Glæsilegt einbýlishús við Holtsbúð í Garðabæ var til umfjöllunar á Smartlandi í febrúar á þessu ári. Um er að ræða 249 fm einbýli sem teiknað var af Kjartani Sveinssyni og byggt árið 1979. Eignin var innréttuð á sjarmerandi máta, en innanhúsarkitektinn Rut Káradóttir hannaði baðherbergin og kom að litavali í húsinu. Stórir gluggar hleypa mikilli birtu inn á efri hæð hússins, en þar hafa veggirnir verið málaðir í gráum lit sem tónar fallega við bæði gólfefni og húsmuni. Í stofunni er glæsilegur arinn sem gefur rýminu skemmtilegan karakter.
Ásett verð var 180.000.000 kr. Nú hefur húsið verið selt og fór það á yfirverði eða tveimur milljónum meira en húsið var auglýst á. Fanndís Friðriksdóttir og Eyjólfur Héðinsson festu kaup á húsinu. Hann er fótboltamaður og afreksþjálfari hjá Breiðablik og hún er landsliðskona í fótbolta. Parið bjó áður við Foldasmára og greindi Smartland frá því þegar íbúðin fór á sölu.
Smartland óskar Fanndísi og Eyjólfi til hamingju með nýja húsið!