Rut Kára hannaði Miðjarðarhafs-íbúð í Kópavogi

Ljósmynd/Gunnar Sverrisson

Innanhússarkitektinn Rut Káradóttir hafði áhuga á að hanna íbúð sem virtist einföld og látlaus á yfirborðinu og státaði af stemningu Miðjarðarhafsins. Þegar eigendur 220 fm þakíbúðar í Kópavogi höfðu samband við hana sá hún strax að þessar hugmyndir myndu falla vel að smekk fjölskyldunnar. Útkoman er afar notaleg og falleg á þessu einstaka heimili. 

Þú fékkst frítt spil þegar þú hannaðir íbúðina. Er það ekki óvenjulegt?

„Það er alltaf mjög spennandi og skemmtilegt þegar maður fær fullt traust til að hanna íbúðarhúsnæði, en um leið krefjandi því að sjálfsögðu verður maður að setja sér einhvern ramma. Þú þarft líka alltaf að taka tillit til þess hverjar þarfir íbúanna eru og þarft að sníða hönnunina að því. Í þessu tilfelli gat ég líka ráðið hvaða iðnaðarmenn, verkstæði og birgjar kæmu að verkefninu og gat því valið marga af mínum uppáhaldssamstarfsaðilum til að koma að framkvæmdinni,“ segir Rut.

Aðspurð hvort það hafi þurft að breyta skipulaginu á íbúðinni segir hún að það hafi ekki þurft.

„Skipulagið var nánast komið þegar ég tók við verkefninu, það er að segja staðsetning á veggjum og hurðargötum og þurfti ég aðeins að fara í minni háttar breytingar á því. Þetta er þakíbúð í nýrri blokk í Kópavogi með tveimur svefnherbergjum, tveimur baðherbergjum, þvottahúsi, stofu, borðstofu og eldhúsi,“ segir hún.

Rut Káradóttir innanhússarkitekt hannaði íbúðina.
Rut Káradóttir innanhússarkitekt hannaði íbúðina.

Látlaust yfirbragð!

Hvaða stemningu ertu að reyna að fanga?

„Mig langaði að hanna nútímalega en hlýlega íbúð í einhvers konar „Miðjarðarhafs“-anda sem skilaði sér í efnisvali og stemningu. Á yfirborðinu kann íbúðin að virka látlaus og „plain“ en þegar betur er að gáð eru ýmsir litlir hönnunarþættir sem skapa stóru myndina. Íbúðin hefur ljóst yfirbragð, þar sem blandað er saman grófri „crustal“ áferð á veggjum og grófum „Travertin“-flísum á móti fínlegum ljósum viðarinnréttingum og fallegum ljósum hörgluggatjöldum. Þá er strigi notaður á nokkra veggi og ýmsir fylgihlutir og plöntur til að klára heildarmyndina,“ segir hún.

Vildi alls ekki gula eik!

Það eru ljósir litir á veggjum og innréttingar í ljósari kantinum? Hvaða við notar þú í innréttingar?

„Ég var búin að vera til með þessa efnis- og litapallettu í kollinum í langan tíma og var orðin spennt að fá tækifæri til að nota hana í verkefni. Mig langaði í ljósar innréttingar úr eik og vildi passa að hafa hana hlýja en alls ekki gula. Ég vann með frábæru innréttingafyrirtæki í þessu verkefni og þeir gerðu fyrir mig ótal prufur áður en við urðum sátt við útkomuna,“ segir Rut en fyrirtækið sem smíðaði allar innréttingar í íbúðina heitir Smíðaþjónustan. Borðplöturnar koma hins vegar frá Fígaró. Rut segist hafa valið þennan stein á borðplöturnar til þess að það væri meira líf í hönnuninni.

„Ég vildi gæta þess að allt efnisvalið væri ljóst og létt án þess að útkoman yrði of flöt. Borðplatan sem varð fyrir valinu fannst mér tóna frábærlega við annað efnisval í íbúðinni,“ segir Rut.

