Steinninn breytist með tímanum eins og sjálf sorgin

Að undanförnu hefur hönnuðurinn Dögg Guðmundsdóttir hannað verk sem tengjast …
Að undanförnu hefur hönnuðurinn Dögg Guðmundsdóttir hannað verk sem tengjast dauðanum.

Hönnuðurinn Dögg Guðmundsdóttir hefur komið víða að á hönnunarferli sínum, en að undanförnu hefur hún hannað verk sem tengjast dauðanum. Á síðasta ári hannaði hún fjölnota líkkistu og nú hafa fleiri verk bæst í hópinn, bæði duftker úr endurunnum pappír og fjölnota legsteinn. 

Haustið 2022 sýndi Dögg verkið A Lifetime á SE-húsgagnasýningunni í Kaupmannahöfn. A Lifetime er mubla sem fylgir eiganda sínum út lífið og fer úr því að vera rúm yfir í sófa, úr sófa yfir í bekk, og að lokum úr bekk yfir í líkkistu. 

Mublan A Lifetime sem Dögg sýndi á SE-sýningunni á síðasta …
Mublan A Lifetime sem Dögg sýndi á SE-sýningunni á síðasta ári. Ljós­mynd/​Marie Char­lotte Ravet

„Hví ekki að loka hringnum og gera legstein“

Nýverið sýndi Dögg nýjasta verk sitt á sömu sýningu í Kaupmannahöfn, en verkið kallar hún A Peaceful Place og er fjölnota legsteinn. „A Peaceful Place er hugsaður fyrir minni grafreiti fyrir duftker þar sem lítið pláss er fyrir bæði blóm og vinnugræjur eins og skóflu og litla hrífu, og hvað þá pláss til að hafa lítið sæti til að tilla sér á og eiga stund með sjálfum sér nálægt hinum látnu,“ segir Dögg.

„Ég var nýbúin að hanna fjölnota kistu, A Lifetime, fyrir sömu sýningu á síðasta ári og svo hannaði ég í millitíðinni duftker úr endurunnum pappír sem er nýkomið á markað hér á Íslandi hjá Aska Bio Urns. Því hugsaði ég: „Hví ekki að loka hringnum og gera legstein“,“ útskýrir Dögg. 

„Við systkynin vorum nýbúin að kaup legstein handa foreldrum okkar sem kvöddu með stuttu millibili og pabbi fékk að vígja duftkerið núna í vor. Þegar við vorum að jarða hann þá mætti systir mín með stóra skeið til að setja niður blómin þar sem hún fann ekki garðskófluna. Þá hugsaði ég að það væri nú gott ef maður gæti haft aðgang að svona smá græjum í kirkjugarðinum eða geta falið skóflu undir steininum. Þá þyrfti maður ekki að hugsa um það að hafa alltaf skóflu með sér og aðrar græjur til að planta blómum eða ditta í kringum steininn,“ rifjar hún upp. 

„Á sama tíma var ég að huga að nýrri hugmynd fyrir SE-sýninguna og að þessu sinni var það konseptið „A Piece for A Place“ með það í huga að hanna eitthvað nýtt fyrir annaðhvort stað eða byggingu í Kaupammahöfn þar sem Kaupmannahöfn var útnefnd af UNESCO sem Arkitektaborg heimsins í ár,“ bætir hún við. 

Hér má sjá Dögg kynna verkið á SE-sýningunni í Danmörku.
Hér má sjá Dögg kynna verkið á SE-sýningunni í Danmörku.

Rannsakaði danska kirkjugarða fyrir verkið

Aðspurð segir Dögg hönnunarferlið hafa falist í því að rannsaka hvernig menning er í kringum danska kirkjugarða, en hún segir þá vera mun opnari en hér á landi og að í raun séu þeir notaðir sem almenningsgarðar. „Ég fór að skoða byggingar, kirkjuturna og hina ýmsu kirkjugarða í Kaupmannahöfn og hálfpartinn njósna um hvað fólk gerði í kirkjugörðum í Kaupmannahöfn. Hér eru kirkjugarðar mjög mikið notaðir sem almenningsgarðar þar sem farið er í lautarferðir og bara huggað sig á bekkjum í ró og næði,“ bætir hún við.

„Ég tók eftir því að Danir voru margir hverjir með stóla og bekki inni á stærri grafreitum og földu eigin skóflur og græjur nálagt steinunum, eða bakvið þá eða í boxum undir bekknum. Svo voru eldri konur að planta blómum með pappa undir hnjánum til að hlífa buxunum eða pilsinu. Þá kom upp þessi hugmynd að gera legstein með rými til að geyma græjurnar og falinn koll sem bæði væri hægt að sitja á og snúa við til að nota undir hnén þegar verið væri að planta blómunum. Á honum eru auka handföngum úr korki til að geta staðið upp auðveldlega aftur og korkseta til að hlífa betur hnjám og afturenda ásamt fötum fyrir hnjaski,“ segir Dögg.

Prófaði sig áfram

Í legsteininn notaðist Dögg við efnivið eins og corten-stál, kopar og kork. „Í byrjun var meiningin að nota steinplötu eða keramikplötu, helst í grænum lit, á toppinn og láta rista nafnið í með letri sem minnti á rúna letur sem ég hannaði með rúnir í huga. En þar sem það var of dýrt og mikið vesen að fá skorið þennan stein með rúnuðum köntum eða gera keramik plötu sem passaði í steininn þá varð kopar fyrir valinu sem toppþak á steininn, enda eru flestar kirkjur í Kaupmannahöfn með þak úr kopari sem eldist vel og breytir um lit með tímanum og verður oftast fallega grænblátt eða ljós græn á litin,“ segir Dögg.

„Svipað gerist með corten stálið það breytir um lit og ryðgar yfirborðið oft í fallegan brúnrauðan lit. Þetta eru því efni sem er mikið notast við í dönskum arkitektúr og eldast vel með tímanum utandyra og verða oft fallegir á litinn. Því breytist steinnin með tímanum eins og sjálf sorgin sem breytist með tímanum,“ bætir hún við.

Dögg segir steininn í byrjun vera silfraðan og gulllitaðan, en eftir einhver ár endar hann rauðbrúnn og pastelgrænn. „Ég prófaði hinar ýmsu tilraunir með að fá steininn eða koparplötuna grænbláa eins og kopar verður eftir 3-15 ár utandyra. Ég prufaði salt, edik, sojasósu og plöntuvítamín sem ég bar á plötuna sem var í plastkassa með loki. Undir plötunni sem lá á fjórum glösum með salmiak spíra og úr varð þessi litur sem endaði á steinum,“ útskýrir hún.

„Ég held ég hafi gert þetta aftur og aftur, sirka sjö sinnum í 3-12 tíma í senn og svo lagði ég þetta í heitt vatnsbað á milli og þurrkaði. Á endanum varð þetta soldið eins og málverk með litarbrigðum,“ bætir hún við.

„Allt er hægt að geyma inni í steininum ásamt t.d. …
„Allt er hægt að geyma inni í steininum ásamt t.d. pela af Brennivíni, en járnsætið sem er utan á steininum er læst við hurðina og er það sjálft formið af sætinu sem skapar form legsteinsins.“

Þurfti að huga að þjófum og músum

Spurð hvað hafi verið mest krefjandi í hönnunarferlinu segir Dögg það hafa verið að finna út úr því hvar hægt væri að staðsetja geymsluplássið og sætið í steininum sjálfum. „Fyrst huggsaði ég að það væri sniðugt að hafa opna skúffu með öllum græjunum á bakvið steininn og nota hana til að sitja á, en þá kom í ljós að flestir steinar eru upp við hekk og trjárunna hér i Kaupmannahöfn og því ekki hægt að opna skúffuna aftan frá,“ segir hún. 

„Þar sem minni steinar á grafreiti fyrir duftker þurfa helst að liggja með halla svo textinn sjáist og auðveldera er að hreinsa regnvatn og snjó af þá fór ég nánast eftir þeirri reglu. Líka vegna þess að í Sóllandi í Reykjavík þar sem foreldrar mínir eru jarðaðir eru mest hólar og því bara leyfilegt að nota liggjandi steina á því svæði. Ég vildi líka hugsa um íslenskar aðstæður og ekki bara danskar,“ segir hún. 

Á hinn bóginn segir Dögg það skemmtilegasta við hönnunarferlið hafa verið að leysa vandamálið svo bæði hönnunin, efniviðurinn og útlitið haldist í hendur. „Svo er alltaf gaman að ræða við fólk sem tengist verkinu á einhvern hátt, eins og t.d. hér þeim sem vinna í kirkjugörðunum og aðstandendur sem höfðu áhuga á að spjalla um hvað var þörf á. Í fyrstu ætlaði ég t.d. ekki endilega að hafa hurð á steininum né lás til að læsa öllu saman. Ég hélt að það væru hvorki þjófar né mýs og rottur að flækjast um svona fína kirkjugarða,“ segir Dögg.

„Þá var mér bent á ef að handfangið á setunni væri svona stórt og það væri bara hola fyrir aftan þá myndi allt fyllast af músum eða rottum inni í steininum. Því var látin hurð og handfang sem hægt var að nota til að setja lás á hurðina og sætið. Þá yrði því ekki stolið né græjunum sem eru geymdar inni í steininum, því það flækjast víst líka þjófar fyrir í kirkjugörðum og stela hlutum,“ bætir hún við.

Hafa fengið góðar viðtökur hérlendis og erlendis

Verk Daggar sem tengjast dauðanum hafa fengið góð viðbrögð bæði hérlendis og erlendis. „Bæði þetta verk og verkið frá því í fyrra komst í Pólitiken og fengu góða umfjöllun á netmiðlum í Danmörku og erlendis. Það sama má segja um duftkerin, en þau fengu góðar viðtökur eftir að við sýndum þau á Hönnunarmars í vor,“ segir hún. 

Dögg hannaði duftkerin ásamt Heiðu Einarsdóttur og Þórhildi Einarsdóttur.
Dögg hannaði duftkerin ásamt Heiðu Einarsdóttur og Þórhildi Einarsdóttur.

Það er margt spennandi framundan hjá Dögg sem er með marga bolta á lofti, en á næstunni kemur á markað sófaborð sem hún hefur unnið að að undanförnu. „Svo er spurning að hanna fleiri hluti fyrir nýtt líf í framtíðinni og ekki bara dauðann, en ég væri alveg til í að hanna til dæmis vöggu með góðu notagildi,“ segir hún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda