægisdóttir
Ljósmynd/Aníta Mjöll Ægisdóttir

Minimalisminn heillandi

Aníta er mikill fagurkeri og lýsir stílnum heima hjá sér sem minimalískum. „Það er þó mikill misskilningur að það sé það eina sem mér finnst fallegt. Stíllinn heima hjá mér hefur þróast í þessa átt eftir að ég fór að vinna í skapandi umhverfi alla daga, en þá fór ég að þrá ákveðna ró og einfaldleika heima fyrir,“ segir Aníta. „Maður myndi kannski halda að allir innan þessa geira búi á heimilum sem minna helst á undraland því þau séu svo skapandi, og það á vissulega við um marga. En fyrir mig persónulegra er það alveg þveröfugt.“

„Mér finnst ekkert skemmtilegra en að fá algjöra útrás, bæði í vinnu og skóla, og takast á við verkefni af öllum toga. En þegar ég kem heim vil ég bara ró, og það er það sem þessi minimalíski stíll hefur gefið mér og okkur,“ segir Aníta. „Það er einmitt það sem heimili eiga að vera, þau eiga að gefa þér það sem þú þarft. Ég fæ ró í gegnum þennan stíl á meðan einhver annar upplifir ró í allt öðrum stíl.“

Ljósmynd/Aníta Mjöll Ægisdóttir

„Innanhússhönnun snýst um svo miklu meira en bara falleg húsgögn og skrautmuni. Að ganga inn í rými hefur áhrif á öll okkar skilningarvit og hefur því miklu meiri áhrif á okkur en við gerum okkur grein fyrir. En svo er ég líka bara með svo svakalegan athyglisbrest, en með árunum hef ég tileinkað mér þennan lífstíl sem hjálpar mér betur að takast á við hann. Þar spilar þessi stíll stórt hlutverk,“ útskýrir Aníta. 

Ljósmynd/Aníta Mjöll Ægisdóttir

Sækir innblástur í náttúruna

Aníta er mikill náttúruunnandi og sótti mestan innblástur í náttúruna þegar hún innréttaði heimilið. „Ég elska fallega náttúru, og þá sérstaklega íslenska náttúru. Náttúrulegu litirnir, áferðin og hvernig allt spilar saman er stórkostlegt. Mér finnst fátt betra en að hjóla, keyra eða ganga í náttúrunni og sæki þangað langmestan innblástur. En ég sæki líka mikinn innblástur í borgina, öll fallegu gömlu húsin og dönsku hönnunina. Þar að auki nota ég Pinterest mikið og get alveg gleymt mér í að skoða myndir þar og fá hugmyndir,“ útskýrir Aníta. 

Ljósmynd/Aníta Mjöll Ægisdóttir

„Ég leitast eftir því að skapa bjart, hreint og róandi andrúmsloft á heimili mínu. Það er þó með fyrirvara um að nú sé einn eins árs gutti á heimilinu, og hef ég því þurft að endurskilgreina orðið hreint og sætta mig við það að hlutirnir séu yfirleitt bara út um allt,“ segir Aníta og hlær. 

Aðspurð segist Aníta eiga erfitt með að velja sér uppáhaldsrými í íbúðinni. „Ég hef oft hugsað þetta, en hvert rými er tengt við svo margar dýrmætar minningar að ég á erfitt með að velja. Hins vegar veit ég hverju Davíð myndi svara fyrir mig, en við eigum mjög gott rúm og þar er best að hlaða batteríin eftir langa daga. Það er fátt betra en að fara í sturtu eða bað og leggjast svo upp í hreint rúm og horfa á góða bíómynd,“ segir Aníta. 

