Rakel Hlín Bergsdóttir, eigandi Snúrunnar, fékk innblástur að skreytingum fyrir jólaborðið úr brúðkaupi sínu í Grikklandi sem fram fór í sumar. Rakel og eiginmaður hennar, Andri Gunnarsson, eiga samtals átta börn og þarf í mörg horn að líta við jólaborðið.
„Það er gaman að vera með greni í miðjunni. Mig langaði að blanda saman gömlu og nýju. Þegar ég fór af stað ætlaði ég að hafa allt blátt, ég er rosalega blá en svo fór ég að kaupa blómin og þurrkuðu blómin þá varð þetta svolítið fjólublátt,“ segir Rakel. Hún viðurkennir að fjólublái liturinn hafi líklega verið í undirmeðvitundinni síðan í brúðkaupinu hennar.
„Við giftum okkur í sumar og það voru svo ótrúlega fallegar blómaskreytingarnar í brúðkaupinu. Það var mikið um fjólublátt í skreytingum og mig langaði að gera meira eins og það var og þetta endaði þetta því svona.“
Yngsta barnið er rúmlega eins árs og það elsta 17 ára. Þrátt fyrir breitt aldursbil gengur vel að samræma jólasiðina og velja jólamatinn. „Það er svolítið magnað, þegar ég var bara með þrjú eða fjögur börn, þá var maður í því að allir væru með sínar sérþarfir. Maður var kannski að gera nokkra mismunandi rétti en svo þegar maður er kominn með svona stórt heimili þá gengur ekkert annað en að segja: „Þetta er í matinn og þið þurfið bara að læra að borða þetta.“ Rakel segir þessa aðferð hafa svínvirkað.
Hvað er í matinn á jólunum?
„Við höfum verið með kalkún. Það borða allir kalkún og finnst fyllingin góð. Hamborgarhryggur er líka vinsæll. Ég hef gaman af jólunum en þetta er hátíð barnanna og ég er ekkert rosalega föst í hefðum en ég fékk t.d. alltaf rjúpur þegar ég var yngri. Núna borðum við bara eitthvað sem öllum finnst gott.“
Þrátt fyrir að Rakel haldi ekki í margar hefðir finnst henni mikilvægt að einn opni gjöf í einu.
„Það er einn sem sækir gjafirnar, einn í einu opnar gjafirnar og hinir fylgjast með. En svo hefur þetta breyst svo mikið, þetta er ekki jafnmikið pakkaflóð og var. Maður reynir frekar að einblína á eitthvað annað en við gáfum þeim til dæmis bara öllum sameiginlega ferð til útlanda í fyrra.“ Hún segir að krakkarnir fái að fara sjálf í búðir og kaupa handa systkinum sínum og það finnst þeim einna skemmtilegast við jólin.
„Það er ekki fín stofa lengur eða neitt svoleiðis. Það á bara að nota hlutina og nota sparistellið sem oftast. Í staðinn fyrir að þetta sé bara inn í skáp. Sparistellið er frá Frederik Bagger og Iittala,“ segir Rakel sem tekur þó fram sérstök silfurhnífapör á jólunum.
Stórt borðstofuborðið rúmar fjölskylduna vel og fer vel um yngri börnin á flauelsbekk. „Við elskum að hafa þennan bekk. Það eru alltaf yngri krakkarnir sem sitja þar. Það er búið að setja svo mikið af mat og málningu í hann og ég veit ekki hvað en það er bara partur af karakternum. Maður verður bara að loka augunum fyrir því að hann sé ekki alltaf tandurhreinn,“ segir Rakel.
Þegar samsetta fjölskyldan er ekki saman á aðfangadag tekur hún forskot á sæluna og heldur upp á litlu jól saman. Í ár verður fyrirkomulagið einmitt þannig. „Ég ætla að skreyta borðið svona og svo treður maður matnum inn á milli. Það er ótrúlega gaman að borða matinn í fallegu umhverfi með blómum.“
Ofan á stórt heimili er mikið að gera hjá Rakel í Snúrunni í desember. „Ég gat á sínum tíma ekki beðið eftir að klára háskólann af því mér fannst ég aldrei fá nein jól til að tala um. Maður náði aldrei að taka þátt í þessum hefðum eins og að baka kökur. Svo bara liðu nokkur ár eftir að ég kláraði háskólann og þá var ég komin út í verslunarrekstur. Þá var bara enn þá meira að gera en í náminu. Ég held að það hafi mjög sjaldan komið jól þar sem ég hef ekki verið veik á aðfangadag eftir erfiða törn, segir Rakel.
Á undanförnum árum hefur jólavertíðin breyst. Fólk byrjar að versla í nóvember og jafnvel október. Sjálf er hún byrjuð að undirbúa jólin fyrr og eftir að verkefnið Jól í skókassa fékk að sitja á hakanum hjá henni í nokkur ár tók hún sig til og græjaði átta kassa með börnunum átta í byrjun nóvember. Kassarnir fara til barna á sama aldri og kyni í Úkraínu. Í leiðinni málaði fjölskyldan piparkökur og horfði á jólamynd. Rakel er því ein af þeim sem tekur jólin snemma í ár.