Bjargey Ingólfsdóttir, fyrirlesari og fararstjóri, er mikill fagurkeri og elskar að dúlla við garðinn sinn. Sumarblómin eru ómissandi í garði Bjargeyjar en nýjasta fjárfestingin er rennihurð sem bætir aðgengi út í garð.
Hvað finnst þér best við garðinn þinn?
„Að hann er umvafinn stórum trjám og smáfuglarnir eru með tónleika árið um kring í garðinum fyrir okkur.“
Hvenær áttu þínar bestu stundir í garðinum?
„Klárlega í heita pottinum og í sólbaði á pallinum en bestu stundirnar eru líka þegar við fáum vini og fjölskyldu heim á góðum sumardögum í grill og skemmtilega samveru.“
Áttu þér uppáhaldsplöntu eða tré?
„Já, við erum með elri, mjög fallegt tré af birkiætt sem er í miklu uppáhaldi hjá okkur og hefur vaxið og dafnað með okkur fjölskyldunni í þau 11 ár sem við höfum búið í húsinu.“
Hverskonar grillmatur finnst þér bestur?
„Ég elska að grilla kjúkling, fisk og kjöt og allskonar grænmeti. Við höfum aðeins prófað okkur áfram með að grilla pizzur en ég væri til í að fjárfesta í pizzaofni til að hafa í útieldhúsinu. Ég viðurkenni að mér finnst mjög notalegt að slaka á í heita pottinum á meðan betri helmingurinn grillar fyrir mig svo hann verður að fá heiðurinn af því að sjá um grillið.“
Hvernig finnst þér fallegt að leggja á borð úti á góðum degi?
„Ég elska að leggja fallega á borð og í garðinum finnst mér fallegt að hafa bastdiskamottur, hördúka og nota náttúrulegt efni í skreytingar eins og greinar, falleg blóm og plöntur.“
Hvaða garðvinna finnst þér skemmtilegust?
„Að setja niður sumarblóm í fallega blómapotta og gera það sama á haustin með fallegu og litríku haustplöntunum.“
En leiðinlegust?
„Ég held hreinlega að mér finnist ekkert leiðinlegt í garðinum, en það getur verið alveg frábær hugleiðsla að reyta arfa og gera fínt. Ég mætti reyndar alveg gera meira af því en það er önnur saga.“
Hvað finnst þér vera í tísku núna þegar kemur að görðum?
„Að vera með fallegt svæði til að setjast niður og nota púða og teppi til að gera notalegt. Pergólur og útieldhús eru mjög vinsæl og gera skemmtilega stemningu.“
Hvað finnst þér ómissandi að eiga í garðinum?
„Það kæmi ekki sumar hjá mér án sumarblóma svo ég myndi segja að þau séu ómissandi gleðigjafar í garðinum.“
Áttu þér uppáhaldsgarð erlendis?
„Já, ég á mér einn allra uppáhalds sem heitir Marie Selby Botanical Gardens og er í Sarasota í Flórída. Hann er einn stór ævintýraheimur og ótrúlega fallegur.“
Hvað er það síðasta sem þú gerðir fyrir garðinn þinn?
„Við vorum að fjárfesta í nýjum hurðum úr stofu út á pall og erum komin með ótrúlega fallega og stóra rennihurð svo það auðveldar allt aðgengi að pallinum.“
Er eitthvað á óskalistanum fyrir pallinn?
„Já, það er svo ótrúlega margt! Það helsta á draumalistanum núna er falleg kamína til að geta kveikt eld á kvöldin. Síðan er stóri draumurinn að fá mér stórt upphitað gróðurhús í garðinn þar sem væri hægt að hafa borðstofu og geta borðað úti í garði allt árið innan um fallegar plöntur og blóm.“