Eyjólfur Héðinsson fótboltamaður og afreksþjálfari hjá Breiðablik hefur sett íbúð sína í Foldarsmára í Kópavogi á sölu. Eyjólfur er í sambúð með landsliðskonunni Fanndísi Friðriksdóttur.
Um er að ræða 160 fermetra íbúð á efri hæð í tvíbýlishúsi með 28 fermetra bílskúr.
Parið á von á sínu öðru barni á þessu ári, litlum dreng, en fyrir eiga þau dótturina Elísu sem er tveggja ára.
Fanndís hefur undanfarin ár leikið með liði Vals. Hún fór í fæðingarorlof árið 2020 en sneri aftur á völlinn árið 2021. Sama ár sleit hún krossband. Fanndís á að baki 109 leiki með A-landsliðinu og hefur skorað í þeim 17 mörk.
Eyjólfur spilaði síðast með uppeldisfélagi sínu, ÍR, eftir að hafa verið á mála hjá Stjörnunni í fimm ár. Í vetur tók hann við starfi afreksþjálfara elstu flokka karla hjá Breiðablik.