Ljósmynd/Gunnar Sverrisson

Engin verksmiðjulýsing

Rut leitaði til Lúmex til þess að hanna lýsingu íbúðarinnar enda er hægt að drepa niður alla stemningu með verksmiðjulýsingu. Fyrir ofan eyjuna í eldhúsinu er til dæmis afar fallegt ljós sem er látlaust en getur töfrað fram einstaka birtu.

„Lýsingin skipar háan sess í þessari íbúð, enda lýsing eitt af þeim atriðum sem skipta höfuðmáli í allri innanhússhönnun. Lýsingin hér var öll hönnuð í samráði við lýsingarhönnuði. Lýsing er höfð þannig að hún er með mikla möguleika á að breyta eftir því hvað er í gangi hverju sinni í íbúðinni, auk þess sem ljósin sjálf eru valin þannig að þau undirstriki þá stemningu sem ég var að reyna að skapa,“ segir hún.

Síðustu ár hafa dökkir litir verið áberandi hérlendis í innréttingum. Þegar Rut er spurð hvort fólk sæki nú í ljósari liti segir hún allan gang á því.

„Hvað viðkemur litavali finnst mér mestu máli skipta hvaða heildarmynd er verið að reyna að skapa í hvert sinn. Ég er til dæmis persónulega hrifin af dökkum litum fyrir mitt heimili en það er líka vegna þess að þar eru miklir og stórir gluggar og því mikil náttúruleg birta. Ef ég væri hins vegar í húsnæði með minni gluggum og lítil börn á heimilinu myndi ég alltaf hafa íbúðina í ljósari kantinum. Það að ljósari litir séu að koma meira til baka kann að vera einmitt vegna þess að margir hafa áttað sig á að dökkir litir henta ekki þeirra húsnæði eða smekk og svo er bara svo auðvelt að breyta heildarmyndinni með því að skipta um litapallettu á nokkurra ára fresti! Hluti af veggjunum í íbúðinni er spónlagður með sama viði og innréttingarnar en á aðra veggi fór svokölluð „crustal“-málning sem gefur grófa áferð en hlýja ásýnd,“ segir Rut.

Ljósmynd/Gunnar Sverrisson

Öll gólf flísalögð

Rut lét flísaleggja íbúðina. Hún segir að það hafi þurft flísar til þess að spila á móti spónlögðu veggjunum og innréttingunum. Það hefði hreinlega orðið of mikið ef það hefði líka verið parket á gólfunum.

„Öll íbúðin er flísalögð með ljósum stórum „Travertin“-flísum og sums staðar ná þær líka upp á veggina. Þar sem mikill viður var kominn í íbúðina í innréttingum, spónlögðum innihurðum og veggjum fannst mér ekki annað koma til greina en að velja flísar á gólfin.“

Húsráðendur óskuðu eftir því að Rut hannaði ekki bara innréttingar íbúðarinnar heldur myndi hún sjá um að raða upp húsgögnum og velja þau inn á heimilið. Þegar hún er spurð hvaðan húsgögnin eru kemur í ljós að hún keypti þau á nokkrum ólíkum stöðum.

„Húsgögnin koma víða að. Til dæmis Gubi-lampar frá Lúmex og svo eru húsgögn meðal annars frá Norr 11 og StudioHomestead.“

Í íbúðinni eru tvö baðherbergi. Rut notaði sömu flísar á veggina á baðherbergjunum og eru á gólfum íbúðarinnar.

„Bæði baðherbergin eru í takt við önnur rými í íbúðinni. Það er að segja með sömu flísum og innréttingum úr sama ljósa viðnum. Valin voru Gessi-blöndunartæki og fylgihlutir inn á baðherbergin,“ segir hún en stórir speglaskápar setja svip á rýmin.

Hvað ertu ánægðust með í íbúðinni?

„Ég er ánægðust með flæðið í íbúðinni og þá stemningu sem okkur tókst að skapa með litavali, húsgögnum og lýsingunni, sem setur punktinn yfir i-ið.“

Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál