Lögfræðingurinn Ómar R. Valdimarsson og Margrét Ýr Ingimarsdóttir, kennari og eigandi Hugmyndabankans, eru farin hvort í sína áttina. Hjónin fyrrverandi voru samferða í 17 ár og eiga tvö börn en nú skilja leiðir. Nú hafa þau sett húsið á sölu.
Um er að ræða 186 fm einbýli sem byggt var 1972. Hjónin fyrrverandi fengu Berglindi Berndsen innanhússarkitekt til þess að endurhanna húsið. Húsið var til umfjöllunar á Smartlandi 2019.
„Þegar maður ákveður að demba sér í framkvæmdir sem þessar vill maður ekki velja hvern sem er. Maður vill fagaðila og einhvern sem í raun endurspeglar manns eigin stíl. Jafnvel, ef svo má að orði komast, kemur hugsunum manns á blað og framkvæmir þær. Ég var búin að vera að skoða ýmislegt á netinu og búin að vista ýmsar myndir af hönnun sem mér þótti falleg og var í takt við minn smekk. Það kom svo á daginn að það voru meira og minna allt myndir frá Berglindi. Þegar ég svo hitti Berglindi sjálfa vissi ég strax að hún myndi rúlla þessu upp. Hún áttaði sig strax á stílnum sem ég var að leita eftir og ætli við höfum ekki bara smollið svona saman. Hún er líka fagmaður fram í fingurgóma,“ sagði Margrét Ýr í viðtalinu.