Við Hringrbaut í Hafnarfirði er að finna stórkostlegt 308 fm einbýli sem reist var árið 1958 og teiknað af Guðmundi Kr. Kristinssyni, arkitekt. Á síðustu árum hefur húsið fengið mikla yfirhalningu, bæði að utan og innan. Það var innanhússarkitektinn Hanna Stína sem sá um endurhönnun að innan og óhætt að segja að útkoman sé einstaklega glæsileg.
Eignin er á þremur hæðum og stendur á fallegri og gróinni 1.649 fm eignarlóð sem liggur að Jófríðarstaðalandi. Fallegt útsýni er frá húsinu yfir Hafnarfjörðinn, vestur yfir höfnina, til sjávar og fjalla.
Á miðhæðinni eru eldhús, borðstofa og hol samliggjandi í björtu og rúmgóðu alrými. Eldhúsið er sannkallað augnakonfekt með glæsilegri sérsmíðaðri innréttingu með marmara. Þar er bæði gott skápa- og vinnupláss, en stórir gluggar hleypa mikilli birtu inn í rýmið sem hefur sterkan karakter.
Frá holi eru tvö þrep niður í neðri stofu þar sem stór og glæsilegur arinn með marmara og stein setur mikinn glæsibrag á rýmið. Frá stofu er útgengt á svalir í norðvestur. Falleg hönnun er áberandi í húsinu, og þar eru húsmunir ekki undanskyldir. Í stofunni má til að mynda sjá hinn glæsilega Flos Arco-gólflampa sem vekur alltaf athygli.
Á efstu hæðinni eru svefn- og baðherbergi, þar á meðal er rúmgóð hjónasvíta með fataherbergi og sér baðherbergi. Á baðherbergi er falleg innrétting með marmara, en frístandandi baðkar og sér sturta með innfeldum blöndunartækjum gefa rýminu mikinn lúxusbrag.