Við Skógarholt í Grímsnesinu er til sölu 46 fm sumarhús sem gleður augað jafnt að innan sem utan. Húsið var reist árið 1989 og stendur á gróðursælli 5.000 fm eignarlóð. Við húsið eru tveir guðdómlegir sólpallar, samtals um 60 fm, sem setja án efa punktinn yfir i-ið.
Sumarhúsið hefur verið innréttað á afar sjarmerandi máta. Í eldhúsinu er ljósgrá eldhúsinnrétting með opnum hillum í stað efri skápa. Fyrir ofan borðstofuborðið hanga falleg bastljós sem skapa notalega stemningu í rýminu.
Úr alrýminu er útgengt á sannkallaðan draumasólpall til suðurs sem er lokaður að hluta með skjólveggjum. Þar er flottur heitur pottur og sérstaklega kósí aðstaða, en pallurinn hefur verið skreyttur með fallegum útihúsgögnum, eldstæði, kertum og útiseríu.
Fyrir framan bústaðinn er einnig fallegur sólpallur með aðstöðu til að borða, notalegum hengistól og plöntum. Í húsinu eru tvö svefnherbergi auk svefnlofts og eitt baðherbergi.