Ein hraustasta kona Íslands, Annie Mist Þórisdóttir, festi kaup á fokheldu glæsihúsi í Garðabæ ásamt unnasta sínum, Frederik Emil Ægidius. Húsið er 271 fm að stærð og er á tveimur hæðum. Annie Mist varð heimsfræg þegar hún sigraði heimsleikana í CrossFit 2011 í Los Angeles.
Hinn margverðlaunaði Pálmar Kristmundsson er arkitekt hússins. 2021 hlaut hann hina eftirsóttu Prins Eugen-orðu fyrir framúrskarandi framlag til byggingarlistar. Orðan er veitt árlega af sænsku konungsfjölskyldunni til fimm einstaklinga frá Norðurlöndunum fyrir framlag sitt til listsköpunar.
Það er því ekki skrýtið að Annie Mist og Frederik hafi fallið fyrir húsinu. Í auglýsingu á fasteignavef mbl.is kom fram að húsið væri sérlega fjölskylduvænt og státaði af fallegu útsýni yfir Urriðavatn í Garðabæ. Á efri hæð hússins er stofa, eldhús, vinnuherbergi, baðherbegi og fjölskylduherbergi. Stórir gluggar prýða húsið og hleypa mikilli birtu inn. Auk þess er hátt til lofts. Á neðri hæðinni er inngangur, bílskúr, hjónaherbergi, geymsla, tvö baðherbergi og þrjú herbergi.
Síðan Annie Mist og Frederik festu kaup á húsinu hafa framkvæmdir staðið yfir enda margt sem þarf að gera þangað til húsið kemst á byggingarstig 7. Það er ljóst að það mun ekki væsa um fjölskylduna í nýja húsinu. Þess má geta að Annie Mist er ekki eini íþróttamaður landsins sem býr við Víkurgötu því Aron Einar Gunnarsson og Kristbjörg Jónasdóttir búa í húsinu á móti.