Kristján Andri býr með konu sinni, Söru Björk Sigurðardóttur, dætrum þeirra tveimur, auk þess sem þriðja barnið er á leiðinni. „Við vorum að flytja innan hverfisins fyrir um þremur mánuðum síðan og stækka við okkur. Svalirnar snúa í vestur og eru 15 fermetrar. Þær snúa að stóru leiksvæði og eru bjartar. Mesta sólin er frá miðjum degi til seinni part dags,“ segir Kristján Andri þegar hann lýsir nýju svölunum.
„Gróðurkerin sem við höfum verið með síðustu ár ramma vel inn svæðið og gefa manni notalega náttúrutilfinningu. Að fylgjast með stráum dansa í vindinum er algjör núvitundaræfing. Svo er kósí stóll sem ég nota mikið fyrir hugleiðslu seint á kvöldin. Við erum líka með útieldhús fyrir stelpurnar okkar. Það er fátt skemmtilegra en að hafa þær í góðu veðri úti á svölunum að sulla og svo er ekki verra að þær vökva líka plönturnar í leiðinni. Svalagarðurinn er í raun allur hluti af leiksvæði barnanna og þarna geta þær til dæmis nælt sér í jarðarber beint af plöntu á sumrin.“
Kristján Andri starfar við kennslu en er með BS.-gráðu í landslagsarkitektúr auk þess sem hann er að koma upp vistvænni ræktun á Suðurlandi sem aukabúgrein. „Upprunalega bjó ég til gróðurkerin fyrir minni svalir sem ég var með fyrir þremur árum síðan. Þá var ég í grunnnámi í landslagsarkitektúr og langaði til þess að eignast garð þó ég væri í fjölbýli á 2. hæð. Ég smíðaði gróðurkerin sjálfur úr lerkispýtum og setti krossviðarplötu á botninn og dúk ofan á. Svo eru göt til að það leki í gegn og fætur svo að krossviðarplatan liggi ekki upp við steypta gólfið. Mig langaði til þess að skapa svona villta náttúrustemningu með háum stráum og fjölærum blómum. Síðan þá hef ég í raun lítið þurft að gera fyrir þessi gróðurker. Plönturnar koma upp á hverju ári og það eina sem þarf að passa upp á er að það þorni ekki í þeim. Svo hef ég aðeins bætt lífrænum efnum ofan á, smá moltu og passa að moldin sé ekki ber, klippi niður stráin á haustin og set þau ofan á efsta lag moldarinnar til þess að þau brotni niður og næringarefnin fara þá í hringrás. Að verja efsta lagið hjálpar moldinni að halda raka og er gott fyrir jarðvegslífið.“
Er pláss fyrir allt á svölunum?
„Alveg klárlega pláss fyrir allt sem við þurfum. Gróðurkerin og pottarnir eru meira upp við rammann á svölunum svo við getum alveg komið fyrir stólum og því sem við viljum.“
Finnst þér Íslendingar kunna að meta kosti svala?
„Ég tel að við vanmetum möguleikana og nýtum svalir þess vegna ekki eins mikið og við gætum en auðvitað er þetta einstaklingsbundið. Ég held að eins og með útivist þá geri margir sér ekki grein fyrir hvað það er auðvelt að klæða veður af sér. Það er oft hálfsorglegt hve einsleitar, líf- og litlausar margar svalir eru. En ég hef þá tilfinningu að þetta sé að breytast og við erum farin að sjá alls kyns ólíka notkun á svölum, kaldir pottar, stór gróðurker og betri leiksvæði fyrir börnin.
Ef þú skoðar skipulags- og hönnunartillögur að byggingum og hverfum þá er oft teiknaður mikill gróður á flestar svalir. En svo þegar byggingin er komin upp og ekkert grænt er neins staðar þá má segja að byggingin hafi misst ákveðinn sjarma og líf. Svo á þetta líka við um palla. Margir byggja stóra palla og svo er kannski bara grill, borð og fjórir stólar. Þarna eru mikil tækifæri til þess að lífga upp á svæðið og gera það hlýlegra með gróðri. Vistkerfið þarf líka á því að halda, að við höfum það með inn í jöfnunni.“
Horfir þú á svalir þegar þú ert erlendis og pælir í hvernig fólk nýtir þær þar?
„Já, ég fylgist með og það er alltaf jafngaman að sjá plöntur sem eru inniplöntur á Íslandi þrífast vel úti á svölum víða erlendis. Svona eins og bananatré og pelargónía.“
Er hönnun á svölum eitthvað að breytast með þéttingu byggðar og færri görðum?
„Þétting byggðar minnir okkur kannski betur á það hvað gæði útisvæða skipta miklu máli. Við viljum að þetta litla pláss sem við höfum virki. Okkur líður almennt ekki vel á stórum opnum svæðum en vel rammað inn minna svæði, með gróðri, líkist meira því umhverfi sem frummaðurinn lifði í. Það eru gróðurmiklar gresjur þar sem við gátum falið okkur fyrir rándýrum. Eins og Páll Líndal umhverfissálfræðingur orðar það, að við getum séð án þess að sjást. Það er fátt betra en gróður til þess að ná þeim áhrifum fram.“
Dreymir þig um stóran garð eða er bara nóg að eiga svalir?
„Lengi vel var það draumur að eignast stóran garð enda hefur ræktun plantna verið stórt áhugamál hjá mér í yfir áratug. Draumurinn varð að veruleika fyrir tveimur árum þegar ég keypti nokkurra hektara dreifbýlislóð á Rangárvöllum. Þar stundum við fjölskyldan skógrækt, landgræðslu og grænmetisrækt. Svo það er nóg að gera í því á sumrin og koma upp góðri aðstöðu þar. Þar erum við að reyna að samræma ólík markmið á einni stórri lóð. Það er að taka tillit til mólendis og fuglanna sem þar verpa og svo að rækta upp eyðimelasvæði. Ásamt því að koma upp okkar eigin sumarhúsi í sveitinni.“
Hvað ætlar þú að gera fyrir svalirnar þínar í sumar?
„Í raun erum við komin núna með tvöfalt stærri svalir eftir flutninga í vetur, svo að við eigum eftir að búa til nýtt setusvæði á svölunum og hólfa svalirnar betur niður. Pælingin er að nýta mólendisgróður sem ég á smá auka af eftir framkvæmdir á lóðinni á Rangárvöllum. Að hafa innlent þema í pottum og gróðurkerjum á öðrum hluta svalanna. Það er fátt fallegra en mólendið og gaman að fylgjast með íslensku blómunum í mólendinu sem blómstra í röð yfir allt sumarið. Einnig er það betra fyrir vistkerfið að vera með innlendar tegundir. Á hinum endanum verða eldri kerin áfram með sínum háu stráum og fjölæru blómum og leiksvæðið miðsvæðis,“ segir Kristján Andri.