Þegar Kristín Helga Schiöth sinnir garðinum á æskuheimili sínu á Akureyri hugsar hún um móður sína sem lést fyrir nokkrum árum. Nú búa þrjár kynslóðir undir sama þaki og hjálpast að við að halda arfleifð móður Kristínar Helgu á lofti.
„Þetta er garður foreldra minna á æskuheimili mínu en móðir mín lést 2019. Það er mikil tilfinningatenging við þennan garð og við garðrækt almennt. Ást á blómum og garðrækt tengdi okkur mjög mikið. Ég bý í húsinu ásamt manninum mínum, sonum okkar tveimur og svo pabba,“ segir Kristín Helga.
„Mamma lést úr krabbameini og vissi lengi í hvað stefndi. Við ræddum hlutina mikið fram og til baka, lífið og dauðann. Hún vildi láta brenna sig og hún spurði hvort við vildum eiga stað til þess að vitja hennar. Svarið mitt var að í hvert einasta skipti sem ég er vasast í blómum, þegar ég er að brasa í garðinum eða einhverjum framtíðargarði sem við munum eiga þá er ég að vitja þín. Ég þurfti ekki að hafa legstein til að vitja.“
Í kórónuveirufaraldrinum fór Kristín Helga að sá sumarblómum í gríð og erg. „Ég fór í gegnum fræin hennar mömmu. Þetta er búin að vera mikil þerapía en hún sáði alltaf fyrir sumarblómum. Ég endaði á að halda blómamarkað í götunni og seldi sumarblóm. Ég er ekki alveg jafnstórtæk núna en ég er með gott magn sem er á leiðinni út hjá mér.“
„Garðurinn er griðastaður fjölskyldunnar. Við verjum miklum tíma í honum, þetta er ekki puntugarður. Það er mikið af blómum í honum, mikið líf og mikið skordýralíf. Mamma valdi tegundir sem voru snemmblómstrandi gagngert til þess að hjálpa býflugunum og svo var hún með fjölæringa sem blómstra seint til þess að hjálpa þeim að lifa allt sumarið.“ Kristín Helga er menntuð í alþjóðafræðum með áherslu á samspil umhverfismála og mannréttinda. Hún bjó í sjö ár í Danmörku og segir hún Dani vera komna töluvert á undan Íslendingum í umhverfismálum. Þar var til að mynda töluvert meiri umræða um eiturefnanotkun en hér heima.
„Garðaúðun tíðkast ekki, ég sá aldrei runna úðaða innan bæjarmarka. En hér þykir þetta svo ofboðslega eðlilegt og sjálfsagt,“ segir Kristín Helga. Ein ástæðan fyrir því að þetta þykir ekki í lagi í Danmörku er að grunnvatnsstaðan er slæm hjá þeim. Þrátt fyrir að við séum ríkari af vatni á Íslandi segir Kristín Helga varhugavert að úða eiturefnum á gróðurinn og vill hún ekki sjá eitur í garðinum sínum frekar en móðir hennar. „Mér finnst umhugsunarvert hvað þetta er sjálfsagður hluti af garðverkunum. Þegar þú ert að úða þá ertu að drepa allt. Þú ert ekki að velja það að drepa lirfurnar sem éta laufin, þú ert líka að drepa humlurnar sem eru nauðsynlegar fyrir allt lífríkið, eitrið berst svo áfram í fuglana sem borða skordýrin. Þú ert að valda meiri skaða vil ég meina heldur en fólk almennt gerir sér grein fyrir.“
Fjölskyldan lenti í áfalli þegar garðurinn var eitraður án þeirra leyfis fyrir ári.
„Þegar við komum heim einn daginn var búið að úða alla runna, yfir matjurtirnar okkar og yfir leikföng barnanna okkar. Húsfélagið hafði pantað úðun á alla garðana í lengjunni, að íbúum forspurðum og meindýraeyðirinn setti ekki spurningarmerki við neitt. Fólki finnst þetta kannski léttvægt en það var það ekki fyrir okkur sem er umhugað um lífríkið í garðinum, heilsu barnanna okkar og það að geta nýtt garðinn til leiks og matar. Það féllu nokkur tár þegar við hentum heimaræktuðum kryddjurtunum sem við höfðum ræktað frá fræi og þrifum leikföng og húsgögn sem höfðu fengið á sig óumbeðið eitur. Þetta eru þrávirk efni sem hverfa ekki úr jarðveginum á einu ári,“ segir Kristín Helga.
Margt í garðinum hefur mikla þýðingu fyrir fjölskylduna eins og lyngrósirnar eða það sem fjölskyldan kallar koníaksrósir. „Pabba fannst lyngrósirnar ansi dýrar þegar mamma var að skoða þær fyrir mörgum, mörgum árum. Þá sagði afgreiðslukonan: „Já, þetta er bara eins og ein koníaksflaska.“ Þá þagði hann og keypti lyngrós og svo gerði hann þetta mjög reglulega á eftir,“ segir Kristín Helga sem segir foreldra sína einnig hafa gróðursett tré fyrir barnabörnin.
Það er ekki bara fullorðna fólkið sem sér um garðinn. Kristín Helga á margar gæðastundir með sonum sínum sem eru níu ára og fimm ára. „Þessi níu ára þekkir heitin á blómunum og veit nákvæmlega hvað er hádegisblóm og hvað er flauelsblóm og að pelargónían er stærri en í fyrra. Hann fylgist með hverri og einni jurt. Um daginn kom hann hlaupandi inn og sagði: „Mamma sérðu, vepjuliljan er komin upp,“ af því það er uppáhaldsliljan hans. Sá yngri passar sérstaklega upp á býflugurnar og kallar þær vinkonur sínar. Þegar við erum að sá fara þeir saman í gegnum fræin með mér og þeir geta haft áhrif á hvaða blóm koma upp úr moldinni um sumarið.
Þeir hafa mikil tengsl við uppruna matarins, en við veiðum gjarnan okkar eigin fisk og tínum okkar eigin sveppi. Svo erum við með jarðarber og það er dásamlegt þegar sú tíð er. Við ræktum líka æt blóm og við skreytum salatið okkar með blómum. Þegar við bökum þá velja þeir blóm til að skreyta kökuna með og þeir vita hvað er ætt og hvað er ekki ætt. Þetta er ein ástæðan fyrir að við viljum ekki eitra, garðurinn er griðastaður og við viljum nýta hann til fulls.“
Það er meira sem Íslendingar megi læra af Dönum en að hætta að úða eitri yfir gróður. „Við bjuggum í Árósum það voru ákveðin svæði innan bæjarmarkanna sem voru viljandi villt svæði. Þá er ekki slegið, villiblómunum er leyft að vaxa. Þetta er til dæmis á svæðum eins á umferðareyjum og á köntum. Þetta er gagngert gert til þess að hjálpa lífríkinu, þarna ertu líka að draga úr olíunotkun, það er í raun mjög sérstakt að við séum enn að nota jarðefnaeldsneyti til að slá gras,“ segir Kristín Helga og í þessu má velta fyrir sér hvað er fallegt og hvað er búið að kenna okkur að sé fallegt. Með villtari gróðri geta tegundir blómstrað sem hafa jákvæð áhrif á lífríkið. Sjálf segist Kristín Helga ekkert sérstaklega dugleg að slá grasblettinn í garðinum á fjölskylduheimilinu, enda sést varla mikið í grasið fyrir blómum. Garðurinn er kaótískur og dásamlegur og má vera allskonar.