Íslenski vopnasalinn Guðjón Valdimarsson og eiginkona hans, Ingunn Þorsteinsdóttir, hafa sett einstakt einbýli sitt í Hafnarfirði á sölu.
Guðjón rekur vefverslunina vopnasalinn.net og komst í fréttir í lok síðasta árs í tengslum við víðtæka rannsókn á fyrsta hryðjuverkamáli sem komið hefur upp hérlendis.
Glæsivilla Guðjóns og Ingunnar var teiknuð af Vífli Magnússyni arkitekt og var ekkert til sparað þegar húsið var byggt. Það er 349 fm að stærð og var byggt árið 2008. Guðjón og Ingunn hafa búið í húsinu frá upphafi.
Í húsinu eru harðviðargluggar og sérstak sólstopp gler. Þakkantar og fletir ofan á steyptum veggjum og ruslaskýli á lóð eru allir klæddir með kopar auk þess sem öll niðurföll á húsinu eru úr kopar.
Í miðju húsinu er stofa sem hægt er að horfa niður í af efri hæðinni. Þessi stofa státar af tvöfaldri lofthæð sem gerir húsið konunglegt. Aukin lofthæð er í flestum rýmum hússins og er þar að finna innfellda lýsingu í nánast öllum loftum.
Á fasteignavef mbl.is segir frá því að í húsinu sé mjög stórt líkamsræktarherbergi sem er gluggalaust og með mikilli lofthæð og að í þessu rými sé öflug loftræsting. Inn af líkamsræktarherberginu er mjög stór geymsla.