Svona getur þú sparað í matarinnkaupum

Svona getur þú sparað í matarinnkaupum!
Svona getur þú sparað í matarinnkaupum! Ljósmynd/Unsplash/Getty

Það eru margir sem setja sér markmið á nýju ári sem tengjast sparnaði og peningamálum á einhvern hátt. Sumir vilja elda meira heima og reyna þannig að spara pening á meðan aðrir vilja vera skipulagðari í matarinnkaupum. 

Það eru eflaust flestir sammála því að matarkarfan á Íslandi sé ekki ódýr. Það eru þó hægt að spara þegar kemur að matarinnkaupum, en nýlega birtist myndband á TikTok-reikninginum Leitin að peningunum með hagnýtum sparnaðarráðum fyrir næstu búðarferð. 

1. Skrifaðu niður innkaupalista.

Það getur verið gott að skipuleggja matarinnkaupin áður en haldið er af stað í búðina. Þá er einnig mælt með því að kaupa allt sem þarf fyrir vikuna, nema þá kannski ferskvöru eins og kjöt, fisk eða grænmeti sem neyta á síðar í vikunni.

2. Ekki fara svöng að versla.

Það segir sig sjálft – það er ýmislegt sem getur endað óvænt í körfunni ef maður fer svangur að versla.

3. Breyttu til og ekki versla alltaf í sömu búðinni.

„„Matvöruverslanir eru hannaðar með það í huga að við eyðum sem mest af peningum þegar við förum inn í þær. Því þurfum við að ganga í gegnum alla búðina til að kaupa mjólk, kjöt og fisk. Ákveðnum vörum er stillt upp í augnhæð svo við komumst ekki hjá því að sjá þær og þar af leiðandi erum við líklegri til að kaupa þær. Verum meðvituð um þetta.

Við höldum mikið í vana og því er gott að breyta til og versla ekki alltaf í sömu búðinni. Þannig verslum við minni óþarfa. Í nýrri búð þarf maður að leita að hlutunum sem maður fór til að kaupa og verður því meðvitaðri um hvað maður er að versla,“ er útskýrt í myndbandinu.

4. Kauptu mikið magn af vöru – en aðeins ef þrjú skilyrði eru uppfyllt:

  • Kílóaverð vörunnar er lægra í magni
  • Þú hefur pláss til að geyma þessa vöru
  • Þú munt ná að neyta vörunnar áður en hún skemmist eða er komin yfir síðasta söludag

5. Kauptu grænmeti í stykkjatali.

Þó það geti verið þægilegt að kaupa innnpakkað grænmeti er það oftast dýrara en grænmeti í stykkjatali. 

6. Ekki kaupa snakk og sælgæti til að eiga.

Sumar matvörur, eins og snakk og sælgæti, eru þannig að þær eru bara borðaðar ef að þær eru til. Því er best að kaupa slíkar vörur einungis þegar á að neyta þeirra, en ekki til þess að eiga þær til uppi í skáp.

7. Leggðu saman það sem fer ofan í körfuna jafn óðum.

Það er góð regla að leggja stuttlega saman verðið jafn óðum og hlutum er hent ofan í innkauðakörfuna, en þá fáum við betri yfirsýn yfir eyðsluna og verðið kemur okkur síður á óvart þegar við komum að kassanum. 

8. Nýttu þér netverslanir.

Netverslanir matvörubúða geta verið sniðugar, en þar er auðvelt að fá yfirsýn yfir það sem komið er í körfuna og á sama tíma sleppur þú við búðarferðina. 

9. Hafðu augun opin fyrir góðum tilboðum.

Það getur verið sniðugt að nýta sér tilboð. Ef við sjáum að vara sem við kaupum gjarnan er á útsölu er sniðugt að koma henni fyrir á vikumatseðlinum. 

10. Það er ekkert að því að frysta!

Stundum fer matvara á tilboð þegar hún er að fara á síðasta söludag. Ef gæði hennar hafa ekki skerst er ekkert að því að kaupa nokkur eintök til að frysta og neyta síðar. 

11. Léttari máltíðir geta verið góður kostur

Í myndbandinu er útskýrt að ef allir í fjölskyldunni fá heitan og hollan mat í hádeginu þá sé í raun ekkert sem mælir gegn því að hafa einfaldari mat um kvöldið, eins og súpur, salat, samlokur eða grauta.

12. Nýttu afgangana daginn eftir

Mælt er með því að matarinnkaupin og eldamennskan sé skipulöggð þannig að hægt sé að nota afganga í hádegismat daginn eftir.

13. Tvöföld eða þreföld uppskrift

Það getur bæði sparað tíma og pening að gera tvöfalda eða þrefalda uppskrift og frysta svo afganginn.

14. Hádegisseðlar eru oft ódýrari

Það er gaman að gera vel við sig og fara út að borða. Ef þig langar út að borða á fínni staði en vilt samt spara pening, þá er mælt með því að skoða hádegismatseðla þar sem þeir eru oft ódýrari en kvöldseðlarnir.

15. Nýttu þér tilboð á matsölustöðum

Það má svo sannarlega leyfa sér að fara út á matsölustaði eða skyndibitastaði af og til, en þá er mælt með því að skoða tilboð frá símafyrirtækjum eða bönkum sem bjóða oft upp á tveir fyrir einn tilboð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda