Hafsteinn Júlíusson og Karitas Sveinsdóttir í HAF STUDIO hafa sett glæsilegt heimili sitt á sölu. Um er að ræða 199 fm hús sem byggt var 1916 af Einari Arnórssyni ráðherra. Í gegnum tíðina hafa þekktir einstaklingar búið í húsinu en þess má geta að Halldór Laxness bjó þar á árunum 1930-1939 en á þeim árum skrifaði hann Heimsljós, Sölku Völku og Sjálfstætt fólk.
Húsið er á tveimur hæðum, bjart með stórum og góðum gluggum sem hleypa mikilli birtu inn. Í húsinu eru skrautlistar og rósettur en til þess að gera stílinn nútímalegri er kalkmálning í mörgum veggjum sem gefur heimilinu hrífandi blæ.
Hjónin hönnuðu allar innréttingar í húsið og notuðu sitt eigið hugvit, HAF STUDIO-frontana á innréttingarnar. Frontarnir passa á innréttingar frá IKEA og hafa notið vinsælda. Í eldhúsinu er svo mikill marmari sem rammar inn og fegrar.