Við Bergstaðastræti 70 stendur glæsilegt 343,5 fm einbýlishús sem teiknað var af Skarphéðni Jóhannssyni arkitekt. Hjalti Geir Kristjánsson hannaði húsið að innan en húsið var í eigu hans og eiginkonu hans, Sigríðar Th. Erlendsdóttur sagnfræðings. Þau eru bæði látin.
Hjalti lauk verslunarprófi frá VÍ 1944 og sveinsprófi í húsgagnasmíði frá Iðnskólanum 1948. Hélt þá til Sviss og lauk námi í húsgagnateiknun frá Kunstgewerbeschule der Stadt Zürich 1950, fór í framhaldsnám í húsgagnahönnun í Svíþjóð og verslunargreinum við Columbia-háskóla í New York.
Hjalti var framkvæmdastjóri Kristjáns Siggeirssonar hf. frá 1952, ásamt því að hanna þau húsgögn sem fyrirtækið framleiddi, og var stjórnarformaður GKS 1990.
Hann var stofnandi FHI, Félags húsgagna- og innanhússarkitekta, árið 1953 og formaður til 1962. Árið 2019 var Hjalti gerður að heiðursfélaga FHI. Hann sat í stjórn Verslunarráðs Íslands 1969-1982, þar af formaður frá 1978. Hjalti var stjórnarformaður Almennra trygginga 1974-1989 og varaformaður stjórnar Sjóvár-Almennra frá 1989. Hann sat í stjórn Félags íslenskra iðnrekenda 1975-1979, í stjórn Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins 1975-1979. Þá sat Hjalti í stjórn Slippfélagsins og Hamars hf. 1976-1986, stjórn Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis frá 1978-2003, stjórn Eimskipafélagsins 1981-2000, stjórn Stálsmiðjunnar 1986-1990. Hjalti var ræðismaður Sviss á Íslandi 1987-1997, var sæmdur riddarakrossi fálkaorðunnar 1986 og finnsku Ljónsorðunni 1982.
Hjalti Geir var brautryðjandi á sviði íslensks iðnaðar og hönnunar. Hann studdi inngönguna í EFTA 1970 en þá gátu íslenskir hönnuðir beint sjónum sínum utan, sem hleypti lífi í starf íslenskra húsgagnaarkitekta og íslensk hönnun varð að sjálfstæðri atvinnugrein ekki síst fyrir framgöngu hans.
10. nóvember 2014 var húsið friðlýst af forsætisráðherra en þá voru liðin 100 ár frá fæðingu Skarphéðins Jóhannssonar arkitekts. Friðlýsingin tekur til ytra borðs hússins.
6. mars var húsið selt á 355 milljónir. Kaupendur hússins eru Stefanía Sigfúsdóttir arkitekt og Gísli Valur Guðjónsson framkvæmdastjóri Ísafoldar Capital Partners. Hjónin búa í Fossvoginum en árið 2015 fengu þau fegrunarviðurkenningu frá Reykjavíkurborg fyrir vel heppnaðar endurbætur á húsinu sem er við Láland.