„Hreinlega afrek að ég týni ekki sjálfri mér“

Svana Lovísa er mikill fagurkeri.
Svana Lovísa er mikill fagurkeri. Ljósmynd/Aldís Pálsdóttir

Svana Lovísa Kristjánsdóttir hönnuður og bloggari á Svart á hvítu er fagurkeri af guðs náð. Svana býr í Hafnarfirði með fjölskyldu sinni þar sem þau eru að gera sína fyrstu eign upp hægt og rólega. Stóllinn Svanur prýðir heimilið en það er einmitt draumahúsgagn Svönu.

Hvaða nám ert þú ánægðust með að hafa farið í?

„Ég lærði vöruhönnun sem var mjög skemmtilegt nám en það sem ég er ánægðust með að hafa lært er uppstoppun þó svo að það áhugamál sé aðeins til í kollinum á mér eins og er og bíði þess að ég hafi minna að gera.“

Ertu skipulögð?

„Ætli mætti ekki frekar segja að ég væri alveg einstaklega óskipulögð og það er hreinlega afrek að ég týni ekki sjálfri mér á hverjum degi.“

Hvað borðar þú í morgunmat?

„Hafragraut með bláberjum og rjóma þegar það gefst tími.“

Hvað gerirðu til þess að slaka á og dekra við þig?

„Ég slaka því miður alltof of sjaldan á og hvað þá að dekra við mig en ég setti mér áramótaheit að gera meira af því, fara til dæmis í heita pottinn eftir æfingu og tæma hugann. Það verður mjög ljúft.“

Hver er uppáhaldsborgin þín og af hverju?

„Kaupmannahöfn er mín allra mesta uppáhaldsborg og ég fæ ekki nóg af henni, allar minningarnar, mannlífið, lífsstíllinn, hönnunin og verslanirnar. Ég stefni á að fara næst í heimsókn í byrjun sumars á sýninguna 3 days of design og ég get varla beðið.“

Kaupmannahöfn.
Kaupmannahöfn. mbl.is/Ómar

Hvað gerir þú um helgar?

„Ég elska að keyra upp í bústað með fjölskyldunni og baka eða föndra með krökkunum og kíkja í pottinn. Ef ég er heima finnst mér gaman að dunda mér í einhverjum verkefnum á heimilinu og er alltaf með nokkur í gangi. Helgarfrí með fáum plönum eru best.“

Uppáhaldssjónvarpsþættir?

„Ég virðist alltaf geta dottið aftur og aftur inn í Sex and the City, en flestir hönnunartengdir og skapandi þættir skora einnig mjög hátt hjá mér, til dæmis Designing Miami á Netflix.“

Svanurinn er í uppáhaldi.
Svanurinn er í uppáhaldi.

Hvert er draumahúsgagnið þitt?

„Það toppar fátt svaninn í mínum huga, svo einstaklega formfögur og klassísk hönnun. Mig dreymir um að eignast í framtíðinni einn svan til viðbótar á móti þeim sem ég á.“

Það er alltaf skemmtilegt að horfa á Bemál í borginni.
Það er alltaf skemmtilegt að horfa á Bemál í borginni. REUTERS

Hvaða bók er á náttborðinu?

„The Eye er bók sem ég hef átt í nokkurn tíma en ekki gefið mér tíma til að lesa. Þar segja áhrifamiklir skapandi einstaklingar, listrænir stjórnendur, hönnuðir og fleiri frá því hvernig þau þróuðu „augað“ sitt, tekið saman af Nathan Williams, skapara Kinfolk-bókaveldisins. Mjög áhugaverð bók sem tilheyrir reyndar sófaborðinu mínu en ekki náttborðinu.“

Bokin The Eye er í stofunni.
Bokin The Eye er í stofunni.

Hvaða hlutur er ómissandi?

„Eins óspennandi og það hljómar þá er það Samsung-síminn minn, sem er ansi ómissandi fyrir manneskju sem starfar við samfélagsmiðla. Ég elska að taka myndir og fanga falleg augnablik og gríp því oft í símann minn til þess.“

Áttu þér uppáhaldshönnuð?

„Ég held upp á mjög marga hönnuði, til dæmis elska ég dönsku glerlistakonuna Helle Mardahl sem hannar litríka glerskúlptúra sem eru eins og sælgæti fyrir augun. Andrea Magnús fatahönnuður og vinkona mín er einnig einstaklega hæfileikarík og hún gerir allt svo fallegt. Að ógleymdum dönsku meisturunum Arne Jacobsen, Hans J. Wegner og Verner Panton, til að nefna nokkra sem ég dáist að verkum eftir.“

Svana er hrifin af hönnun Helle Mardahl.
Svana er hrifin af hönnun Helle Mardahl.

Hvaða snyrtivara er í uppáhaldi?

„St. Tropez-andlitsbrúnkudropar sem ég set stundum í rakakremið fyrir nóttina og vakna svo frískleg að það er eins og ég hafi fengið fullan nætursvefn, algjör lúxus með alls kyns dásamlegum innihaldsefnum eins og hýalúrónsýru sem ég trúi að geri mér gott.“

Hvað er á óskalistanum?

„Fallegt íslenskt listaverk er ofarlega á listanum ef spurt er um veraldlega hluti en langefst á listanum eru sólarlönd í frí með fjölskyldunni.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda