Hafsteinn Júlíusson og Karitas Sveinsdóttir, eigendur HAF studio, hafa fest kaup á einbýlishúsi við Fjölnisveg 14 í Reykjavík. Um er að ræða 306 fm einbýli sem byggt var 1934. Húsið stendur á hljóðlátum stað í Þingholtunum og býr yfir sjarma þess tíma sem það var byggt á.
Hjónin eru þekktar smekkmanneskjur en þau hafa gert upp fjölda íbúða og húsa fyrir sjálfa sig og hannað veitingastaði, verslanir og heimili fyrir fólk undir merkjum HAF.
Áður en Hafsteinn og Karitas festu kaup á húsinu við Fjölnisveg bjuggu þau á öðrum stað í miðbænum, nánar tiltekið við Laufásveg. Hjónin festu kaup á því húsi fyrir nokkrum árum og endurbættu mikið. Þau settu til dæmis svipsterkan marmara í eldhúsið sem fer vel við ljósar eikar-innréttingar úr þeirra smiðju.
Það verður forvitnilegt að fylgjast með hjónunum á nýjum stað. Þau eiga án efa eftir að töfra fram eitthvað fallegt sem gleður augað.