Andlát: Pétur Bergholt Lúthersson

Pétur Bergholt Lúthersson er látinn 87 ára að aldri.
Pétur Bergholt Lúthersson er látinn 87 ára að aldri.

Pétur Bergholt Lúthersson húsgagnahönnuður og innanhúsarkitekt (FHI) IFI andaðist 9. október 87 ára að aldri eftir skammvinn veikindi. Pétur var meðal frumkvöðla á sviði íslenskrar húsgagnahönnunar upp úr miðri síðustu öld og eftir hönnun hans hafa verið framleiddir tugþúsundir stóla, sófa, lampa og ljósa bæði á Íslandi og erlendis um áratugaskeið.

Pétur var Snæfellingur, fæddist í Stykkishólmi 2. september 1936 og ólst upp á bænum Bergholti í Staðarsveit, yngstur sjö systkina. Þegar foreldrar hans brugðu búi hélt hann með fjölskyldunni til Reykjavíkur og tók Sveinspróf í húsgagnasmíði árið 1958 og hélt síðan til Kaupmannahafnar til náms í húsgagna- og innanhúsarkitektúr á Kunsthåndværksskolen í Kaupmannahöfn 1961-1964.

Hér er Pétur ungur að árum að teikna en hann …
Hér er Pétur ungur að árum að teikna en hann lærði í Kaupmannahöfn.

Áður en hann hóf feril sinn í húsgagnahönnun á Íslandi starfaði hann á teiknistofum arkitekta í Kaupmannahöfn og Reykjavík um tíu ára skeið, til 1974. Meðal verka hans voru innréttingar í skrifstofubyggingum, bönkum og stofnunum svo sem sjúkrahúsum og hjúkrunar- og dvalarheimilum.

Pétur rak teiknistofu í eigin nafni, PBL Design, frá árinu 1974 og átti samstarf við nokkur helstu húsgagnafyrirtæki landsins svo sem Gamla Kompaníið, Axis húsgögn, Trésmiðjuna Víði, Stáliðjuna, Sóló húsgögn o.fl. um hönnun skrifstofu- og stofnanahúsgagna og fjölda stóla til almennra nota. Þá hannaði hann lampa fyrir Málmsteypu Ámunda Sigurðssonar sem og lampann Heklu ásamt Jóni Ólafssyni húsgagnaarkitekt sem framleiddur var hjá Fog og Mörup A/S í Danmörku. Tók hann þátt í fjölmörgum samkeppnum í Danmörku og á Íslandi og vann til verðlauna. Síðustu tvo áratugi ferils síns einbeitti Pétur sér einkum að samstarfi við erlend fyrirtæki á borð við Labofa A/S í Danmörku, Heinrich Brune GmbH í Þýsklandi, Rosenthal Einrichtung í Þýskalandi, Tonon Spa á Ítalíu, Tract Ltd í Bretlandi, Wemal í Slóvakíu og Beaufurn í Bandaríkjunum. Árið 1991 fékk Pétur meðal annars Rauða punktinn fyrir frábæra hönnun á Teso stólnum sem framleiddur var hjá Rosenthal í Þýskalandi og staflanlegi ráðstefnustóllinn Stacco er flestum að góðu kunnur enda prýðir hann enn sali víða hér á landi og erlendis.

Ljósið Heklu hannaði Pétur 1963 ásamt Jóni Ólafssyni.
Ljósið Heklu hannaði Pétur 1963 ásamt Jóni Ólafssyni.

Ferill Péturs var samofinn aukinni útrás íslenskra iðnframleiðenda á erlendum mörkuðum, fyrst í kjölfar inngöngu Íslands í EFTA 1970 og síðar aðildarinnar að Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Pétur var óþreytandi við að nýta ný færi, leita fyrir sér á nýjum miðum erlendis og var þannig ötull við að vinna að framgangi íslenskrar hönnunar og framlagi íslenskra hönnuða sem um áratugaskeið höfðu búið við umhverfi hafta og hamla á nýsköpun. Pétur var þannig beinn og virkur þátttakandi í þeirri viðleitni að kynna íslenska iðnhönnun erlendis, fyrst í gegnum Útflutningsmiðstöð iðnaðarins og svo síðar annarra aðila.

Hér er Stacco stóllinn eftir Pétur Bergholt Lúthersson í svörtu …
Hér er Stacco stóllinn eftir Pétur Bergholt Lúthersson í svörtu og rauðu áklæði.

Var hann fastur þátttakandi á húsgagnasýningum í BellaCenter í Kaupmannahöfn og í Köln í Þýskalandi. Þar var eftir hönnun hans tekið af erlendum framleiðendum sem síðar hófu farsælt samstarf við Pétur. Pétur var iðinn við módelsmíði af hönnun sinni og eftir hann liggja fjölmörg nákvæm módel sem auðvelduðu honum að kynna hönnun sína fyrir erlendum framleiðendum. Átti Pétur afar gott samstarf við Hönnunarsafn Íslands sem er með í safneign sinni flest hönnunarverk hans.

Hér er loftljós eftir Pétur.
Hér er loftljós eftir Pétur.

Í viðtali við Aðalstein Ingólfsson listfræðing í tengslum við sýninguna Stólar Péturs – stólahönnun í 40 ár – í Hönnunarsafni Íslands árið 2002, segir Pétur að stóll sé eins og afmarkað fyrirbæri. 

„Ég held að grundvallarviðhorf mín hafi ekki breyst. Ég lít enn á mig sem handverksmann sem reynir að uppfylla þær kröfur sem þorri manna gerir til nytjahluta. Endur fyrir löngu gerði ég upp við mig að það ætti best við mig að hanna húsgögn, einkum og sér í lagi stóla. Af hverju? Vegna þess að stóll er afmarkað fyrirbæri – eins og eyja – sem hægt er að skoða út af fyrir sig og öðlast ágætan skilning á.“

Hér má sjá stól og skemil eftir Pétur.
Hér má sjá stól og skemil eftir Pétur.
Hengilampinn Hekla eftir Jón Ólafsson og Pétur B. Lúthersson.
Hengilampinn Hekla eftir Jón Ólafsson og Pétur B. Lúthersson. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda