Á dögunum var fjallað um einstaklega fallegt einbýlishús við Barðavog í Reykjavík. Nú hefur húsið verið selt. Nýir eigendur eru Vilhjálmur Karl Norðdahl og Álfhildur Ösp Reynisdóttir læknir. Hún heldur úti skemmtilegum reikningi á Twitter þar sem majonesfælni læknirinn bendir á spaugilegu hliðar lífsins. Hún heldur einnig úti Instagram-reikningnum Barnabitar þar sem hún deilir áhugaverðum uppskriftum og mömmulífinu og er með rúmlega 9 þúsund fylgjendur.
Það mun því ekki væsa um fjögurra manna fjölskylduna í þessu einstaka húsi sem er 197fm að stærð. Húsið var byggt 1951.
Það var teiknað af Ágústi Pálssyni sem teiknaði meðal annars Neskirkju og Gljúfrastein. Það er ekki bara hönnun hússins sem er skemmtileg því húsráðendur hafa búið sér einstakt heimili. Þegar inn í eldhús er komið er að finna nýlega gráa sprautulakkaða innréttingu með viðarborðplötum. Risastór gaseldavél fær að njóta sín í eldhúsinu en þó er ekki verið að flækja það með óþarfa efri skápum.
Húsið stendur á gróðursælum stað í Langholtshverfinu.
Smartland óskar fjölskyldunni til hamingju með húsið!