Arnar Már Davíðsson, stofnandi Ketchup Creative, og Brynja Guðmundsdóttir, fyrirsæta og leikkona, hafa sett glæsilega íbúð sína við Njarðargötu í miðbæ Reykjavíkur á sölu.
Íbúðin, sem er á tveimur hæðum, er 92 fm að stærð og er staðsett í fjölbýlishúsi sem reist var árið 1926. Þau Arnar og Brynja hafa innréttað eignina á sérlega sjarmerandi máta þar sem fallegir litir og skemmtileg form mætast og skapa skemmtilega stemningu.
Eldhús og borðstofa eru samliggjandi í björtu rými með stórum gluggum. Í eldhúsinu er glæsileg innrétting úr við með skápafrontum frá Haf Studio, en viðurinn setur sterkan svip á rýmið og tónar fallega við ljósa Macaubas-kvartsít borðplötuna.
Í borðstofunni fær ljós eik að njóta sín í borði og stólum, en glöggir hönnunarunnendur kannast vel við Y stólana sem hinn danski Hans J. Wegner hannaði fyrir Carl Hansen & Søn árið 1949 – enda algjör klassík.
Frá borðstofu er gengið inn í samliggjandi stofu og sjónvarpsstofu. Mjúkar og ávalar línur bleika sófans til móts við skarpar línur í ljósu Travertín-sófaborði frá danska hönnunarmerkinu Ferm Living gefa rýminu hlýju og karakter.