Fyllti fyrstu íbúðina í IKEA

Aníta hefur einstakt auga fyrir fallegum húsgögnum, enda er heimili hennar sérlega fallega innréttað. „Sófaborðið er í miklu uppáhaldi hjá mér, en það er hönnun frá Alton&Heim. Ég var með ákveðna hugmynd af borði í huga fyrir stofuna en ég hafði ekki enn fundið það áður en við rákumst á þetta borð. Við urðum strax ástfangin af því og biðum í nokkra mánuði eftir því að fá það. Þegar við loks fengum það kom það í vitlausum lit,“ segir Aníta. „Það var þó algjört lán í óláni því við vorum svo ánægð með ljósu eikina í rýminu að við ákváðum að halda henni.“

Ljósmynd/Aníta Mjöll Ægisdóttir

„Bara það að búa hér í Danmörku gefur manni stöðugan innblástur, en það er svo ótrúlega mikið af fallegri hönnun hér og margt sem manni dreymir um. Þegar við fluttum inn í gömlu íbúðina okkar áttum við ekki neitt, þannig við fórum í IKEA og í raun fylltum upp íbúðina þar. Þegar við fluttum svo inn í þessa íbúð fékk ég hálfgert „ofnæmi“ fyrir því að eiga of mikið af dóti. Mér fannst við eiga of mikið af „tilgangslausum“ smáhlutum sem við keyptum bara til þess að fylla upp í hina íbúðina,“ segir Aníta.

„Ég ætlaði ekki að láta það endurtaka sig. Ég vildi frekar búa í hálftómri íbúð í lengri tíma og velja hlutina inn á heimilið mjög vandlega. Við keyptum auðvitað þessa nauðsynlegu hluti eins og sófa, stóla og borðstofuborð, en svo viljum við frekar safna okkur fyrir þeim hlutum sem okkur virkilega langar í,“ útskýrir Aníta.

Hún segir þau hafa ákveðið í byrjun í hvað þau vildu leggja inn meiri peninga og hvar þau vildu leggja minni. „Til dæmis í stofunni, þá ákváðum við að fjárfesta í fallegu sófaborði og eyða þá minni pening í að kaupa sófa og stóla. Svo með tímanum myndum við skipta því út,“ segir Aníta.

Ljósmynd/Aníta Mjöll Ægisdóttir

„Með tímanum hefur svo bæst við skenkur frá Hans K. og draumaborðstofustólarnir okkar frá Carl Hansen & Son ásamt ljósinu frá Secto Design. Það er gaman að geta stöðugt bætt við, en að það sé ekki allt bara klárt strax. Það hentar mér líka sérstaklega vel þar sem ég er stanslaust að breyta til heima hjá mér, en það er ótrúlegt hvað það eitt að færa til einn vasa eða tvær bækur getur breytt miklu,“ segir Aníta.

Ljósmynd/Aníta Mjöll Ægisdóttir

Kaupmannahöfn uppfull af gullfallegri hönnun

Aníta segir Kaupmannahöfn vera uppfulla af gullfallegri hönnun, enda koma mörg af frægustu hönnunarmerkjum heims frá Danmörku. „Kaupmannahöfn er oft kölluð Mekka innanhússhönnunar en hér eru öll dönsku hönnunarmerkin, þar á meðal Fritz Hansen, HAY, Carl Hansen & Søn, Gubi, Louis Poulsen og fleiri, með útibú,“ segir hún. 

„Það er ótrúlega gaman að fara og kíkja í útibúin en mér finnst líka mjög gaman að kíkja í búðir sem selja vörur frá mörgum af þessum hönnunarhúsum á einum og sama stað, eins og Illum Bolighus eða Paustian,“ segir Aníta. 

Ljósmynd/Aníta Mjöll Ægisdóttir

„Það eru líklega ekki miklar framkvæmdir fram undan hér, en ég hugsa að mögulega bæti ég við listum í alrýmið eins og ég gerði í svefnherbergjunum, eða að minnsta kosti einhvers konar útfærslu á þeim. Næsta fjárfesting sem við horfum til er svo líklega fallegur sófi, en ég er með nokkra í huga sem mig dreymir um,“ segir Aníta. 

Það er margt skemmtilegt fram undan hjá Anítu og verður gaman að fylgjast með henni halda áfram að blómstra í innanhússhönnuninni, enda segir hún drauminn vera að fá að vera með fingurna í allri innanhússhönnun á næstu eign hennar og Davíðs.

Ljósmynd/Aníta Mjöll Ægisdóttir
Ljósmynd/Aníta Mjöll Ægisdóttir
Ljósmynd/Aníta Mjöll Ægisdóttir
Ljósmynd/Aníta Mjöll Ægisdóttir
Ljósmynd/Aníta Mjöll Ægisdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda