RD 11 ehf. hefur fest kaup á 283,3 fm einbýli við Sunnuveg 33 í Reykjavík. Félagið er í eigu Ríkharðs Daðasonar fyrrverandi fótboltamanns og fjárfestis. Kaupin fóru fram 20. apríl og var húsið afhent félaginu sama dag. Félagið RD 11 ehf. greiddi 270.000.000 kr. fyrir húsið.
Ríkharður bjó í húsinu ásamt eiginkonu sinni Eddu Hermannsdóttur samskiptastjóra Íslandsbanka. Í desember settu þau húsið á sölu og var fjallað um það á Smartlandi.
Húsið er byggt 1971 og er á tveimur hæðum. Það er vel skipulagt fjölskylduhús og er eldhúsið í hjarta hússins. Þar eru hvítar sprautulakkaðar innréttingar í forgrunni og stór eyja spilar þar lykilhlutverk. Eyjan er klædd að utan með eik og er náttúrusteinn á borðplötunni. Á gólfum í stofu og eldhúsi eru flísar.
Á dögunum festu Edda og Ríkharður kaup á húsi við Bakkavör 12 á Seltjarnarnesi. Um er að ræða 500 fm glæsihús sem teiknað var af Kjartani Sveinssyni. Ekki liggur fyrir hvað hjónin greiddu fyrir húsið.