Við Álmakór í Kópavogi er að finna tignarlegt 432 fm einbýlishús á tveimur hæðum sem reist var árið 2009. Sigurður Hallgrímsson er arkitekt hússins og sá Guðbjörg Magnúsdóttir um innanhússhönnun.
Aðkoma að húsinu er afar snyrtileg. Gengið er inn á efri hæð hússins sem hefur mikinn lúxusbrag, en granít prýðir gólf, eldhúseyju, eldhúsbekk og baðherbergi.
Skemmtilegt ljós frá Flos fangar augað í stofunni, en þar má einnig sjá frægustu hönnun Isamu Noguchi, Virta borðstofuborðið.
Í borðstofunni skapa hin formfögru Aplomb-ljós notalega stemningu, en það voru Lucidi og Pevere sem hönnuðu ljósið árið 2016. Fallegur spegill frá Reflections Copenhagen setur svo punktinn yfir i-ið og gerir mikið fyrir rýmið.
Í rúmgóðu eldhúsi má sjá stílhreina sérsmíðaða innréttingu úr svartbæsaðri eik með góðu vinnu- og skápaplássi. Þaðan er útgengt á verönd um stóra rennihurð.
Eignin státar af fimm svefnherbergjum og þremur baðherbergjum, þar af er 37 fm hjónaherbergi með sérsmíðuðu fataherbergi og sér baðherbergi.