Við Sunnuflöt í Garðabæ er að finna einstaklega smekklegt 278 fm einbýlishús. Húsið var byggt 1965 og hefur verið endurnýjað mikið. Eigendur hússins eru Magnús Scheving Thorsteinsson og Þórey Edda Heiðarsdóttir. Þau festu kaup á húsinu 2017.
Eldhús og stofa renna saman í eitt og er vegleg innrétting í eldhúsinu sem er úr spónlagðri eik. Hnausþykkur marmari prýðir eyjuna í eldhúsinu og eru hillur í eldhúsinu fyrir gluggunum sem eru ekki mjög eldhúslegar. Þær skapa hinsvegar fallega dýpt og gera það að verkum að yfirbragðið er öðruvísi.
Í húsinu eru arinn sem er klæddur með Drápuhlíðargrjóti en veggurinn sem er við arininn er klæddur með tekki.
Það er margt skemmtilegt í húsinu sem er töluvert öðruvísi en gengur og gerist. Eins og til dæmis flöskugrænar flísar á baðherbergi og veggfóður með ljónum sem fara vel við kampavínslitaðan marmara.