Hjónin Agnes Þorleifsdóttir smíðakennari og Guðmundur Halldórsson matreiðslumeistari hafa nostrað við pallinn sinn síðastliðinn áratug. Á meðan Agnes sér um að smíða húsgögnin á pallinn sér Guðmundur um stærri verkin og að grilla ofan í fjölskylduna.
Agnes segir þau hjón vera pallafólk og þau hafa lagt metnað í pallinn. „Við erum með heitan pott og notum pallinn mjög mikið. Þetta er samstarfsverkefni hjá okkur,“ segir Agnes og útskýrir fyrir blaðamanni að þegar þau eru í framkvæmdum vinni þau bæði.
Þegar þau keyptu húsið nýttist pallurinn illa en hann var lítill og sólin var farin af honum um kvöldmatarleytið.
„Við gerðum pallinn í tveimur áföngum. Fyrir um níu árum gerðum við nýjan pall og fyrir svona fimm árum stækkuðum við hann og gerðum hann enn þá stærri. Það er út af heita pottinum sem við stækkuðum pallinn.“
Pallurinn er L-laga og nær langt út frá húsinu. „Garðurinn okkur er mjög stór og við vorum til í að gera stóran pall. Okkur langaði líka í skjól og kvöldsólina og þess vegna settum við pottinn ekki upp við húsið, hann er lengra úti í miðjum garðinum,“ segir Agnes og segir þau frekar vilja ganga lengri leið í pottinn en að vera í skugga á kvöldin. Yst á palllinum vekur falleg pergóla eða yfirbyggt skýli athygli en þar ná þau kvöldsólinni.
Hjónin hafa verið dugleg að finna sniðugar lausnir og sníða sér stakk eftir vexti. Á neðri pallinum er til að mynda þrep til að komast upp á efri pallinn sem heiti potturinn er á. „Það var til að spara okkur vinnu og komast hjá því að moka gríðarlegum jarðvegi í gegnum garðinn,“ segir Agnes sem segir að þau hafi handmokað mikið þar sem stór vinnuvél komst ekki inn í garðinn. Í dag finnst þeim þrepið fallegt.
Agnes og Guðmundur eru búin að smíða notalega aðstöðu í kringum glæsilegt grillið. „Við bjuggum til aukaborð við grillið. Maður vill alltaf hafa fráleggsborð. Kokkurinn vill hafa rými. Útieldhús eru vinsæl í dag en við leysum þetta með löngum vegg og vinnuborði við hliðina á grillinu,“ segir Agnes og hrósar manni sínum fyrir að vera duglegur að matreiða heima, ekki bara í vinnunni.
„Þegar ég var komin með svona stóran pall þá vantaði mig húsgögn á pallinn. Það skipti mig máli vera með húsgögn sem gætu verið úti allt árið. Ég vildi ekki kaupa húsgögn sem þurfti að setja í geymslu þar sem bílskúrinn okkar er fullur en við erum með fjórhjól og svona þar,“ segir Agnes sem smíðar flest útihúsgögnin sjálf. Fyrir nokkrum árum byrjaði hún að smíða stóla í svokölluðum Adirondack-stíl en hönnunin er upprunalega frá Bandaríkjunum. „Upphaflega sniðið fékk ég á netinu, þetta er ekki mín hönnun. Svo aðlagaði ég og breytti,“ segir Agnes. Um tíma var Agnes að selja stólana en hún er hætt því enda krefst smíðin mikillar vinnu og nú er hægt að fá stóla í þessum stíl á fleiri stöðum en áður.
Í dag einbeitir hún sér að smekklegum hliðarborðum á pallinn og selur á Facebook-síðunni Addý – Hönnun og Handverk. „Ég fékk þessa hugmynd af því að ég er með hliðarborð inni hjá mér. Mig langaði að smíða svoleiðis fyrir pallinn. Þetta er eitthvað sem ég er að gera aukalega á kvöldin og um helgar og þegar ég er í sumarfríi. Nú er ég aðallega að gera þessi hliðarborð. Ég er handverksmanneskja, ég prjóna og sauma sem áhugamál en hef verið stórtækari að smíða og selja,“ segir Agnes.
Af hverju ákvaðst þú að læra að verða smíðakennari?
„Ég er grunnskólakennari en tók tók smíðakennslu sem valgrein. Upphaflega ætlaði ég að velja eðlis- og efnafræði og samfélagsgreinar. En um leið og ég sá smíðadeildina þá hætti ég við. Ég hafði verið að smíða áður, pabbi minn er smiður og ég hafði verið að smíða smáhluti,“ segir Agnes.
Eitt það nýjasta á pallinum er glæsilegur legubekkur. „Ég fór í austurrísku og ítölsku Alpana síðasta sumar. Þar voru svona legubekkir út um allt. Uppi á fjallstoppum og við fjallaskála, bæði í Austurríki og á Ítalíu. Um leið og við komum heim síðasta sumar prófaði ég að smíða bekk,“ segir Agnes og segir mjög þægilegt að liggja í bekknum.
Liggurðu í góðu stólunum þínum á pallinum eða ertu bara að smíða?
„Bæði. Maður finnur eitthvert jafnvægi á milli. Mér finnst gott að grípa í að smíða en svo finnst mér hrikalega þægilegt að liggja í pottinum og stólunum, þeir eru náttúrulega einstaklega þægilegir. Það er svo góð hönnun á Adirondack-stólunum. Við notum garðinn, pallinn og pottinum mjög mikið,“ segir Agnes.