Hjónin Auður Ingimarsdóttir og Ólafur Jónsson eiga skjólgóðan garð í Breiðholti. Þegar þau keyptu húsið var fjöldi aspa í garðinum og hann skuggsæll. Í dag er garðurinn litskrúðugur allt sumarið og hafa hjónin verið dugleg að prófa sig áfram í ræktun.
„Við höfum bæði áhuga á ræktun og ólumst upp við grænmetis- og kartöflurækt. Þegar við eignuðumst garð var hægt að finna áhuganum víðari farveg. Í skjólgóðum görðum eins og okkar vex nánast allt sem hægt er að rækta úti hér á landi. Garðurinn gefur því tækifæri til tilraunastarfsemi með plöntur, sem stundum heppnast og stundum ekki, allt eftir árferði. Skjólgóðir garðar með fjölbreyttum gróðri skapa einnig tækifæri fyrir fjölbreytilegra fuglalíf. Það eru því forréttindi að eiga garð að okkar mati og njóta þess lífríkis sem hann hefur upp á að bjóða,“ segir Auður en auk þess að sjá um garðinn heima stunda þau yndisrækt úti á landi.
„Í gegnum árin höfum við verið að prófa okkur áfram og bætt við blómstrandi runnum, svo sem sírenum, koparreyni, harðgerðum rósum, sólbroddum og klifurplöntum, fjölgað fjölæringum, bæði stórvöxnum og lágvaxnari. Við viljum helst hafa fjölbreytilegar plöntur og liti í garðinum og lauslega skipuleggjum garðinn þannig að einhverjar plöntur eru í blóma frá vori og fram á haust. Við setjum oftast niður haustlauka til að fá blóm snemmsumars. Ég kaupi einnig smávegis af sumarblómum til að auka á litfegurð garðsins.“
Áttu þinn uppáhaldsstað eða uppáhaldsblóm í garðinum?
„Ég á engan sérstakan uppáhaldsstað í garðinum en helst þó nálægt uppáhaldsblómunum sem eru núna friggjarlykill, blágresi og bóndarós. Friggjarlykillinn hefur lítil falleg appelsínugul blóm sem ilma dásamlega, blágresið blíða er yndisfagurt og blóm bóndarósarinnar gleðja mikið.“
Hvaða matjurtir ræktið þið?
„Við ræktum aðallega káltegundir til heimilisnota og smávegis af kartöflum. Við höfum verið að prófa ýmis kartöfluyrki frá Garðyrkjufélaginu okkur til skemmtunar. Við höfum einnig ræktað jarðarber, gulrætur, hvítlauk, ertur, steinselju og fleira og erum með myntu og graslauk í garðinum.“
Er hægt að gera mistök í garðinum?
„Það er vel hægt að gera mistök í garðinum en oftast er einfalt að laga þau eða bara ákveða að lifa með þeim. Helstu mistökin eru að ég vel plöntum ekki heppilega staði í upphafi, stundum er plantað of þétt og fleira. Sumar plöntur eru mjög sólelskar á meðan aðrar dafna betur í nokkrum skugga en þá er bara að flytja þær til.“
Er ekki mikil vinna að eiga stóran garð?
„Við stundum það sem ég vil kalla afslappaða garðrækt. Hér eru beðin hreinsuð á vorin, arfa haldið niðri þegar tími er til og fíflar stungnir upp. Ég hef það fyrir sið að kippa upp amaplöntum þegar ég geng um garðinn, tekur enga stund og plönturnar ná síður að sá sér. Mosi á steinum eða hellum truflar ekki, hann bætir bara í litaflóruna. Við höfum á einum stað byggt upp beð en annars staðar eru beðin frjálsleg og kantar ekkert endilega beinir eða vel ristir. Við eru ekki alltaf heima hjá okkur yfir sumartímann og missum stundum tökin í umhirðunni. Sum sumur er garðurinn snyrtilegri en önnur. Og það er bara allt í lagi. Við eitrum ekki og í seinni tíð sér töluvert á birkilaufinu og lýs dafna á rósunum en þá njóta aðrir, eins og til dæmis geitungar. Garðurinn tekur eiginlega alltaf vel á móti okkur og það má ekki gleyma að njóta þess að vera bara í garðinum, njóta sólar, fuglasöngs, suðs hunangsflugnanna í meyjarrósinni og ilmsins frá plöntunum.“
Hvað er yndisræktun?
„Yndisræktun er ræktun fjölbeytilegs trjágróðurs þar sem áhersla er á fjölbreytni í stað magns eða ræktunar á fáum tegundum. Við hófum slíka ræktun með foreldrum mínum á litlum landskika í fögrum eyðidal norður í landi fyrir rúmum 20 árum. Þar er risinn lítill skógarreitur með fjölbreyttum tegundum eins og birki, elri, greni, lerki, furu, reynivið, ösp, loðvíði og fleiri víðitegundum. Í þessum reit verpa nú þrestir, maríuerlan og fleiri smáfuglar hafa fundið sér þar samastað. Þangað er yndislegt að koma, inn í fegurðina og kyrrðina. Leggjast niður á milli trjánna, horfa upp í trjákrónurnar, fylgjast með skýjafarinu á himninum, finna algjöra hvíld og hugarró. Að rækta skógarreit er svolítið annað en garðrækt og minni vinna ef girðingarvinna er frátalin. Plantað að hausti, borið á að vori og notið yfir hásumarið. En ræktunin er oft barningur þar sem töluverð afföll verða fyrstu árin eftir að bakkaplöntur eru settar niður. Og stundum gerir erfið vetrarhret eða bara brjáluð veður sem skemma jafnvel stór tré. Við erum að koma okkur upp öðrum reit hér á Suðurlandinu okkur til yndis og þar er farið að sjá í plöntu og plöntu. Og þar ræktar Ólafur býflugur.“
Hvernig gengur býflugnaræktunin?
„Býflugnarækt er ekki alltaf auðveld búgrein hér á landi en heilt yfir hefur býflugnabúskapurinn gengið þokkalega. Vissulega eru afföll í vondum árum og búin missterk til að ráða við óblíða náttúru og innri veikleika en það er fátt sem gleður býflugnabændur meira að vori en að vita af lifandi og heilbrigðu búi. Býflugnabú þurfa skjól og þar sem eru skjól og býflugur, þar dafnar einnig fjölbreytilegt úrval blómstrandi plantna. Bragðið af hunangi býflugnanna ber keiminn af þeim blómplöntum sem þær heimsækja sem er mismunandi eftir staðsetningu búanna og nálægð við ríkjandi blómgróður. Flestir býflugnabændur eru með búin sín staðsett á Suðurlandi.“
Hvað ætlið þið að gera í sumar í garðinum og annarri ræktun?
„Nú stendur til að mosahreinsa lóðina og sá grasfræi. Svo verður væntanlega einhverjum fjölæringum bætt inn og aðrir lúnir fjarlægðir. Á dagskrá er að finna purpurarauða plöntu sem færi vel í einu horni garðsins. Og svo að planta meiru í yndisreitinn á Suðurlandi.“