Vigfús Bjarni Albertsson, prestur og forstöðumaður fjölskyldu- og sálgæsluþjónustu kirkjunnar, og Bergþóra Jónsdóttir hafa sett tignarlegt einbýlishús sitt við Bleikjukvísl í Árbænum á sölu. Húsið er á tveimur hæðum og telur 323 fm, en það var reist árið 1983.
Í rúmgóðu alrými á efri hæð hússins er að finna eldhús, borðstofu og stofu. Eldhúsið var tekið í gegn árið 2021, en þá voru skápar færðir til og skipulagi breytt á upprunalegri Alno-innréttingu sem fékk annars að halda sér. Svartir og gráir tónar eru í forgrunni í rýminu, bæði á innréttingu og veggjum.
Í stofunni hleypa stórir gluggar mikilli birtu inn, en þar má einnig sjá steyptan arinn á milli stofu og borðstofu sem gefur rýminu mikinn sjarma. Frá borðstofu er útgengt á snyrtilega verönd, en garðurinn í kringum eignina er gróinn með nýlegu gróðurhúsi og timburverönd.
Eignin státar af sjö svefnherbergjum og fimm baðherbergjum, en á efri hæð hússins er aukaíbúð með eldhúsi, stofu, borðstofu, svefnherbergi, baðherbergi og sólstofu. Neðri hæðin telur 78 fm en þar er að finna þrjú svefnherbergi, eitt baðherbergi, sjónvarpsstofu og forstofu. Ásett verð er 199 milljónir.