Myndlistarkonan Sísí Ingólfsdóttir er vandræðalega mikið jólabarn. Á jólunum er öllu tjaldað til og að sjálfsögðu gerir hún sitt eigið rauðkál. Rauð kerti, greni og fallegar jólaservíettur eru nóg til að skreyta jólaborðið í ár.
„Það er margt sem minnir Sísí á jólin. „Það getur til dæmis verið lykt og ekki bara af hangikjöti, ég fer strax í jólagírinn ef ég finn vindlalykt en afi reykti alltaf vindla á jólunum – reykti samt almennt ekki en það er eitthvað við þá lykt sem rifjar upp hugljúfar minningar,“ segir Sísí.
Jólagjafir þurfa ekki að kosta mikið en besta jólagjöf Sísíar var heimatilbúin jólagjöf frá foreldrum hennar.
„Foreldrar mínir voru ekkert sérstaklega efnuð og því voru sjaldan ef einhvern tímann einhverjar „grand“ jólagjafir nema ein jólin þar sem mamma hafði teiknað dúkkuhús og pabbi smíðað það, besta gjöf allra tíma. En þótt þau hefðu ekki mikið á milli handanna fundum við börnin aldrei fyrir því og sérstaklega ekki á þessum árstíma. Mamma bakaði allar þær sortir sem hægt er að ímynda sér, stórfjölskyldan kom í laufabrauðsgerð, hátíðarmatur og eftirvænting, það skorti aldrei neitt,“ segir Sísí.
„Pabbi minn féll skyndilega frá þegar ég var tíu ára og lengi vel voru jólin mér einstaklega erfiður tími. Það er einhvern veginn ætlast til þess eða í það minnsta búist við því að manni líði vel á þessum tíma, en það er auðvitað ekki alltaf svo. Jólin geta valdið fólki kvíða og vanlíðan. Það var eiginlega ekki fyrr en ég varð móðir sem „jólaandinn“ kom aftur yfir mig. Ég fékk fyrsta barnið mitt altalandi og fullkomna í fangið rétt í kringum tvítugt. Hún á vissulega mömmu, dásamlega mömmu, en svo á hún mig, alltaf. En þessi lita sprengja af gleði endurvakti mína ást á þessari hátíð – mig langar að segja ljóss og friðar en ætla að hemja mig. Að upplifa gleðina og spenninginn hjá þessum dásemdum er magnað. En ég á ekki nema fimm slík í dag sem byrja sko að telja niður í apríl.“
Myndlistarkonunni Sísí finnst gaman að dýfa tánum í hönnun og fyrir jólin hannaði hún sérstakar jólaservíettur fyrir Rammagerðina. „Ég hef undanfarið ár átt mjög farsælt og ánægjulegt samstarf við þau þar sem ýmsar vörur hafa litið dagsins ljós,“ segir Sísí, sem finnst gaman að pæla í hvar línan liggur í list, hönnun og handverki.
„Ég gerði tvenns konar jólaservíettur í ár; annars vegar afsökun og hins vegar uppskrift að rauðkáli, servíetturnar eru svo gerðar af snillingunum í Reykjavík Letterpress. Báðar týpur eru textaverk með myndum í fallegum vínrauðum lit svo þótt það sé mikið að gerast á þeim þá eru þær ekki truflandi. Ég afsaka mig mjög mikið, mjög, en ég er þó skömminni skárri en móðir mín og hún eitthvað betri en hennar móðir. Ég byrjaði að vinna með afsakanir fyrir rúmum þremur árum, kannski fyrst og fremst sem einhvers konar óð til móður minnar og annarra formæðra. Það fór fljótlega út í sjálfsvinnu sem svo þróast út í kannski meira háð að þessari fáránlegu algengu þörf okkar, sérstaklega kvenna, til að afsaka okkur og hreinlega minnka okkur. Sem við eigum auðvitað ekkert með að gera. Í dag telja þessar afsakanir mörg hundruð og ég alls ekki búin.
Rauðkálsuppskrifin er bara eitthvað upp úr mér en ég geri að sjálfsögðu alltaf mitt eigið rauðkál fyrir jólin, fyrsta sem ég geri snemma aðfangadags. Ég held að margir geri sitt eigið og enn fleiri langi að prufa það, mikla það kannski fyrir sér en þetta er ekkert stórmál. Ég vona bara að servíetturnar fangi einhverja stund í undirbúningi jóla sem vonandi margir geta tengt við.“
Þegar Sísí lagði á jólaborðið fyrir jólablaðið notaði hún hversdagsdiskana. Það passaði við stemninguna sem hún vildi hafa látlausa. Hún segir þó að jólin séu tími til að tjalda öllu til og sjá börnin yfirleitt um að yfirskreyta jólatréð.
„Í ár var borðskreytingin frekar einföld, klipptar grenigreinar og rauð kerti, hlutirnir þurfa ekki alltaf að vera flóknir. Á aðfangadagskvöld hefur kona oft misst sig örlítið. Tveir forréttir, einn vegan, einn ekki. Eftir það kemur möndlugrauturinn en við höfum alltaf nýtt borðspil í möndlugjöf. Þá kemur þrefaldur aðalréttur, hnetusteik, hamborgarhryggur og rjúpa með tilheyrandi meðlæti, þar á meðal rauðkáli, þremur mismunandi sósum og annarri geðveiki. Í eftirrétt er svo veganútgáfa; heimagerður rommkúluís og trufflur.“
Sísí segist stundum draga fram sparistellið á jólunum.
„Ég á sparistell, ótrúlega fallegt og fíngert postulínsstell frá hinu norska Porsegrund en stellið fékk ég frá yngsta bróður mínum. Hann hafði fengið það frá mömmu sem fékk það í brúðargjöf árið 1970. Þetta er rosalegt stell, það vantar ekkert, allar tegundir af skálum og diskum, öll stór og minni föt, meira að segja blómavasar og kertastjakar og bæði kaffi- og kakóbollar. Þetta stell tekur bókstaflega tvo skápa. En mér finnst virkilega skemmtilegt að nota það, þótt það þurfi að handþvo eftir á. Ég kannski nota það bara of sjaldan. Fólk þarf auðvitað ekkert að eiga sparistell en það gerir til dæmis jólin hátíðlegri að nota svona „spari“.“
Áttu þér uppáhaldsjólaminningu?
„Uppáhaldsjólaminningarnar mínar eru í raun tvíþættar; annars vegar sem barn í faðmi fjölskyldunnar og hins vegar sem móðir í faðmi barnanna minna. Ég get í raun ekki gert upp á milli þeirra. Ætli uppáhaldsjólin séu ekki bara alltaf þau sem eiga sér stað hverju sinni. Eftirminnileg atvik eru þó nokkur, bæði skondin og ljúf.“
Hvernig verða jólin í ár?
„Jólin í ár verða bara kósí, ég hef undanfarin ár haft börnin, móður mína, yngsta bróður minn, konuna hans og stundum móður hennar. En í ár verður mamma hjá elsta bróður mínum og sá yngsti og hans lið verða ekki á landinu. Þannig að kósí, held ég. Bara ég og börnin. Auðvitað mestmegnis af hefðbundna matnum, óáfengur jólakokteill fyrir lötu mömmuna, trönuberjasafi og sódavatn, 50/50, skreytt með rósmaríni en í fallegu glasi. Gjafabrjálæði og kósíheit fram á kvöld. Ég hlakka mjög mikið til, það er reyndar búið að vera svolítil vinnutörn hjá mér svo þetta verður bara dásamlegt held ég,“ segir Sísí, sem hlakkar til jólanna.