Píratinn Andrés Ingi Jónsson og eiginkona hans, Rúna Vigdís Guðmarsdóttir forstöðukona, hafa fest kaup á glæsilegu raðhúsi við Laugalæk. Húsið keyptu þau af Breka Logasyni upplýsingafulltrúa Orkuveitunnar og Védísi Sigurðardóttur stjórnendamarkþjálfa. Andrés Ingi og Rúna Vigdís greiddu 134.000.000 kr. fyrir húsið.
Húsið er 174 fm og var byggt 1960 og hefur húsið verið endurnýjað mikið. Eldhús og stofa eru í sameiginlegu rými. Í eldhúsinu eru innréttingar frá HTH með eikarlituðum hurðum að hluta til. Stíllinn er svolítið danskur og minnir á eldhúsin sem stundum birtast í Bo Bedre. Á móti eikinni eru hurðar, sem ná upp í loft, með sprautulakkaðri áferð. Absolute White Quartz steinn er á borðplötunum.